Gjafsókn. Lögbundin gjafsókn. Frelsisskerðing. Leiðbeiningarskylda stjórnvalda.

(Mál nr. 3432/2002)

A kvartaði yfir synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á umsókn hennar um gjafsókn í skaðabótamáli sem hún hugðist höfða á hendur geðlækninum B og lögreglustjóranum í Reykjavík (L) vegna ólögmætrar frelsisskerðingar. Tilefni málshöfðunarinnar var að starfsmenn L höfðu, að beiðni geðlæknisins B, fært A á geðdeild Landspítalans í þeim tilgangi að láta kanna hvort hún skyldi nauðungarvistuð á sjúkrahúsi. A lagði fjórum sinnum fram beiðni um gjafsókn í málinu. Þrjár komu til afgreiðslu áður en héraðsdómur í málinu gekk en ein eftir uppkvaðningu hans.

Fyrstu þremur gjafsóknarbeiðnum A vísaði gjafsóknarnefnd frá með vísan til þess að A hefði ekki lagt fram nægjanleg gögn til að hægt væri að meta tilefni málshöfðunarinnar í skilningi 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Með vísan til þessarar afstöðu nefndarinnar synjaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið um gjafsókn í þessum þremur tilvikum. Afgreiðslurnar báru ekki með sér stjórnvöld hefðu fjallað um umsóknir A á öðrum lagagrundvelli en lögum nr. 91/1991. Af því tilefni rakti umboðsmaður 176. og 178. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Benti hann á að í 176. gr. laganna væri m.a. fjallað um bætur vegna aðgerða sem hefðu frelsisskerðingu í för með sér, aðrar en fangelsi, og að í 178. gr. laganna segði að bætur í slíku máli skyldi sækja í venjulegu einkamáli en veita skyldi gjafsókn fyrir báðum dómum. Vísaði umboðsmaður í þessu sambandi til Hrd. 1996, bls. 150, og 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 5. mgr. 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Fram kom í skýringum stjórnvalda til umboðsmanns að ætti gjafsóknarbeiðandi lögbundinn rétt til gjafsóknar samkvæmt 178. gr. laga nr. 19/1991 væri nægjanlegt að í gjafsóknarbeiðni væri vísað til þeirrar greinar eða ljóst væri af umsóknargögnum að svo væri. Með hliðsjón af þessu og í ljósi þeirra upplýsinga sem stjórnvöld höfðu í höndum um tilefni fyrirhugaðrar málshöfðunar taldi umboðsmaður að stjórnvöldum hefði borið að taka rökstudda afstöðu til þess hvort A ætti lögbundinn rétt til gjafsóknar á grundvelli 178. gr. laga nr. 19/1991, eftir atvikum að teknu tilliti til 32. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Var það því niðurstaða umboðsmanns að afgreiðsla stjórnvalda á umræddum gjafsóknarbeiðnum A hefði verið reist á röngum lagagrundvelli.

Fjórða gjafsóknarbeiðni A barst dóms- og kirkjumálaráðuneytinu eftir að héraðsdómur í málinu gekk. Sótti A um gjafsókn bæði fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Var gjafsókn veitt fyrir Hæstarétti skv. 126. gr. laga nr. 91/1991. Í skýringum stjórnvalda til umboðsmanns kom fram að þau teldu lagaskilyrði ekki hafa verið fyrir hendi til að veitt yrði gjafsókn fyrir héraðsdómi þar sem héraðsdómur hefði þegar gengið í málinu, sbr. 2. mgr. 127. gr. og 4. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991. Taldi umboðsmaður það leiða af orðalagi 178. gr. laga nr. 19/1991 og tilgangi greinarinnar, sbr. einnig 5. mgr. 67. gr. stjskr., að hlutverk stjórnvalda við umfjöllun um gjafsókn samkvæmt greininni væri einkum að staðreyna hvort atvik og málsgrundvöllur í fyrirhuguðu dómsmáli væru með þeim hætti að lögbundinn réttur til gjafsóknar fyrir báðum dómum yrði virkur. Ef gjafsóknarbeiðandi hefði ekki fengið úrlausn stjórnvalda um gjafsókn áður en héraðsdómur gengi kæmi það því ekki í veg fyrir að slíkt leyfi yrði veitt áður en dómur gengi í Hæstarétti, væri máli á annað borð áfrýjað. Það væri síðan verkefni Hæstaréttar að ákveða umfang gjafsóknarkostnaðar, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Benti umboðsmaður í þessu sambandi jafnframt á Hrd. 1996, bls. 150.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að taka mál A upp að nýju, kæmi fram ósk um það frá henni, og leitast þá við að rétta hlut hennar í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu.

I.

Hinn 31. janúar 2002 leitaði A til mín og kvartaði yfir synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á beiðni hennar um gjafsókn í tilefni af skaðabótamáli gegn lögreglustjóranum í Reykjavík og B, geðlækni. Ástæða málshöfðunarinnar var sú að A taldi að umræddir aðilar hefðu með ólögmætum hætti skert frelsi hennar 13. júní 2000.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 7. mars sl.

II.

Málavextir eru þeir að 13. júní 2000 var A boðuð á lögreglustöðina að Hverfisgötu 113 í Reykjavík. Þaðan var hún færð af lögreglunni á geðdeild Landspítalans að beiðni B, geðlæknis, en A hafði áður verið sjúklingur hans. Eftir að hafa verið skoðuð af öðrum geðlækni á Landspítalanum var A leyft að fara frjálsri ferða sinna þar sem læknirinn taldi ekki ástæðu til að nauðungarvista hana. Í kjölfarið tók A ákvörðun um að höfða skaðabótamál á hendur lögreglustjóranum í Reykjavík og B, geðlækni, þar sem hún taldi að í ráðstöfunum lögreglunnar og geðlæknisins hefði falist ólögmæt frelsisskerðing.

Með bréfi, dags. 24. ágúst 2000, lagði lögmaður A fram beiðni til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um gjafsókn í málinu. Beiðninni fylgdu drög að stefnu þar sem lýst var málavöxtum og málsástæðum stefnanda og skattframtöl A fyrir árin 1998 og 1999. Um „lagalegan grundvöll“ fyrir skaðabótakröfu A er í stefnunni vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Er tekið fram að umrædd „handtaka og nauðungarflutningur“ á geðdeild Landspítalans hafi verið „mikil meingerð“ í garð A og færð að því rök að lögreglustjórinn í Reykjavík og geðlæknirinn beri á henni óskipta skaðabótaábyrgð.

Ráðuneytið sendi umsóknina og meðfylgjandi gögn til gjafsóknarnefndar með bréfi, dags. 28. ágúst 2000. Nefndin óskaði síðan eftir því við ráðuneytið að það færi þess á leit við umsækjanda að lagðar yrðu fram lögregluskýrslur um þann atburð er málsóknin laut að, önnur tiltæk gögn sem umsækjandi hygðist byggja málsókn sína á, svo og afstaða gagnaðila. Með bréfi til lögmanns A, dags. 5. október 2000, óskaði ráðuneytið eftir þessum gögnum. Svar lögmannsins barst með bréfi, dags. 19. október 2000. Með því fylgdi afrit af lögregluskýrslu sem gerð var um fyrrnefndan atburð 13. júní 2000 er A var flutt á geðdeild Landspítalans. Önnur gögn fylgdu ekki.

Með bréfi, dags. 6. desember 2000, hafnaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið gjafsóknarbeiðni A með vísan til umsagnar gjafsóknarnefndar, dags. 4. sama mánaðar. Í umsögninni segir að þrátt fyrir að óskað hafi verið frekari gagna til stuðnings gjafsóknarbeiðninni hafi aðeins borist ljósrit af frumskýrslu lögreglu um kæru umrædds geðlæknis á hendur A „fyrir líflátshótanir og eignarspjöll að kvöldi 13. júní [2000], handtöku hennar og flutning á geðdeild“. Þar sem ekki hafi verið bætt úr umsókninni til samræmis við beiðni gjafsóknarnefndar geti nefndin ekki lagt mat á hvort umsækjandi uppfylli skilyrði gjafsóknar og sé beiðninni því vísað frá.

Lögmaður A ítrekaði gjafsóknarbeiðni hennar með bréfi, dags. 23. janúar 2001. Ekki fylgdu ný gögn með þessari beiðni og var henni vísað frá af hálfu gjafsóknarnefndar 6. febrúar 2001 á sömu forsendum og áður en með nokkuð skýrari leiðbeiningum um hvað á hefði skort til að nefndin gæti metið gjafsóknarbeiðnina. Í umsögn nefndarinnar segir m.a. svo:

„Svo sem áður greinir var þess beiðst af hálfu dómsmálaráðuneytisins, að tilhlutan gjafsóknarnefndar, að umsækjandi sendi ráðuneytinu lögregluskýrslur um atburð þann, er málið snýst um, önnur tiltæk gögn sem umsækjandi hyggst byggja málsókn sína á og afstöðu gagnaðila. Með lögregluskýrslum var átt við frumskýrslu lögreglu um málið, sem þegar hefur borist, auk framburðarskýrslu kæranda og vitna sem geta borið um atburði, þ.á m. skýrslu [B], og þá gert ráð fyrir að málið hefði verið rannsakað á viðeigandi hátt. Einnig var óskað eftir afstöðu gagnaðila til fyrirhugaðrar málsóknar og öðrum tiltækum gögnum sem umsækjandi hyggst byggja á í máli sínu [...].“

Með vísan til tilvitnaðrar umsagnar hafnaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið beiðninni með bréfi, dags. 9. febrúar 2001. Lögmaður A lagði þá enn fram beiðni um gjafsókn í málinu 23. febrúar 2001, en beiðnin er dagsett 23. janúar 2001, að því er virðist fyrir mistök. Beiðni þessari fylgdi meðal annars skýrsla A um atburðinn 13. júní 2000, sem tekin var af lögmanninum sjálfum, og vottorð leigubifreiðastjóra sem ekið hafði A sama dag og umrætt atvik átti sér stað. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið lagði beiðnina fyrir gjafsóknarnefnd til umsagnar. Í umsögn nefndarinnar, dags. 13. mars 2001, segir meðal annars svo:

„Lögmaður umsækjanda hefur með bréfi 23. janúar sl. sent dómsmálaráðuneytinu skýrslu sem hann tók sjálfur af umsækjanda, ódagsett vottorð leigubifreiðastjóra þess, sem ók stefnanda að heimili áðurnefnds geðlæknis, úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 13. október 1999 vegna kröfu um sjálfræðissviptingu umsækjanda og vottorð nafngreinds geðlæknis, dags. 14. júní sl. Verður að skilja bréf hans til ráðuneytisins á þann veg að með því sé beiðst gjafsóknar á ný enda þótt það verði ekki beinlínis ráðið af efni bréfsins. Gjafsóknarnefnd hefur ekki borist framburðarskýrsla kæranda hjá lögreglu sem og skýrslur vitna sem geta borið um atburði, þ.á m. skýrsla [B], svo sem óskað var með áðurnefndu bréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 5. október sl. Þá liggur afstaða gagnaðila til fyrirhugaðrar málsóknar ekki fyrir svo sem óskað hefur verið eftir. Þar sem ekki hefur verið bætt úr umsókn til samræmis við ósk gjafsóknarnefndar getur nefndin ekki lagt mat á hvort tilefni sé til málsóknar af hálfu umsækjanda í skilningi 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991. Er gjafsóknarbeiðni því vísað frá skv. heimild í 3. gr. reglugerðar nr. 69/2000.“

Með vísan til umsagnarinnar synjaði ráðuneytið A um gjafsókn með bréfi, dags. 15. mars 2001.

Dómur var kveðinn upp í máli A gegn lögreglustjóranum í Reykjavík og umræddum geðlækni í Héraðsdómi Reykjavíkur 28. janúar 2002. Bæði geðlæknirinn og lögreglustjórinn í Reykjavík voru sýknaðir af kröfum A um bætur. Í kjölfar héraðsdómsins ritaði lögmaður A á ný bréf til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 25. mars 2002. Þar rekur hann að í fyrri gjafsóknarbeiðnum vegna málsins hafi verið lögð áhersla á að A uppfyllti þau skilyrði er fram kæmu í 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Síðan segir meðal annars svo í bréfinu:

„Nú eftir að dómur er genginn í héraði, hefur gjafsóknarbeiðanda orðið ljóst, að hún átti þrátt fyrir synjun ráðuneytis yðar fortakslausan rétt til gjafsóknar í máli þessu, sbr. 176. og 178. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. [...]

Gjafsóknarbeiðandi telur Dómsmálaráðuneytið hafa hafnað beiðni hennar um gjafsókn andstætt nefndum lagaákvæðum, er mæla fortakslaust fyrir um, að gjafsókn skuli veita í slíku máli. Er þess því nú beiðzt, að þau mistök verði leiðrétt og gefið út gjafsóknarleyfi í héraði. Hyggst gjafsóknarbeiðandi freista þess að fara með þennan þátt málsins, sem ekki sætti dómsmeðferð í héraði, fyrir héraðsdóminn og fá dómsúrskurð um málflutningsþóknun lögmanns síns í málinu sem gjafsóknarmáls.

[...]

Ekki aðeins er beiðzt gjafsóknar í héraði f.h. [A], [...], heldur og fyrir Hæstarétti í ofangreindu máli hennar [...] sem hún nú hefur skotið til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnu, útg. 21. marz 2002.

Vísað er til þegar fram borinna röksemda fyrir beiðninni, sbr. einkum 1. mgr. 176. gr. og 178. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sem og til þegar fram lagðra gagna.“

Gjafsóknarbeiðnin var send gjafsóknarnefnd til umsagnar. Í umsögn nefndarinnar, dags. 16. maí 2002, segir meðal annars eftirfarandi:

„Að mati gjafsóknarnefndar verður ekki fullyrt að umsækjandi hafi ekki nægjanlegt tilefni til áfrýjunar. Þegar litið er til samanlagðra vinnutekna hennar sl. tvö ár þykir rétt að mæla með gjafsókn fyrir Hæstarétti á grundvelli a. liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.“

Með vísan til ofangreindrar umsagnar veitti dóms- og kirkjumálaráðuneytið A gjafsókn fyrir Hæstarétti 21. maí 2002. Í umsögn nefndarinnar var hins vegar ekki vikið að þeim þætti erindis lögmanns A er laut að því að leiðrétt yrðu meint mistök ráðuneytisins er það neitaði A um gjafsókn fyrir héraðsdómi.

Framangreindur héraðsdómur í máli A var staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 142/2002 sem upp var kveðinn 31. október 2002. Málskostnaður fyrir Hæstarétti var felldur niður en kveðið á um að gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, ætti að greiðast úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar.

III.

Ég ritaði dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf, dags. 15. febrúar 2002, þar sem ég óskaði þess að ráðuneytið léti mér í té gögn málsins, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Gögnin bárust mér með bréfi ráðuneytisins, dags. 22. febrúar 2002. Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins ritaði ég ráðuneytinu á ný bréf, dags. 19. apríl 2002, þar sem segir meðal annars svo:

„Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins tel ég rétt að dóms- og kirkjumálaráðuneytið lýsi viðhorfi sínu til kvörtunar [A] og leiti þá einnig eftir afstöðu gjafsóknarnefndar ef ráðuneytið telur tilefni til þess, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í ljósi þess að með upphaflegri umsókn lögmanns [A] um gjafsókn fylgdu drög að stefnu þar sem gerð var grein fyrir grundvelli fyrirhugaðrar málsóknar óska ég sérstaklega eftir að ráðuneytið lýsi afstöðu sinni til þess hvort og þá hvers vegna nauðsynlegt hafi verið að fara fram á þau gögn sem gert var til að leggja efnislegt mat á það hvort [A] hafi haft tilefni til málsóknar í skilningi 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991.“

Svar ráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 4. júní 2002. Þar kom meðal annars fram að lögmaður A hefði lagt fram nýja gjafsóknarbeiðni fyrir hennar hönd með bréfi, dags. 25. mars 2002. Umsögn gjafsóknarnefndar um bréf mitt hafði ekki borist ráðuneytinu á þessum tíma. Í bréfi ráðuneytisins til mín er vísað til bréfs lögmanns A, dags. 25. mars sl., en efni þess var tekið upp í kafla II. hér að framan. Þar hafði lögmaðurinn vísað til 176. og 178. gr. laga nr. 19/1991 og óskað eftir að meint mistök vegna þess að A hefði ekki verið veitt gjafsókn í héraði yrðu leiðrétt auk þess sem A yrði veitt gjafsókn fyrir Hæstarétti. Ráðuneytið vísar til þess að gjafsóknarnefnd hafi í umsögn, dags. 16. maí 2002, mælt með því að A yrði veitt gjafsókn fyrir Hæstarétti á grundvelli a. liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 og hafi ráðuneytið fallist á það. Í bréfi ráðuneytisins segir síðan:

„Í umsögn gjafsóknarnefndar er ekki vikið að beiðni [A] um leiðréttingu á meintum mistökum og umsókn um gjafsóknarleyfi fyrir héraðsdómi. Hefur ráðuneytið farið fram á það við gjafsóknarnefnd að hún láti því í té umsögn sína um þennan þátt umsóknar [A].“

Hinn 14. júní 2002 barst mér bréf frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, dags. 12. s.m., þar sem svarað var fyrirspurn minni frá 19. apríl 2002. Tekið er fram að ráðuneytið hafi óskað eftir að gjafsóknarnefnd léti því í té athugasemdir sínar vegna þessa erindis frá mér og beiðni þar um hafi verið ítrekuð með bréfi til nefndarinnar 4. júní 2002. Með bréfinu fylgdi síðan umsögn gjafsóknarnefndar, dags. 11. júní 2002. Þar segir meðal annars:

„Svo sem áður greinir var tilgangur gjafsóknarnefndar með því að biðja um gögnin sá að hún gæti gert sér grein fyrir hvort málatilbúnaður umsækjanda væri nægjanlega skýr og byggður á nægilega traustum grunni. Vildi nefndin því að lögmaður umsækjanda aflaði lögregluskýrslna (framburðarskýrslna) um atburði ef þær lægju fyrir. Að mati nefndarinnar var hvorki fyrirhafnarmikið né tímafrekt fyrir lögmanninn að afla þessara gagna eða skýra nefndinni frá því að þau lægju ekki fyrir ef sú var raunin. Með því að biðja um afstöðu gagnaðila var nefndin að ganga úr skugga um hvort reynt hefði verið að ljúka málinu utan réttar og þar með hvort málsóknin væri nauðsynleg og tímabær. Er það skoðun nefndarinnar að málefnaleg sjónarmið mæli með því að sá, sem hyggst fá úthlutuðum styrk af almannafé til málsóknar, hafi, áður en svo er gert, leitast við að leysa málið utan réttar eða a.m.k. gefið gagnaðila kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en honum er stefnt fyrir dómstóla. Á það sérstaklega við þegar fyrirhuguð málsókn beinist að einstaklingum. Svar gagnaðila kann og að leiða til frekari skýringar á málinu þannig að gjafsóknarnefnd sé betur í stakk búin en ella að taka afstöðu til þess hvort málstaður umsækjanda gefi nægjanlegt tilefni til málsóknarinnar svo sem áskilið er í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991.“

Ég ritaði dóms- og kirkjumálaráðuneytinu á ný bréf, dags. 19. ágúst 2002. Þar vísaði ég til þess að fram hefði komið að lögmaður A hefði með bréfi, dags. 25. mars 2002, sent ráðuneytinu nýja beiðni um gjafsókn í skaðabótamáli hennar gegn lögreglustjóranum í Reykjavík og umræddum geðlækni. Sökum þess að í umsögnum gjafsóknarnefndar virtist fram að þessu ekki hafa verið tekin afstaða til þess þáttar gjafsóknarbeiðni lögmanns A frá 25. mars 2002 sem laut að gjafsókn fyrir héraðsdómi og að ráðuneytið virtist ekki hafa afgreitt þennan hluta af erindi lögmannsins af sinni hálfu óskaði ég þess, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið upplýsti mig um afgreiðslu þess á umræddu erindi.

Svar barst mér með bréfi ráðuneytisins, dags. 3. október 2002. Þar var um svör ráðuneytisins við spurningum mínum vísað til meðfylgjandi umsagnar gjafsóknarnefndar, dags. 16. september 2002. Í þeirri umsögn segir meðal annars svo:

„Af því tilefni tekur gjafsóknarnefnd fram að beiðni um gjafsókn fyrir héraðsdómi barst nefndinni eftir að dómur í héraði var kveðinn upp í umræddu máli en þar gekk dómur 28. janúar 2002. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. og 4. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal þóknun lögmanns gjafsóknarhafa og annar málskostnaður ákveðinn með dómi. Af þessum ákvæðum leiðir að gjafsókn verður ekki veitt eftir að dómur hefur verið kveðinn upp. Voru því ekki lagaskilyrði til að taka umsókn um gjafsókn fyrir héraðsdómi til meðferðar í gjafsóknarnefnd. Gjafsóknarnefnd mælti hins vegar með gjafsókn fyrir Hæstarétti eftir að beiðni þar um lá fyrir.“

Þessi svör nefndarinnar urðu mér tilefni til að spyrjast nánar fyrir um veitingu gjafsóknarleyfa á grundvelli 178. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Gerði ég það með bréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 11. nóvember 2002. Svar barst mér með bréfi ráðuneytisins, dags. 13. desember 2002. Þar var um svör ráðuneytisins alfarið vísað til meðfylgjandi umsagnar gjafsóknarnefndar um málið, dags. 10. sama mánaðar. Í umsögn nefndarinnar segir svo:

„Í bréfi umboðsmanns er í fyrsta lagi spurt hvort tekið hafi verið til skoðunar hvort 176. gr. og 178. gr. laga nr. 19/1991 ættu við í máli [A] í tilefni af umsóknum lögmanns hennar um gjafsókn henni til handa, dags. 24. ágúst 2000 og 23. janúar 2001. Hafi nefndar greinar ekki komið til skoðunar óskar umboðsmaður skýringa á því af hverju svo var ekki en hafi þær komið til athugunar nefndarinnar er óskað upplýsinga um ástæður þess að [A] var ekki veitt gjafsókn með stoð í ákvæði 178. gr. nefndra laga.

Til svars spurningunni er áréttað að dómsmálaráðuneytið óskaði að tilhlutan gjafsóknarnefndar eftir því í bréfi, dags. 5. október 2000, að lögmaður umsækjanda sendi ráðuneytinu lögregluskýrslur um atburði, önnur tiltæk gögn, sem umsækjandi hygðist byggja málsókn sína á, og afstöðu gagnaðila. Af því tilefni sendi lögmaðurinn ráðuneytinu einungis frumskýrslu lögreglu um málið með ódagsettu bréfi, mótteknu 23. október 2000. Í bréfi lögmannsins var ekki greint frá því að engar skýrslur hefðu verið teknar af umsækjanda og hugsanlegum vitnum, þ.m.t. [B] geðlækni, svo sem ráða mátti af bréfi gjafsóknarnefndar að leitað væri svars við.

Tilgangur nefndarinnar með því að biðja um gögnin var sá að hún gæti gert sér grein fyrir hvort málatilbúnaður umsækjanda væri nægjanlega skýr og á hvaða haldbærum gögnum hann væri byggður. Fyrir lá samkvæmt málatilbúnaði lögmanns umsækjanda að kröfur hennar beindust óskipt að lögreglustjóra og geðlækninum. Taldi nefndin að með því að lögmaður umsækjanda hefði ekki gert grein fyrir því hvernig málið væri í stakk búið, t.d. með því að upplýsa nefndina um að lögregluskýrslur hefðu ekki verið teknar í þágu rannsóknar málsins, gæti hún ekki tekið afstöðu til þess hvort skilyrði væru til veitingar gjafsóknar.

Þar sem umsækjandi spyrti saman málsókn á hendur lögreglustjóranum í Reykjavík og málsókn á hendur geðlækninum og krafðist óskiptra bóta úr hendi þeirra var það mat gjafsóknarnefndar að eðlilegt væri að afstaða yrði tekin í einu lagi til þess hvort gjafsókn skyldi veitt til málsóknar gegn lögreglustjóra og umræddum geðlækni enda þótt fyrirsjáanlegt væri að það gæti orðið á mismunandi lagagrundvelli. Þurfti það ekki að valda neinum töfum á málinu ef lögmaður umsækjanda hefði rækt skyldu sína um að gera gjafsóknarnefnd viðhlítandi grein fyrir því hvernig málið var í pottinn búið. Gjafsóknarnefnd leitaði einnig upplýsinga um hvort reynt hefði verið að leysa málið utan réttar en lögmaður umsækjanda svaraði því í engu hvort svo hefði verið gert. Að svo vöxnu máli taldi nefndin óhjákvæmilegt að vísa gjafsóknarbeiðninni frá með bréfi 4. desember 2000 samkvæmt heimild í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 69/2000 um starfshætti gjafsóknarnefndar. Kom því ekki til þess að efnisleg afstaða yrði tekin til veitingar gjafsóknar á grundvelli 178. gr., sbr. 176. gr. laga nr. 19/1991, að því er varðaði lögreglustjórann í Reykjavík. Rétt þykir að taka fram að á þessum tíma var málið ekki lagt fyrir gjafsóknarnefnd af hálfu lögmanns umsækjanda á þeim grundvelli að um lögbundna gjafsókn væri að ræða hvað varðaði lögreglustjórann í Reykjavík og virðist hann ekki hafa áttað sig á því að svo gæti verið fyrr en með bréfi sínu til dómsmálaráðuneytisins frá 25. mars 2002. Það réð þó ekki niðurstöðu nefndarinnar um frávísun beiðnarinnar heldur þau rök er að ofan greinir. Í því sambandi er og vísað til fyrri umsagnar nefndarinnar í tilefni af kvörtun [A] til umboðsmanns.

Í annan stað spyr umboðsmaður hvort tekin hafi verið fullnægjandi og eftir atvikum rétt afstaða til þeirrar röksemdar lögmanns [A] í síðustu umsókn hans um gjafsókn, dags. 25. mars sl., að [A] hafi átt „fortakslausan rétt til gjafsóknar“ í málinu á grundvelli 178. gr. laga nr. 19/1991.

Ofangreind gjafsóknarbeiðni barst gjafsóknarnefnd eftir að dómur í héraði var kveðinn upp í umræddu máli en hann gekk 28. janúar 2002. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. og 4. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal þóknun lögmanns gjafsóknarhafa og annar málskostnaður ákveðinn með dómi. Af þessum ákvæðum leiðir að gjafsóknarnefnd mælir ekki með gjafsókn eftir að dómur hefur verið kveðinn upp. Brast því lagaskilyrði að mati gjafsóknarnefndar til þess að umsóknin yrði tekin til meðferðar af hálfu nefndarinnar.

Í þriðja lagi er af hálfu umboðsmanns óskað eftir að upplýst verði hvernig meðferð gjafsóknarbeiðna vegna bótakrafna skv. 178. gr. laga nr. 19/1991 er almennt háttað. [...]

Umsóknir, sem byggja á lögbundnum gjafsóknum, eru ekki afgreiddar með sama hætti og almennt gerist við afgreiðslu gjafsóknarbeiðna. Sé um slíkar umsóknir að ræða, t.d. samkvæmt 178. gr. laga nr. 19/1991, er í engu litið til efnahags umsækjanda. Þá er ekki lagt mat á hvort nægjanlegt tilefni sé til málsóknar í skilningi 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991. Gjafsóknarnefnd telur hins vegar nauðsynlegt að umsókn um gjafsókn sé rökstudd þótt lögbundin sé og henni fylgi helstu gögn sem geri gjafsóknarnefnd fært að staðreyna hvort gjafsókn sé lögbundin. Sé um gjafsókn að ræða samkvæmt XX. kafla laga nr. 19/1991 má nefna lögregluskýrslur, sé um handtöku að ræða, endurrit gæsluvarðhalds- eða húsleitarúrskurðar, sé beðið um gjafsókn fyrir héraðsdómi vegna þessara rannsóknaraðgerða, annarrar eða beggja, og héraðsdóm sé óskað gjafsóknar fyrir Hæstarétti.

Um lagagrundvöll er nægjanlegt að vísa í viðkomandi lagagrein til rökstuðnings því að gjafsókn sé lögbundin eða ljóst sé af umsóknargögnum að svo sé.“

Með bréfi, dags. 23. desember 2002, gaf ég A kost á að gera athugasemdir við framangreint bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Lýsti lögmaður hennar því yfir í samtali við starfsmann minn 21. janúar 2003 að ekki væri tilefni til frekari athugasemda í málinu af hans hálfu.

IV.

1.

Áður er rakið að dóms- og kirkjumálaráðuneytið synjaði A um gjafsókn í fyrirhuguðu skaðabótamáli hennar gegn lögreglustjóranum í Reykjavík og B, geðlækni, með bréfum, dags. 6. desember 2000, 9. febrúar 2001 og 15. mars 2001. Þá tók ráðuneytið einnig afstöðu til gjafsóknarbeiðni vegna þessa sama dómsmáls í bréfi til lögmanns A, dags. 21. maí 2002, en þá hafði héraðsdómur í málinu þegar gengið.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, verður að bera fram kvörtun innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Kvörtun A barst mér 31. janúar 2002. Því mun fyrsta afgreiðsla ráðuneytisins, dags. 6. desember 2000, ekki koma sérstaklega til úrlausnar hjá mér en þar sem málið var síðar endurupptekið af hálfu stjórnvalda tel ég rétt að fjalla í áliti þessu almennt um þann lagagrundvöll sem gjafsóknarnefnd og dóms- og kirkjumálaráðuneytið byggðu á við afgreiðslu á gjafsóknarbeiðnum A.

2.

Hér að framan er því lýst að lögmaður A leitaði til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins með beiðni um gjafsókn, dags. 24. ágúst 2000, í tilefni af höfðun skaðabótamáls á hendur lögreglustjóranum í Reykjavík og tilgreindum geðlækni vegna þess að hún hefði, að beiðni umrædds geðlæknis, verið færð af lögreglu á geðdeild Landspítalans 13. júní s.á. Í drögum að stefnu í málinu, sem fylgdu gjafsóknarbeiðninni og voru einnig grundvöllur að síðari gjafsóknarbeiðnum A, var til stuðnings skaðabótakröfu hennar vísað til þess að athafnir lögreglustjórans og geðlæknisins hefðu falið í sér „handtöku og nauðungarflutning“ sem ekki hefði samrýmst lögum. Um lagalegan grundvöll fyrir kröfugerð A í fyrirhuguðu dómsmáli var vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá var í gjafsóknarbeiðnum A, dags. 24. ágúst 2000, 23. janúar 2001 og 23. febrúar sama ár, aðeins vísað til 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, til stuðnings beiðni hennar um gjafsókn.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið synjaði öllum þremur nefndum gjafsóknarbeiðnum A á grundvelli umsagna gjafsóknarnefndar en nefndin vísaði beiðnunum frá vegna skorts á gögnum. Segir í lokaorðum umsagnar gjafsóknarnefndar, dags. 13. mars 2001, um gjafsóknarbeiðni A, frá 23. febrúar sama ár, að þar sem ekki hafi verið bætt úr umsókn með framlagningu frekari gagna geti nefndin „ekki lagt mat á hvort tilefni sé til málsóknar af hálfu umsækjanda í skilningi 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991“. Var beiðninni því vísað frá „skv. heimild í 3. gr. reglugerðar nr. 69/2000“.

Samkvæmt 2. mgr. 125. gr. laga nr. 91/1991 skipar dómsmálaráðherra nefnd þriggja lögfræðinga, gjafsóknarnefnd, til fjögurra ára í senn. Hlutverk hennar er að veita umsögn um umsóknir um gjafsókn. Samkvæmt 4. mgr. sömu greinar er það dómsmálaráðherra sem veitir gjafsókn eftir umsókn aðila en tekið er fram að hún verði „því aðeins veitt að gjafsóknarnefnd mæli með því“. Verður að skilja ákvæði 125. gr. laga nr. 91/1991 svo að hér sé ekki aðeins verið að mæla fyrir um málsmeðferð við veitingu gjafsóknar samkvæmt 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 heldur einnig þegar gjafsókn verður veitt á grundvelli annarra laga enda hafi ekki verið settar sérreglur um veitingu gjafsóknar í slíkum tilvikum.

Gjafsóknarnefnd gegnir samkvæmt þessu mikilvægu hlutverki við afgreiðslu þeirra gjafsóknarbeiðna sem berast dóms- og kirkjumálaráðherra. Endanlegt ákvörðunarvald um veitingu gjafsóknar er hins vegar í höndum ráðherra sjálfs. Á ráðuneyti hans hvílir því sú skylda að ganga úr skugga um að undirbúningur og meðferð beiðna um gjafsókn fullnægi þeim kröfum sem leiddar verða af lögum og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins. Telji dóms- og kirkjumálaráðuneytið til dæmis að gjafsóknarnefnd hafi ekki rannsakað mál á fullnægjandi hátt eða fjallað um það á röngum lagagrundvelli þannig að umsögn hennar geti ekki verið fullnægjandi grundvöllur að ákvörðun ber ráðuneytinu að hafa forgöngu um að bætt verði úr þeim annmarka. Það veltur síðan á atvikum hverju sinni með hvaða hætti það verður gert.

Fyrir liggur að í gjafsóknarbeiðnum A og þeim stefnudrögum sem fylgdu upphaflegri beiðni hennar, dags. 24. ágúst 2000, var málsatvikum og málsgrundvellinum lýst þannig að krafist yrði skaðabóta á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga vegna ólöglegrar „handtöku og nauðungarflutnings“ af hálfu lögreglustjórans í Reykjavík og tilgreinds geðlæknis. Voru beiðnir hennar, dags. 24. ágúst 2000, 23. janúar 2001 og 23. febrúar sama ár, studdar við 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Af synjunum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og umsögnum gjafsóknarnefndar verður ráðið að þar var ekki tekið til rökstuddrar úrlausnar hvort skilyrði væru til að veita A gjafsókn á öðrum lagagrundvelli heldur en samkvæmt 126. gr. laga nr. 91/1991. Ég vek hér hins vegar athygli á því að samkvæmt 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 verður gjafsókn „enn fremur veitt eftir því sem fyrir er mælt í öðrum lögum“. Vegna atvika þessa máls bendi ég á að dæmi um slíka sérreglu er að finna í 176. gr., sbr. 178. gr., laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, en í fyrrnefnda ákvæðinu er meðal annars fjallað um bætur vegna „aðgerða sem hafa frelsisskerðingu í för með sér, aðrar en fangelsi“. Þá segir í 178. gr. laganna að bótakröfu skuli sækja í einkamáli í héraði með venjulegum hætti en veita skuli „aðila gjafsókn fyrir báðum dómum“. Þó má dæma þann sem leggur fram bótakröfu á grundvelli þessara ákvæða til greiðslu málskostnaðar eftir almennum reglum ef hann tapar máli.

Áður er rakið að gögn málsins og fyrri svör stjórnvalda við fyrirspurnum mínum urðu mér tilefni þess að spyrjast nánar fyrir um veitingu gjafsóknarleyfa á grundvelli 178. gr. laga nr. 19/1991. Gerði ég það með bréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 11. nóvember 2002. Svar barst mér með bréfi ráðuneytisins, dags. 13. desember 2002. Þar var alfarið vísað til meðfylgjandi umsagnar gjafsóknarnefndar um málið, dags. 10. sama mánaðar. Í umsögninni kemur meðal annars fram að þar sem umsækjandi hafi „[spyrt] saman málsókn á hendur lögreglustjóranum í Reykjavík og málsókn á hendur geðlækninum [...]“ hafi það verið mat gjafsóknarnefndar að „eðlilegt væri að afstaða yrði tekin í einu lagi til þess hvort gjafsókn skyldi veitt til málsóknar gegn lögreglustjóra og umræddum geðlækni enda þótt fyrirsjáanlegt væri að það gæti orðið á mismunandi lagagrundvelli“. Þá kemur einnig fram í umsögninni að vegna þess að umsækjandi hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn til stuðnings gjafsóknarbeiðninni hafi nefndin talið óhjákvæmilegt að vísa gjafsóknarbeiðninni frá samkvæmt heimild í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 69/2000, um starfshætti gjafsóknarnefndar. Hafi því ekki komið til þess að efnisleg afstaða yrði tekin til veitingar gjafsóknar á grundvelli 178. gr., sbr. 176. gr. laga nr. 19/1991, að því er varðaði lögreglustjórann í Reykjavík. Þá segir í umsögn gjafsóknarnefndar, sem ég árétta að ráðuneytið gerði að skýringum sínum í svarbréfi til mín:

„Rétt þykir að taka fram að á þessum tíma var málið ekki lagt fyrir gjafsóknarnefnd af hálfu lögmanns umsækjanda á þeim grundvelli að um lögbundna gjafsókn væri að ræða hvað varðaði lögreglustjórann í Reykjavík og virðist hann ekki hafa áttað sig á því að svo gæti verið fyrr en með bréfi sínu til dómsmálaráðuneytisins frá 25. mars 2002. Það réð þó ekki niðurstöðu nefndarinnar um frávísun beiðnarinnar heldur þau rök er að ofan greinir.“

Ég tek fram að samkvæmt 178. gr. laga nr. 19/1991 á sá, sem hyggst höfða bótamál vegna ólögmætrar frelsisskerðingar, lögbundinn rétt til gjafsóknar sem tekur bæði til kostnaðar máls í héraði og fyrir Hæstarétti. Á grundvelli 178. gr. laga nr. 19/1991 hefur verið veitt gjafsókn í skaðabótamálum sem höfðuð hafa verið vegna frelsissviptingar í tengslum við nauðungarvistun á grundvelli lögræðislaga, sjá t.d. dóm Hæstaréttar Íslands frá 18. janúar 1996 í máli nr. 358/1994. (Hrd. 1996, bls. 150.) Er það í samræmi við 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 5. mgr. 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, þar sem segir að „hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju [skuli] hann eiga rétt til skaðabóta“. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 segir að tilvitnuðu ákvæði stjórnarskrárinnar sé ætlað að gilda jöfnum höndum um bótarétt vegna frelsissviptingar í tengslum við opinber mál og frelsissviptingu af öðrum ástæðum. (Alþt. 1994-1995, A-deild, bls. 2092.) Í þessu sambandi má benda á að frá því að framangreindur dómur gekk hafa tekið gildi ný lögræðislög nr. 71/1997. Í 32. gr. þeirra laga er að finna sérstaka skaðabótareglu þar sem mælt er fyrir um að dæma skuli bætur úr ríkissjóði vegna nauðungarvistunar sjálfráða manns ef lögmæt skilyrði hefur brostið til slíkrar aðgerðar. Samsvarandi bótaákvæði var ekki í eldri lögræðislögum. Fram kemur í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 71/1997 að ákvæðið taki m.a. mið af 176. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 3716.)

Eins og að framan er rakið fylgdu gjafsóknarbeiðni A stefnudrög í hinu fyrirhugaða dómsmáli og afrit af lögregluskýrslu, dags. 13. júní 2000, sem staðfesti það að sama dag hafði A verið færð af lögreglunni í Reykjavík á Landspítalann svo hægt væri að taka ákvörðun um hvort hún skyldi sæta nauðungarvistun. Á þeim tíma sem gjafsóknarbeiðnir A voru til afgreiðslu mátti stjórnvöldum því vera ljóst að tilgangur málshöfðunar A var sá að láta reyna á hvort sú frelsisskerðing sem hún varð fyrir 13. júní 2000 hafi verið lögmæt og þá eftir atvikum hvort þeir sem að henni stóðu væru skaðabótaskyldir. Voru þetta því atvik þar sem ljóst mátti vera að reynt gat á það hvort A ætti lögbundinn rétt til gjafsóknar, sbr. 178. gr. laga nr. 19/1991.

Ég tek fram að með hliðsjón af lögbundnum rétti til gjafsóknar vegna dómsmála þar sem reynir á atvik af því tagi sem fjallað var um í drögum að stefnu í fyrirhuguðu dómsmáli A tel ég að ef stjórnvöld eru í vafa um hvort farið sé fram á gjafsókn á grundvelli 178. gr. laga nr. 19/1991 beri þeim í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þá leiðbeiningarskyldu sem mælt er fyrir um í 7. gr. laganna að leita eftir nánari afstöðu umsækjanda um þetta atriði. Með tilliti til þeirra upplýsinga sem fram komu í gögnum þeim sem fylgdu gjafsóknarbeiðnum A tel ég að ef hlutaðeigandi stjórnvöld voru að þessu leyti í vafa um hvort óskað væri eftir gjafsókn á hinum lögbundna grundvelli 178. gr. laga nr. 19/1991 hefðu þau átt að óska eftir skýringum gjafsóknarbeiðanda þar um áður en umsóknir hennar voru teknar til afgreiðslu.

Sú leið að óska frekari skýringa frá lögmanni A um þann lagagrundvöll sem gjafsóknarbeiðni hennar byggðist á var hins vegar ekki farin. Þess í stað synjuðu stjórnvöld gjafsóknarbeiðninni með vísan til þess að enn hefðu ekki borist nægjanlegar upplýsingar til að hægt væri að leggja mat á hvort tilefni væri „til málsóknar af hálfu umsækjanda í skilningi 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991“. Í þessu sambandi vek ég athygli á því sem fram kemur í áðurnefndri umsögn gjafsóknarnefndar, dags. 10. desember 2002, vegna fyrirspurnar minnar til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Þar segir að eigi gjafsóknarbeiðandi rétt á lögbundinni gjafsókn samkvæmt 178. gr. laga nr. 19/1991 sé nægjanlegt að í gjafsóknarbeiðni sé vísað í viðkomandi lagagrein því til stuðnings „eða ljóst sé af umsóknargögnum að svo sé“. Þá legg ég á það áherslu að í tilvitnaðri umsögn gjafsóknarnefndar er ekki á því byggt að þar sem lögmaður A vísaði aðeins til 126. gr. laga nr. 91/1991 í umræddum gjafsóknarbeiðnum hafi nefndinni ekki verið skylt að fjalla um beiðni hennar á grundvelli 178. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt framangreindu var ekkert því til fyrirstöðu að tekin væri rökstudd afstaða til þess hvort 178. gr. laga nr. 19/1991 veitti A rétt til gjafsóknar í málinu, sbr. til hliðsjónar fyrrnefndan dóm Hæstaréttar Íslands, Hrd. 1996, bls. 150, eftir atvikum að teknu tilliti til þýðingar 32. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Af skýringum þeim sem ég hef aflað frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og gjafsóknarnefnd verður ráðið að gjafsóknarnefnd taldi einhvern vafa leika á því hvort hin lögbundna gjafsókn samkvæmt 178. gr. laga nr. 19/1991 gæti bæði tekið til kostnaðar af málshöfðun A á hendur umræddum geðlækni og lögreglustjóranum í Reykjavík. Tel ég rétt að taka fram að vafi stjórnvalda um þetta atriði átti að mínu mati, m.a. með hliðsjón af þeim upplýsingum sem lágu fyrir um atvik málsins, ekki að standa því í vegi að gjafsóknarnefnd tæki rökstudda afstöðu til þess hvort A ætti rétt til lögbundinnar gjafsóknar á grundvelli 178. gr. laga nr. 19/1991 í fyrirhuguðu dómsmáli. Gátu stjórnvöld farið þá leið að taka í fyrsta lagi afstöðu til réttar A til lögbundinnar gjafsóknar samkvæmt 178. gr. laga nr. 19/1991 vegna málshöfðunar hennar á hendur lögreglustjóranum í Reykjavík og síðan í öðru lagi, eftir atvikum, hvort einnig væri heimilt að veita henni gjafsókn á sama lagagrundvelli vegna málshöfðunar hennar á hendur áðurnefndum geðlækni, m.a. með tilliti til ábyrgðarreglu 179. gr. laga nr. 19/1991, eða hvort láta yrði við það sitja að fjalla um skilyrði gjafsóknar vegna málshöfðunar á hendur honum á grundvelli almennra reglna laga nr. 91/1991. Ég tek fram að ég tek hér enga afstöðu til endanlegrar úrlausnar um þetta atriði. Ég ítreka hins vegar að eins og atvikum var háttað og með tilliti til gagna málsins tel ég ekki hafa verið forsendur til þess að vísa máli A frá að öllu leyti.

3.

Eftir að héraðsdómur gekk í máli A 28. janúar 2002 fór lögmaður hennar fram á það við dóms- og kirkjumálaráðuneytið að henni yrði veitt gjafsókn í héraði og fyrir Hæstarétti á grundvelli 178. gr. laga nr. 19/1991, sbr. bréf hans, dags. 25. mars 2002. Með bréfi, dags. 21. maí 2002, veitti ráðuneytið A gjafsókn fyrir Hæstarétti á grundvelli 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, sbr. umsögn gjafsóknarnefndar af því tilefni frá 16. maí 2002.

Ég spurðist sérstaklega fyrir um þessa afgreiðslu í bréfi mínu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 19. ágúst 2002. Í svari sínu vísaði ráðuneytið til umsagnar gjafsóknarnefndar um fyrirspurn mína, dags. 16. september 2002. Þar kom fram sú afstaða gjafsóknarnefndar, sem ráðuneytið gerir að sinni, að með vísan til 2. mgr. 127. gr. og 4. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991 verði ekki veitt gjafsókn í héraði eftir að héraðsdómur hefur verið kveðinn upp. Hafi því ekki verið „lagaskilyrði til að taka umsókn um gjafsókn fyrir héraðsdómi til meðferðar“ í nefndinni.

Þar sem gjafsóknarbeiðni sú sem nefndin fjallaði hér um var með skýrum hætti byggð á því að A ætti rétt á gjafsókn í héraði og fyrir Hæstarétti, sbr. 178. gr. laga nr. 19/1991, tel ég ljóst að framangreind afstaða stjórnvalda eigi við hvort sem um er að ræða veitingu gjafsóknar á grundvelli hinna almennu ákvæða XX. kafla laga nr. 91/1991 eða sérreglu 178. gr. laga nr. 19/1991. Að virtri framangreindri niðurstöðu minni um að stjórnvöldum hafi borið að fjalla um gjafsóknarbeiðni A á grundvelli 178. gr. laga nr. 19/1991, bendi ég á að samkvæmt ákvæðinu „skal“ veita aðila gjafsókn fyrir „báðum dómum“. Ég tel að hvorki af þeim ákvæðum laga nr. 91/1991 sem nefnd eru í umsögn gjafsóknarnefndar eða öðrum ákvæðum laga verði sú takmörkun leidd að sá sem á rétt til gjafsóknar á grundvelli 178. gr. laga nr. 19/1991 verði að hafa óskað formlega eftir gjafsókn á þeim grundvelli áður en að héraðsdómur gengur. Ég tel að af orðalagi 178. gr. laga nr. 19/1991 og tilgangi hennar, sbr. einnig 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, leiði að hlutverk stjórnvalda við umfjöllun um gjafsókn samkvæmt greininni sé einkum það að staðreyna hvort atvik og málsgrundvöllur í fyrirhuguðu dómsmáli sé með þeim hætti að lögbundinn réttur til gjafsóknar „fyrir báðum dómum“ verði virkur. Ef gjafsóknarbeiðandi hefur ekki fengið formlega úrlausn um slíkan rétt af hálfu stjórnvalda áður en héraðsdómur gengur kemur það ekki í veg fyrir það að slíkt gjafsóknarleyfi verði veitt áður en dómur gengur í Hæstarétti, sé máli á annað borð áfrýjað. Komi mál til kasta Hæstaréttar er það síðan verkefni hans að ákveða umfang gjafsóknarkostnaðar bæði í héraði og fyrir Hæstarétti og skiptir þar ekki máli hvort fyrir liggur úrlausn héraðsdóms um það atriði. Er þetta þó að sjálfsögðu háð þeim fyrirvara að krafa um málskostnað sé lögð fyrir Hæstarétt með réttum og fullnægjandi hætti. Ég vek hér athygli á því að í forsendum Hæstaréttar í áðurnefndum dómi, Hrd. 1996, bls. 150, kemur fram að aðaláfrýjandi hafi fengið gjafsóknarleyfi dómsmálaráðherra, dags. 9. nóvember 1994, en héraðsdómur í málinu hafði gengið nokkrum mánuðum fyrr eða 21. júní 1994, og verður ekki séð af héraðsdómnum að þar hafi verið ákvarðaður gjafsóknarkostnaður. Þrátt fyrir þetta tók Hæstiréttur fram að aðaláfrýjandi fyrir Hæstarétti nyti „lögbundinnar gjafsóknar í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt 178. gr. laga nr. 19/1991“ og yrði gjafsóknarkostnaður hans allur greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun á „báðum dómstigum“.

Með hliðsjón af þessu og framangreindum sjónarmiðum get ég ekki fallist á þá afstöðu stjórnvalda að skort hafi skilyrði að lögum til að verða við beiðni A, dags. 25. mars 2002, um gjafsókn fyrir héraðsdómi á grundvelli 178. gr. laga nr. 19/1991, þar sem héraðsdómur hefði þá þegar verið kveðinn upp. Tel ég að í tilefni af umræddri gjafsóknarbeiðni hefðu stjórnvöld átt að taka til rökstuddrar úrlausnar hvort veita skyldi A gjafsókn fyrir „báðum dómum“ á grundvelli 178. gr. laga nr. 19/1991, að minnsta kosti að því er laut að málsókn á hendur lögreglustjóranum í Reykjavík. Eins og rakið er hér að framan í kafla IV.2 var beiðnin hins vegar afgreidd með þeim hætti að veitt var gjafsókn fyrir Hæstarétti á grundvelli 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991.

V.

Niðurstaða

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða mín að synjanir dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á gjafsókn til handa A, dags. 9. febrúar og 15. mars 2001, hafi ekki verið reistar á réttum lagagrundvelli. Með hliðsjón af þeim gögnum sem lögmaður gjafsóknarbeiðanda hafði lagt fram í málinu tel ég að á stjórnvöldum hafi hvílt sú skylda að taka rökstudda afstöðu til þess hvort gjafsókn skyldi veitt í málinu á grundvelli 178. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Þá er það niðurstaða mín að af hálfu stjórnvalda hafi ekki með fullnægjandi hætti verið leyst úr gjafsóknarbeiðni A, dags. 25. mars 2002.

Það eru tilmæli mín til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að mál A verði tekið upp að nýju, komi fram ósk um það frá henni, og þá leitast við að rétta hlut hennar í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í áliti þessu. Eins og fram kemur í skýrslu minni til Alþingis fyrir árið 2001 (SUA 2001, bls. 119) eru þess dæmi að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi rétt hlut umsækjanda um gjafsókn eftir að umsókn hafði verið hafnað og héraðsdómur fallið með því að greiða tiltekna þætti kostnaðar sem hlotist hefur af rekstri viðkomandi dómsmáls, þ.m.t. þóknun til lögmanns.

VI.

Með bréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 23. janúar 2004, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort A hefði leitað til ráðuneytisins á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni eða hvort málið væri enn til meðferðar. Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 11. febrúar 2004, kemur fram að lögmaður A hefði leitað til ráðuneytisins á ný með bréfi, dags. 24. mars 2003. Í framhaldi af því hefði ráðuneytið fallist á greiðslu málflutningsþóknunar vegna reksturs máls A fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.