Atvinnuréttindi og atvinnuleyfi. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 12504/2023)

Kvartað var yfir innviðaráðuneytinu vegna undirbúnings og setningar laga um leigubifreiðaakstur sem tóku gildi 1. apríl 2023.  

Með hliðsjón af því sem fyrir lá um efni erindanna sem komið var á framfæri við ráðherra og með hliðsjón af starfssviði umboðsmanns gagnvart störfum Alþingis, taldi hann ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtunina að þessu leyti. Umboðsmaður benti viðkomandi á að þar sem innviðaráðherra fer með yfirstjórn málaflokksins og ráðuneyti hans hefur eftirlitsheimildir að því leyti mætti freista þess að koma frekari ábendingum á framfæri við ráðuneytið ef tilefni þætti til.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 20. desember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 12. desember sl. f.h. A sem beinist að innviðaráðuneytinu og lýtur að undirbúningi að setningu laga nr. 120/2022, um leigubifreiðaakstur, en lögin tóku gildi 1. apríl sl. Af kvörtuninni, og þeim gögnum sem henni fylgdu, verður ráðið að A telji að annmarkar hafi verið á undirbúningi framangreindrar lagasetningar.

Í kvörtuninni kemur fram að bandalagið, sem sé hagsmunahópur starfstéttarinnar, hafi verið sniðgengið þegar kom að „ráðagerð og umfjöllun“ í tengslum við undirbúning laganna. Forsvarsmenn félagsins, sem og B, hafi ekki fengið fund með ráðherra né ráðuneytinu allt frá því að frumvarpið var kynnt í lok september 2022 og það var samþykkt sem lög 16. desember þess árs. Þá hafi athugasemdir stéttarinnar í samráðsgátt og fyrir samgöngunefnd engan hljómgrunn fengið. Kemur og fram að A telji að með breytingum á löggjöf um leigubifreiðaakstur hafi verið „grafið undan áunnum kjararéttindum leigubifreiðastjóra með ráðstöfun stjórnvalds.“ Telji bandalagið þessi atriði bera vott um skort á vandaðri stjórnsýslu. Þá er því viðhorfi A lýst að reynslan af lögunum frá gildistöku þeirra sé mjög slæm og ljóst sé að bæði þjónusta leigubifreiða og öryggi almennings fari versnandi. Loks verður ráðið af kvörtuninni og meðfylgjandi gögnum að A hafi komið athugasemdum sínum m.a. á framfæri með opnu bréfi til þingmanna svo og með erindi til forsætisráðherra, undir yfirskriftinni „Ákall til ríkisstjórnar Íslands“, bæði dags. 12. desember 2022. Kvörtun yðar fylgdi jafnframt afrit af tölvubréfi yðar f.h. A þann sama dag til innviðaráðuneytisins þar sem óskað var eftir fundi með innviðaráðherra vegna frumvarpsins. Samkvæmt kvörtuninni mun innviðaráðherra hafa tekið við framangreindu erindi A sem beint var til ríkistjórnarinnar og sagst ætla að veita fulltrúum leigubifreiðastjóra fund fyrir afgreiðslu laganna en ekki mun hafa orðið af þeim fundi.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórn­­völdum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Starfssvið umboðsmanns tekur til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hefur með lögum verið falið vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna. Í a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 kemur fram að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum segir að utan starfssviðs umboðsmanns falli þannig störf Alþingis og stjórnsýsla í þágu Alþingis sem háð er eftirliti þingforseta samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis. Þá falli störf nefnda sem Alþingi kýs og skila eiga Alþingi skýrslu til um­fjöllunar einnig utan starfssviðs umboðsmanns (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2329).

Af framangreindu má ráða að það er ekki í verkahring umboðsmanns að láta í ljós álit sitt á störfum Alþingis, þ.m.t. hvernig til hefur tekist um efni þeirra ákvarðana sem Alþingi tekur í formi laga og annarra ályktana. Að þessu sögðu tel ég þó rétt að taka fram að umboðsmanni Alþingis er í 11. gr. laga nr. 85/1997 fengin heimild til þess að tilkynna Alþingi ef hann verður þess var að meinbugir séu á gildandi lögum. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því að hægt sé að bera fram kvörtun beinlínis af því tilefni heldur ákveður umboðsmaður að eigin frum­kvæði hvort heimild 11. gr. skuli nýtt, sbr. 5. gr. laganna. Ég hef móttekið ábendingu yðar en í ljósi þess að umrædd lagasetning beinist ekki að starfsemi stjórnsýslunnar eða starfsháttum í henni heldur að starfsumhverfi leigubifreiðaaksturs tel ég ekki tilefni til þess að málið komi til athugunar hjá mér að eigin frumkvæði.

Þar sem kvörtun yðar beinist að skorti á viðbrögðum innviðaráðuneytisins vegna athugasemda A við samningu frumvarps þess er varð að lögum nr. 120/2022, svo og í aðdraganda þess að frumvarpið var samþykkt sem lög á Alþingi, skal tekið fram að á stjórnvöldum hvílir almennt skylda til að svara skriflegum erindum nema svars sé ekki vænst. Hvert skal vera nánara inntak svaranna fer eftir því hvert efni erindisins er og hvort það varði tiltekið stjórn­sýslumál sem viðkomandi er aðili að eða hvort um sé að ræða ábendingar almenns eðlis eða beiðni um svör við fyrirspurnum án þess að þær tengist stjórnsýslumáli viðkomandi. Þá þarf einnig að hafa í huga tvíþætt eðli starfa ráðherra, þ.e. mörkin milli hins stjórnmálalega starfs hans og starfa hans sem æðsta yfirmanns stjórnsýslu á tilteknu málefnasviði og ráðu­neytis. Með hliðsjón af því sem liggur fyrir um efni erinda A sem komið var á framfæri við ráðherra, þ.e. athugasemdir og ábendingar í tengslum við fyrirhugaða lagasetningu, og því sem ég hef áður greint yður frá um starfsvið umboðsmanns gagnvart störfum Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, tel ég ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtun yðar að þessu leyti. Þar sem innviðaráðherra fer með yfirstjórn málaflokksins og ráðuneyti hans hefur eftirlitsheimildir að því leyti getur A freistað þess að koma frekari ábendingum á framfæri við ráðuneytið telji bandalagið tilefni til.

Með vísan til framangreinds lýk ég meðferð minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Farið þér þá leið að leita með mál yðar til innviðaráðuneytisins getið þér leitað til mín á nýjan leik sé A ósátt að fenginni niðurstöðu þess og verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki málið getur komið til umfjöllunar af hálfu umboðsmanns.