Málefni fatlaðs fólks.

(Mál nr. F144/2023)

Umboðsmaður óskaði eftir upplýsingum frá heilbrigðisráðherra um hvort fréttir af þvinguðum ófrjósemisaðgerðum á fötluðu fólki á Íslandi hefðu leitt til einhverra viðbragða hans og þá hverra.

Ráðuneytið greindi frá því að fjölmiðlaumfjöllun og fyrirspurn umboðsmanns hefðu leitt til frekari skoðunar á málefninu. Þannig hefðu verið send erindi til þeirra heilbrigðisstofnana þar sem legnámsaðgerðir væru gerðar og óskað eftir upplýsingum um hvort til staðar væri verklag þegar sjúklingar, sem sviptir hefðu verið sjálfræði, ættu í hlut og hvernig þeir væru hafðir með í ráðum í þeim tilvikum. Einnig hefði verið óskað upplýsinga um hvort fyrir lægju klínískar leiðbeiningar varðandi legnámsaðgerðir. Þá með það í huga að önnur léttvægari inngrip væru fullreynd áður en ákvörðun um slíkt væri tekin.

Í ljósi þessara viðbragða var athuguninni látið lokið að svo stöddu en áfram fylgst með málinu og óskað eftir upplýsingum um framvindu þess fyrir 1. maí 2024.

  

Umboðsmaður lauk málinu 5. febrúar 2024. 

  

   

Hér með tilkynnist að embætti umboðsmanns Alþingis hefur að svo stöddu lokið athugun sinni sem sneri að því hvort umfjöllun fréttamiðla um þvingaðar ófrjósemisaðgerðir á fötluðu fólki á Íslandi hefði leitt til viðbragða af hálfu heilbrigðisráðherra á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda hans.

Í bréfi umboðsmanns Alþingis til heilbrigðisráðherra 12. desember 2023 var nánar rakið að á vefsíðum nokkurra fréttamiðla hefði verið fjallað um þvingaðar ófrjósemisaðgerðir á fötluðu fólki á Íslandi. Sérstök athygli var vakin á að framkvæmdin hérlendis hefði verið þungamiðja erlendrar umfjöllunar um stöðu fatlaðs fólks hvað þessar aðgerðir varðaði. Í einni tiltekinni frétt um málið hefði komið fram að frá 2019 hefði Ísland bannað ófrjósemisaðgerðir án samþykkis nema í læknisfræðilegri nauðsyn. Legnám teldist hins vegar vera læknismeðferð og því undanskilið banninu. Þá tækju lögin ekki á því hvernig alvarlega fatlaðir einstaklingar gætu samþykkt slíkar aðgerðir.

Í svari ráðuneytisins 12. janúar sl. var gerð grein fyrir efni laga nr. 35/2019, um ófrjósemisaðgerðir, og m.a. tekið fram að samkvæmt lögunum væri einungis heimilt að framkvæma ófrjósemisaðgerð að ósk einstaklings sem náð hefði 18 ára aldri og einungis væri heimilt að framkvæma ófrjósemisaðgerð á einstaklingum sem væru ólögráða fyrir æsku sakir þegar ætla mætti að frjósemi viðkomandi hefði alvarleg áhrif á líf eða heilsu einstaklingsins og skyldi liggja fyrir staðfesting tveggja lækna um slíkt, auk samþykkis sérstaklega skipaðs lögráðamanns. Á það var m.a. bent af hálfu ráðuneytisins að í lögskýringargögnum kæmi fram að ófrjósemisaðgerðir féllu ekki undir skilgreiningu á heilbrigðisþjónustu í lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu. Áréttaði ráðuneytið jafnframt að ákvæði laga nr. 35/2019 tækju ekki til tilvika þar sem um nauðsynlega læknismeðferð væri að ræða enda þótt ófrjósemi hlytist af. Legnámsaðgerð flokkaðist þá ekki undir ófrjósemisaðgerð samkvæmt lögunum heldur teldist til heilbrigðisþjónustu samkvæmt skilgreiningu laga nr. 40/2007.

Í kjölfarið tók ráðuneytið fram að sú meginregla gilti að meðferð mætti ekki framkvæma nema með samþykki sjúklings, sbr. 7. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga. Í 2. mgr. greinarinnar kæmi fram að ákvæði lögræðislaga giltu um samþykki fyrir meðferð sjúklinga sem vegna greindarskorts, eða af öðrum ástæðum sem lögin tilgreindu, væru ófærir um að taka ákvörðun um meðferð. Í þeim tilvikum skyldi þó hafa sjúkling með í ráðum eftir því sem kostur væri. Ákvæði laga nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, ættu þá að tryggja rétt fatlaðs einstaklings til aðstoðar persónulegs talsmanns við persónuleg málefni, m.a. varðandi undirbúning upplýstrar ákvörðunar vegna meðferðar í heilbrigðisþjónustu, sbr. 9. gr. laganna. Áður en legnám væri framkvæmt hjá sjálfræðissviptum fötluðum einstaklingi þyrfti, samkvæmt þessu, að liggja fyrir samþykki lögráðamanns og skylt væri í þeim tilvikum að hafa sjúkling með í ráðum eftir því sem kostur væri og gæta réttar einstaklingsins til aðstoðar persónulegs talsmanns.

Ráðuneytið upplýsti jafnframt að umfjöllun um efnið í fjölmiðlum og fyrirspurn umboðsmanns hefði leitt til frekari skoðunar á málefninu. Þannig hefðu erindi af hálfu ráðuneytisins verið send til þeirra heilbrigðisstofnana þar sem legnámsaðgerðir færu fram þar sem óskað hefði verið eftir upplýsingum um hvort til staðar væri verklag þegar um ræddi legnámsaðgerðir sjúklinga sem ekki væru lögráða, þ.e. sem hefðu verið sviptir sjálfræði, og hvernig sjúklingar væru hafðir með í ráðum í þeim tilvikum. Einnig hefði verið óskað upplýsinga um hvort fyrir lægju klínískar leiðbeiningar varðandi legnámsaðgerðir, þ.e. með það í huga að önnur léttvægari inngrip væru fullreynd áður en ákvörðun væri tekin um legnám.

Í ljósi þess sem fram hefur komið í svörum ráðuneytisins tel ég ekki tilefni til að halda athugun málsins áfram að svo stöddu. Áfram verður þó fylgst með málinu af hálfu embættisins og er þess óskað að ráðuneytið upplýsi umboðsmann um framvindu málsins fyrir 1. maí nk.