Sveitarfélög. Samningar.

(Mál nr. 12467/2023)

Kvartað var yfir því að Akureyrarbær hefði tekið umráð erfðafestulands án þess að formleg innlausn eða eignarnám hefði farið fram.

Umboðsmaður taldi ljóst að kvörtunin lyti einkum að ágreiningi um réttindi og uppgjör leigusamnings vegna erfðafestulands. Að verulegu leiti væri því deilt um einkaréttarleg lögskipti vegna fyrirliggjandi samnings um erfðafestu og þar kynnu samskipti milli aðila að hafa þýðingu. Auk þess yrði ekki annað ráðið en að þau atvik sem lægju til grundvallar kvörtuninni féllu að verulegu leyti utan þess ársfrests sem mælt væri fyrir um í lögum að gæfist til að kvarta til umboðsmanns. Málið væri því þess eðlis að eðlilegra væri að fá úr því leyst fyrir dómstólum.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 20. desember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar 17. nóvember sl. sem þér hafið komið á framfæri fyrir hönd A sem beint er að Akureyrarbæ og lýtur að því að sveitarfélagið hafi tekið umráð erfðafestulands hennar án þess að formleg innlausn eða eignarnám hafi farið fram.

Samkvæmt kvörtuninni mun Akureyrarbær hafa byrjað að taka umráð landsins árið 1997 án þess að eiginleg innlausn á réttindum A hafi farið fram. Sveitarfélagið hafi tekið umráð erfðafestulandsins í þágu deiliskipulags og uppbyggingar íbúðabyggðar á grundvelli þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Með kvörtuninni fylgdi afrit af bréfi bæjarlögmanns 13. maí 2019 þar sem afstaða var tekin til beiðni A um breytingu á skráningu erfðafestulandsins í samræmi við gildandi deiliskipulag auk þess sem þar var vísað til þess að í erfðafestubréfi væri kveðið á um að sveitarfélaginu væri heimilt að innleysa erfðafesturéttindi með vísan til deiliskipulags og greitt væri fyrir ræktun og girðingar samkvæmt mati. Þá liggur fyrir úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta 23. nóvember 2022 þar sem beiðni A um ákvörðun bóta var vísað frá á þeim grundvelli að af beiðninni yrði hvorki ráðið að eignarnám hefði farið fram né að uppfyllt væri önnur lagaskilyrði til þess að matsnefndin væri bær til þess að taka málið fyrir. Af kvörtuninni fæ ég þó ekki ráðið hún lúti að þeirri niðurstöðu nefndarinnar.

Í tilefni af kvörtuninni skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og nánar greindar siðareglur. Í 6. gr. laga nr. 85/1997 er mælt fyrir um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns en samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skal bera fram kvörtun innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur.

Lög nr. 85/1997 eru jafnframt byggð á þeirri forsendu að um ákveðna verkaskiptingu sé að ræða milli umboðsmanns og dómstóla og mál geti verið þannig vaxin að heppilegra sé að leyst verði úr þeim fyrir dómstólum. Í því sambandi má nefna að samkvæmt c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tekur starfsvið umboðsmanns ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti fyrir dómstóla. Þá segir í c-lið 2. mgr. 10. gr. laganna að varði ákvörðun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.

Eftir að hafa kynnt mér kvörtunina og þau gögn sem henni fylgdu tel ég ljóst að hún lúti einkum að ágreiningi A við Akureyrarbæ um réttindi og uppgjör leigusamnings um erfðafestuland. Ágreiningurinn beinist því að verulegu leyti að einkaréttarlegum lögskiptum vegna fyrirliggjandi samnings um erfðafestu en þar kunna samskipti milli Akureyrarbæjar og umbjóðanda yðar að hafa þýðingu. Auk þess verður ekki annað ráðið en að þau atvik sem liggja kvörtuninni til grundvallar falli að verulegu leyti utan þess tímafrests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Ég tel samkvæmt framangreindu að mál þetta sé þess eðlis að eðlilegra sé að fá úr því leyst fyrir dómstólum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. og c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.