Styrkveitingar. Menntamál.

(Mál nr. 12505/2023)

Kvartað var yfir afgreiðslu á umsókn um úthlutun úr Rannsóknarsjóði.  

Þar sem kvörtunin laut að afgreiðslu máls frá árinu 2020 voru ekki skilyrði til að umboðsmaður aðhefðist frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. desember 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 13. desember sl. sem beinist að Rannsóknarsjóði, RANNÍS, og lýtur að afgreiðslu á umsóknum yðar, ásamt öðrum, um úthlutun úr sjóðnum vegna nánar tilgreinds verkefnis.

Kvörtuninni fylgdu afrit af tölvubréfaskiptum yðar við sjóðinn í janúar 2020. Í samtali starfsmanns embættis umboðsmanns við yður 18. desember sl. kom fram að um væri að ræða síðustu samskipti yðar við sjóðinn í tengslum við umsóknirnar og að ekki hefðu verið lagðar fram frekari umsóknir síðan þá. Starfsmaður embættisins upplýsti yður jafnframt um það skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir, var til lykta leiddur, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þar sem ljóst er að kvörtun yðar barst utan þess frests brestur lagaskilyrði til þess að ég geti tekið kvörtunina til frekari athugunar.

Læt ég því athugun minni vegna kvörtunar yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.