Börn. Meðlag.

(Mál nr. 12435/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga um að synja beiðni um ívilnandi úrræði.  

Lögum samkvæmt verður skuldari að hafa staðið við greiðslusamning í þrjú ár til að eiga kost á niðurfellingu höfuðstóls. Með hliðsjón af gögnum málsins voru ekki forsendur til að gera athugasemdir við ákvörðun stofnunarinnar að þessu leyti enda það tímamark ekki liðið þegar hún lá fyrir.  Umboðsmaður benti viðkomandi hins vegar á að hann gæti fengið afstöðu stjórnarinnar til þeirra stjónarmiða lögmanns stofnunarinnar, sem komu fram eftir að ákvörðunin lá fyrir, að hann teldist ekki hafa staðið við greiðslusamninga þar sem greiðslur hefðu borist frá Vinnumálastofnun en ekki honum sjálfum.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. desember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 31. október sl. yfir ákvörðun stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga á fundi hennar 12. október sl. um að synja beiðni yðar um ívilnandi úrræði samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971. Með bréfi 22. nóvember sl. var óskað eftir því að stofnunin afhenti umboðsmanni afrit af gögnum málsins og samskiptum hennar við yður. Umbeðin gögn bárust 29. nóvember sl.

Samkvæmt lagagreininni er stjórn Innheimtustofnunar heimilt að gera tímabundna samninga sem kveða á um greiðslu skuldara á lægri upphæð en til fellur mánaðarlega þegar til skuldarinnar hefur verið stofnað sökum félagslegra erfiðleika skuldara, svo sem af heilsufarsástæðum, ónógum tekjum, skertri starfsorku, mikilli greiðslubyrði, barnamergð eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Slíka samninga skal endurskoða reglulega og a.m.k. á sex mánaða fresti. Ef um áframhaldandi félagslega og fjárhagslega erfiðleika er að ræða hjá skuldara og stjórnin telur fullljóst að aðstæður skuldara séu þannig að hann geti ekki greitt áfallinn höfuðstól eða hluta hans, auk meðlaga sem falla til mánaðarlega, er stjórninni heimilt að afskrifa höfuðstól skuldara að hluta eða öllu leyti. Heimild til niðurfellingar höfuðstóls eða hluta hans er bundin því skilyrði að skuldari hafi í a.m.k. þrjú ár staðið við samning samkvæmt 1. málslið greinarinnar.

Í kvörtun yðar kemur fram að þér teljið yður hafa uppfyllt skilyrði greinarinnar þar sem þér hafið staðið við samninga við stjórn stofnunarinnar frá vorinu 2021. Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að stjórn stofnunarinnar gerði samning við yður 11. desember 2020 sem mun hafa lokið í apríl 2021. Hvað sem því líður verður ekki annað ráðið af kvörtuninni og gögnum málsins en að skilyrði 4. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971, um að skuldari hafi staðið við samning í þrjú ár, hafi ekki getað talist uppfyllt fyrr en í fyrsta lagi nú í desember 2023. Líkt og áður greinir lýtur kvörtunin að ákvörðun stjórnar stofnunarinnar 12. október sl. Tel ég mig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við ákvörðun Innheimtustofnunar sveitarfélaga um að synja beiðni yðar um ívilnandi úrræði samkvæmt lagagreininni.

Af kvörtuninni og gögnum málsins verður ráðið að athugasemdir yðar lúti einkum að þeirri afstöðu sem hefur m.a. komið fram af hálfu lögmanns Innheimtustofnunar sveitarfélaga, sbr. tölvupóstsamskipti yðar við hann dagana 17. til 27. október sl., að þér hafið ekki staðið við þá samninga sem stjórnin hefur gert við yður þar sem greiðslur hafi ekki borist frá yður sjálfum, heldur Vinnumálastofnun. Af 2. gr. laga nr. 54/1971, þ. á m. lögskýringargögnum, verður dregin ályktun um að stjórn stofnunarinnar sinni tilteknu eftirliti með starfsemi hennar þótt ekki verði með ótvíræðum hætti ráðið í hvaða tilvikum unnt sé að bera einstök mál og erindi undir stjórnina.

Ástæða þess að þetta er tekið fram er sú samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli hafa tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem verið hafa á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra af viðkomandi máli sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Þar sem ekki verður ráðið að þér hafið borið framangreindar athugasemdir yðar undir stjórn stofnunarinnar og með vísan til þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég rétt að endan­leg afstaða stjórnarinnar til athugasemda yðar að þessu leyti liggi fyrir áður en umboðsmaður fjallar um málið.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Fari svo að þér leitið til stjórnarinnar er yður fært að leita til mín á nýjan leik að fenginni úrlausn hennar ef þér teljið yður enn rangsleitni beittan. Með þessari ábendingu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu erindi yðar þar að lútandi ætti að hljóta hjá stjórn stofnunarinnar.