Eignarnám. Kostnaður við meðferð ágreiningsmáls um gildi eignarnámsákvörðunar. Stjórnarskrá. Rökstuðningur. Meinbugir á lögum.

(Mál nr. 11782/2022)

A ehf. leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta. Með úrskurðinum var ekki fallist á kröfu félagsins um að gera eignarnema, Vegagerðinni, að greiða því kostnað vegna vinnu lögmanns í tengslum við kæru félagsins á ákvörðun stofnunarinnar um eignarnám. Var þeirri kröfu hafnað með vísan til þess að sá kostnaður yrði ekki talinn til kostnaðar við rekstur matsmáls samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Athugun umboðsmanns var afmörkuð við það hvort úrskurður nefndarinnar hefði verið í samræmi við lög og þá einkum hvort forsendur hans hefðu fullnægt þeim kröfum sem gera yrði til rökstuðnings stjórnvaldsákvarðana.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga um framkvæmd eignarnáms eins og þau yrðu skýrð með hliðsjón af stjórnskipulegri vernd eignarréttarins. Taldi umboðsmaður að líta yrði svo á að það væri verkefni matsnefndar eignarnámsbóta, þegar hún úrskurðaði um fjárhæð eignarnámsbóta til eignarnámsþola, að taka afstöðu til þess hvort gera ætti eignarnema að greiða eignarnámsþola málefnalegan og hæfilegan kostnað sem hann hefði stofnað til við að leita lögmætra leiða til að fá skorið úr um gildi eignarnámsákvörðunar, svo sem með því að beina stjórnsýslukæru til ráðuneytis. Þannig bæri að skýra lagaákvæði um úrskurðarvald matsnefndarinnar með þeim hætti að þau tækju eftir atvikum einnig til þess lögmæta kostnaðar sem stofnast hefði hjá eignarnámsþola af því tilefni.

Umboðsmaður vísaði til þess að af skýringum nefndarinnar yrði ekki annað ráðið en að það væri afstaða hennar að ekki væri útilokað að slíkur kostnaður kynni að verða bættur á grundvelli laga um framkvæmd eignarnáms. Það væri á hinn bóginn ekki sjálfgefið heldur þyrfti að meta það hverju sinni. Þannig hefði það verið afstaða nefndarinnar að atvik í máli A ehf. hefðu ekki gefið tilefni til að umræddur kostnaður fengist bættur á þeim grundvelli. Að mati umboðsmanns var hins vegar óljóst hvaða sjónarmið hefðu legið niðurstöðu nefndarinnar til grundvallar, enda hefði hvergi verið vikið nánar að þeim í úrskurði hennar. Þá hefðu skýringar nefndarinnar í reynd ekki varpað frekara ljósi á þetta atriði. Yrði þannig ekki séð að nefndin hefði fært fram fullnægjandi rök fyrir þeim meginsjónarmiðum sem hefðu verið ráðandi við mat hennar á því hvort eignarnema yrði gert að greiða A ehf. þann kostnað sem félagið hefði stofnað til við stjórnsýslukæru þess og þá hvort sá kostnaður teldist málefnalegur og hæfilegur. Var það niðurstaða umboðsmanns að rökstuðningur nefndarinnar hefði að þessu leyti ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður taldi jafnframt rétt að vekja athygli Alþingis og dómsmálaráðherra á þeim óskýrleika sem væri fyrir hendi um rétt eignarnámsþola til að fá þann kostnað bættan sem hann kynni að þurfa að leggja út fyrir vegna ákvörðunar um eignarnám og aðgerða í aðdraganda þess. Taldi hann nánar tiltekið ástæðu til að tekið yrði til skoðunar hvort sú réttarvernd sem leiddi af áskilnaði stjórnarskrárinnar um fullt verð fyrir eign, sem tekin hefði verið eignarnámi, væri tryggð í lögum um framkvæmd eignarnáms með fullnægjandi hætti.

Umboðsmaður mæltist til þess að mál A ehf. yrði tekið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og leyst yrði úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Jafnframt beindi hann því til matsnefndar eignarnámsbóta að framvegis yrði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem þar kæmu fram.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 5. febrúar 2024.

   

   

I Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 13. júlí 2022 leitaði B lögmaður, fyrir hönd A ehf., til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta 7. júní 2022 í máli nr. 5/2021. Í úrskurðinum var m.a. tekin afstaða til kröfu A ehf. um greiðslu kostnaðar vegna vinnu lögmanns í tengslum við kæru félagsins á ákvörðun Vegagerðarinnar um eignarnám til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Með úrskurðinum var þeirri kröfu hafnað með vísan til þess að sá kostnaður yrði ekki talinn til kostnaðar við rekstur matsmáls samkvæmt lögum nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, svo sem áskilið væri í 11. gr. þeirra.

Líkt og nánar er vikið að síðar hef ég ákveðið að afmarka athugun mína við það hvort úrskurður nefndarinnar hafi verið í samræmi við lög, einkum hvort forsendur hans hafi fullnægt þeim kröfum sem gera verður til rökstuðnings stjórnvaldsákvarðana samkvæmt 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  

II Málavextir

Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti Vegagerðin D, þáverandi eiganda jarðarinnar X, um fyrirhugaðar framkvæmdir við breikkun Hringvegarins um Kjalarnes með bréfi 30. apríl 2019. Var þar upplýst um að hinn nýi og breytti vegur kæmi til með að fara um spildu í landi jarðarinnar og yrði Vegagerðin því að kaupa það landsvæði. Með bréfinu fylgdi uppdráttur en óskað var eftir athugasemdum frá landeiganda innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins. Í kjölfar þessa fóru fram samningaviðræður um kaup Vegagerðarinnar á spilduni þar sem landeigandi lýsti andstöðu sinni við fyrirætlanir stofnunarinnar. Jörðin X var seld A ehf. 31. desember 2019, sem D mun jafnframt vera í fyrirsvari fyrir, en viðræðum um kaup Vegagerðarinnar á téðri spildu jarðarinnar var fram haldið.

Með bréfi Vegagerðarinnar til A ehf. 2. júlí 2021 var félaginu tilkynnt um að ákveðið hefði verið að beita eignarnámsheimild VII. kafla vegalaga nr. 80/2007 til að unnt yrði að halda framkvæmdum áfram í samræmi fjárveitingar frá Alþingi, en gert væri ráð fyrir framkvæmdinni í samgönguáætlun. Í bréfinu kom fram að vegna andstöðu landeiganda við fyrirhugaða veglínu og yfirlýsinga hans um að hann myndi ekki ganga til samninga við Vegagerðina á grundvelli tilboðs hennar hefði lögmaður stofnunarinnar sent honum bréf 3. júní 2021 þar sem eignarnám hefði verið boðað vegna hinna fyrirhuguðu framkvæmda. Þar hefði verið tekið fram að Vegagerðin væri tilneydd til að nýta sér heimild 37. gr. vegalaga og taka landspilduna eignarnámi enda yrði ekki breyting á afstöðu landeiganda. Þá hefði komið fram að bærust ekki athugasemdir frá landeiganda sem gætu breytt þessum fyrirætlunum Vegagerðarinnar innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins mætti búast við að ákvörðun yrði tekin um eignarnám án frekari fyrirvara, en engar athugasemdir þess efnis hefðu borist.

Sama dag og ákvörðun um eignarnám var tekin, þ.e. 2. júlí 2021, fór Vegagerðin þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnámsins. Með tölvubréfi A ehf. til nefndarinnar 22. ágúst 2021 upplýsti félagið um að til stæði að kæra ákvörðun Vegagerðarinnar um eignarnám til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Þá var þess óskað að fyrirtöku málsins yrði frestað þar til kæran hlyti efnislega meðferð og niðurstaða fengist í málinu.

Ákvörðun Vegagerðarinnar um eignarnám var kærð til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins 23. september 2021. Í kærunni var á því byggt að hinar fyrirhuguðu framkvæmdir rúmuðust ekki innan eignarnámsheimildar 37. gr. vegalaga. Jafnframt var vísað til þess að ákvörðun Vegagerðarinnar samræmdist ekki kröfum um meðalhóf auk þess sem rannsóknarskyldu hefði ekki verið gætt. Þá voru einnig gerðar athugasemdir við legu hinna fyrirhuguðu framkvæmda.

Við fyrirtöku málsins 30. september 2021 var fært til bókar að matsnefndin féllist á að lagaheimild væri til eignarnámsins í 37. gr. vegalaga, sbr. fyrri málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms. Þá var hafnað kröfu félagsins, um að meðferð málsins fyrir matnefndinni yrði frestað á meðan kæra þess væri til meðferðar hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, með svofelldum rökum: 

Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 er matsnefnd eignarnámsbóta falið að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögunum, en eignarnámsþolum ber réttur til fulls verðs í tilefni eignarnáms samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í fyrsta málslið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 11/1973 segir að matsnefnd skuli kveða upp úrskurð um fjárhæð eignarnámsbóta til eignarnámsþola. Er matsnefndin sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem bundin er af skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem segir í 1. mgr. að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Röksemdir eignarnámsþola, fyrir því að fresta skuli meðferð málsins fyrir nefndinni, lúta að lögmæti ákvörðunar ráðherra um eignarnám. Það fellur utan valdsviðs matsnefndar að taka afstöðu til lögmætis ákvörðunar ráðherra og hefur nefndinni eins og áður greinir verið falið með lögum að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta sem henni ber að leysa af hendi innan hæfilegs tíma. Fyrir nefndinni liggur ákvörðun stjórnvalds sem er til þess bært að lögum. Matsnefndin hefur fallist á að lagaheimild sé til þess að bera mál þetta undir nefndina, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973, og ekki eru slíkir annmarkar á ákvörðuninni um eignarnám að frestun valdi á meðferð nefndarinnar í máli þessu. 

Með greinargerð A ehf. til matsnefndar eignarnámsbóta 7. desember 2021 var m.a. krafist málskostnaðar vegna reksturs matsmálsins og tekið fram að tímaskýrsla yrði lögð fyrir matsnefndina við upphaf málflutnings, ef til hans kæmi. Var þar vísað til þess að félagið styddi málskostnaðarkröfu sína við 11. gr. laga nr. 11/1973 og 3. málslið 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kveðið væri á um skyldu til að bæta eignarskerðingar fullu verði. Þá var farið fram á að málskostnaðarkrafan tæki til útgjalda vegna vinnu lögmanns við kæru eignarnámsákvörðunarinnar.

Í fyrrgreindum úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta 7. júní 2022 í máli nr. 5/2021 var afstaða tekin til málskostnaðarkröfu A ehf. með eftirfarandi hætti:  

Í síðari málslið 11. gr. laga nr. 11/1973 segir að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn. Í málinu hefur af hálfu eignarnámsþola verið lagt fram málskostnaðaryfirlit vegna lögfræðiráðgjafar í hans þágu. Af málskostnaðaryfirlitinu verður ráðið að kostnaðurinn féll að hluta til vegna ráðgjafar sem eignarnámsþoli naut vegna hagsmunagæslu fyrir [samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu] í tilefni af kæru á lögmæti eignarnámsins til ráðuneytisins og sá kostnaður verður ekki talinn til kostnaðar við rekstur matsmáls samkvæmt lögum nr. 11/1973, svo sem áskilið er í síðari málslið 11. gr. þeirra. Verður hæfilegt endurgjald til handa eignarnámsþola þannig ákveðið að álitum.   

     

III Samskipti umboðsmanns og matsnefndar eignarnámsbóta

Með bréfi til matsnefndar eignarnámsbóta 23. ágúst 2022 var þess óskað að nefndin lýsti viðhorfi sínu til kvörtunarinnar. Þá var þess sérstaklega óskað að nefndin skýrði hvort og þá hvernig hún teldi niðurstöðu sína samrýmast lögum í ljósi þeirra sjónarmiða sem kæmu fram í áliti umboðsmanns Alþingis 23. desember 2002 í máli nr. 3541/2002.

Í svarbréfi matsnefndar eignarnámsbóta 12. september 2022 kom fram að nefndin tæki undir þá afstöðu sem fram kæmi í fyrrgreindu áliti umboðsmanns að samkvæmt lögum nr. 11/1973 væri það hlutverk nefndarinnar að tryggja rétt manna samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, innan þeirra marka sem valdsviði nefndarinnar væru sett lögum samkvæmt. Þá teldi matsnefndin að samkvæmt lögunum væri það hlutverk nefndarinnar að tryggja að réttur manna samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar yrði raunhæfur og virkur. Á hinn bóginn væri það álit nefndarinnar að ekki væri sjálfgefið að kostnaður sem t.d. stofnaðist í því ferli sem ætti sér stað áður en ráðist væri í þá framkvæmd sem væri tilefni eignarnáms, s.s. við samningaviðræður, kostnaður sem tengdist hagsmunagæslu fyrir hinu opinbera og einkaaðilum eða kostnaður vegna kæru á lögmæti eignarnáms til ráðuneytis, gæti talist til kostnaðar samkvæmt lokamálslið 11. gr. laga nr. 11/1973 eins og það ákvæði yrði skýrt í samræmi við stjórnarskrá, heldur yrði að meta það hverju sinni. Benti nefndin á að eftir álit umboðsmanns í máli nr. 3541/2002 hefði í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 2/2002 verið talið að kostnaður eignarnámsþola vegna vinnu lögmanns í tengslum við útgáfu nýs framkvæmdaleyfis sem varðaði viðkomandi framkvæmd félli undir málskostnað sem yrði bættur samkvæmt 11. gr. laga nr. 11/1973. Í úrskurðinum hefði verið sérstaklega tiltekið að eftir að nefndinni hefði borist matsbeiðni í málinu hefði orðið ljóst að útgefið framkvæmdaleyfi vegna þeirrar framkvæmdar, sem var tilefni eignarnámsins, hefði verið gallað og lögmanni eignarnámsþola verið nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að fá það leiðrétt.

Í bréfi matsnefndarinnar sagði jafnframt að þótt ekki væri útilokað að kostnaður á borð við þann, sem nefndin hefði í úrskurði sínum í máli nr. 5/2021 hafnað að koma skyldi til greiðslu samkvæmt lokamálslið 11. gr. laga nr. 11/1973, kynni að verða felldur undir lagaákvæðið hefði það verið afstaða nefndarinnar umrætt sinn að atvik málsins gæfu ekki tilefni til að kostnaðurinn skyldi felldur þar undir. Hefði þar einkum verið horft til þess að matsnefnd hefði í samræmi við áskilnað 1. mgr. 5. gr. laganna talið að lagaheimild væri til eignarnámsins og væru atvik málsins þannig eðlisólík t.d. þeirri aðstöðu sem uppi hefði verið í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 2/2002.

Að lokum kom fram að það hefði verið álit matsnefndarinnar að eins og atvikum hefði verið háttað og í ljósi valdsviðs hennar hefði henni verið ófært að skýra lokamálslið 11. gr. laga nr. 11/1973 á þann hátt að hinn umþrætti kostnaður skyldi felldur undir lagaákvæðið. Ella hefði verið um valdþurrð að ræða. Á hinn bóginn tæki matsnefndin undir þau sjónarmið sem komið hefðu fram á opinberum vettvangi, t.d. í fræðiritum, um að ástæða kynni að vera til að gera breytingar á lagareglum um greiðslu kostnaðar eignarnámsþola af hagsmunagæslu og treysta þannig réttarvernd hans samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Matsnefndin vekti athygli á að ekki væri loku fyrir það skotið að réttarstaðan samkvæmt gildandi rétti kynni að vera slík að ástæða væri til þess að vekja athygli á meinbugum á lögum nr. 11/1973.

Umboðsmaður ritaði matsnefnd eignarnámsbóta bréf að nýju 9. janúar 2023. Þar var í fyrsta lagi vísað til þess að í svari nefndarinnar hefði komið fram að við mat á því hvort Vegagerðinni yrði gert að greiða A ehf. kostnað vegna stjórnsýslukæru um lögmæti eignarnámsins hefði nefndin einkum horft til þess að hún hefði fallist á að lagaheimild væri til eignarnáms. Var þess óskað að nefndin skýrði hvernig þau sjónarmið hefðu haft þýðingu fyrir mat nefndarinnar á umræddri kröfu félagsins. Í öðru lagi var óskað skýringa á því hvort nefndin hefði litið til nánari málsástæðna félagsins í téðu stjórnsýslumáli, s.s. viðvíkjandi umfangi þess, og lagt mat á hvort tengsl þess við rekstur matsmálsins fyrir nefndinni væru með þeim hætti að fallast bæri á kröfu um greiðslu kostnaðar vegna þess að einhverju leyti eða öllu. Ef ekki hefði verið lagt mat á málsástæður félagsins með þeim hætti var óskað skýringa á því. Loks var þess óskað, að teknu tilliti til svara nefndarinnar, að nefndin skýrði hvort og þá hvernig rökstuðningur hennar í úrskurðinum hefði samrýmst 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í svarbréfi matsnefndar eignarnámsbóta 6. febrúar 2023 var áréttað að með fyrri svörum hennar hefði ætlunin verið að útskýra hvernig aðstæður í matsmáli nr. 5/2021 væru gjörólíkar þeim sem á reyndi í matsmáli nr. 2/2002, sem væri það mál sem legið hefði til grundvallar áliti umboðsmanns í máli nr. 3541/2002. Í máli nr. 5/2021 hefði verið um að ræða aðstæður þar sem eignarnámsþoli hefði haft af því kostnað að láta reyna á lögmæti eignarnámsins og leitast við að fella útlagðan kostnað vegna þess á eignarnema í málarekstri fyrir matsnefndinni, þótt það félli utan valdsviðs nefndarinnar að taka afstöðu til lögmætis eignarnámsákvörðunarinnar. Í því samhengi skipti máli að matsnefndin hefði áður fallist á að lagaheimild væri til að bera málið undir nefndina og aðstaðan því hvorki verið sú að engin lagaheimild væri í lögum eða bersýnilegir annmarkar á þeirri lagaheimild sem eignarnámið hefði verið reist á. Óumdeilt væri að ákvörðun um eignarnám og lögmæti hennar félli utan lögbundins valdsviðs nefndarinnar en það leiddi af 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973 að væri ekki lagaheimild til eignarnáms skyldi vísa máli frá nefndinni. Aðstæður í máli nr. 5/2021 væru því gjörólíkar þeirri stöðu sem uppi hefði verið í máli nr. 2/2002, þar sem í ljós hefði komið undir rekstri matsmálsins að framkvæmdaleyfi í tengslum við hlutaðeigandi framkvæmdir eignarnema væri bersýnlega gallað og eignarnámsþola verið nauðsynlegt að kosta til fé vegna útgáfu nýs framkvæmdaleyfis, sem þannig hefði staðið í tengslum við skyldu matsnefndar til að ákveða fjárhæð bóta vegna framkvæmda eignarnema.

Í svarbréfinu kom einnig fram að matnefndin hefði sannarlega litið til allra sjónarmiða eignarnámsþola í málinu, þ. á m. varðandi umfang málsins. Úrskurðaður kostnaður í málinu hefði verið samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning að undanskildum þeim lið er laut að hagsmunagæslu fyrir ráðuneytinu í tilefni af kæru á lögmæti eignarnámsins. Fjárhæð þess kostnaðar sem úrskurðaður hefði verið væri ríflegur ef litið væri til úrlausnar matsnefndar í öðrum málum. Málið hefði síst verið umfangsmeira en hefðbundin mál sem rekin væru fyrir nefndinni.

Í skýringum nefndarinnar kom að endingu fram að hún teldi að betur hefði farið á því að tiltaka í úrskurðinum að niðurstaðan varðandi þann kostnað, sem eignarnámsþoli vildi fella á eignarnema, hefði orðið þessi „eins og hér háttar til“. Þar fyrir utan teldi matsnefndin að rökstuðningur úrskurðarins hefði í öllu tilliti verið samrýmanlegur 22. gr. stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður ritaði matnefnd eignarnámsbóta enn bréf 6. júní 2023 vegna málsins og bárust svör hennar 26. þess mánaðar. Í bréfi umboðsmanns var m.a. vísað til þess að samkvæmt bréfi nefndarinnar 6. febrúar þess árs hefði nefndin sannarlega litið til allra sjónarmiða eignarnámsþola í málinu en ekki hefði verið talið rétt að gera eignarnema að greiða eignarnámsþola viðkomandi kostnað „eins og hér háttar til“. Af svörum nefndarinnar yrði aftur á móti ekki skýrlega ráðið hvaða sjónarmið hún hefði lagt til grundvallar við mat sitt og hvernig þau horfðu við þeim atvikum sem uppi hefðu verið í málinu.

Í bréfi umboðsmanns var í fyrsta lagi óskað nánari upplýsinga og skýringa, en áður hefðu komið fram, á þeim sjónarmiðum sem lögð hefðu verið til grundvallar því mati nefndarinnar að ekki hefði verið talið rétt að fallast á umræddan kostnað í málinu, og hvernig málsástæður félagsins í tengslum við stjórnsýslukæruna, og málsatvik að öðru leyti, horfðu við með hliðsjón af þeim. Í svari nefndarinnar kom fram að um þetta atriði vísaðist til úrskurðar hennar og að ekki væri fært að veita nánari upplýsingar og skýringar.

Í öðru lagi var þess óskað að nefndin upplýsti hvort skilja mætti fyrri svör hennar á þann veg að svo til greina kæmi að gera eignarnema að greiða eignarnámsþola kostnað af því tagi sem undir væri í fyrirliggjandi máli þyrfti lagaheimild að skorta til eignanámsins eða bersýnilegir annmarkar að vera á ákvörðun um eignarnám eða stjórnvaldsathöfnum sem tengdust viðkomandi ákvörðun, svo sem ágalli á framkvæmdaleyfi, sem eignarnámsþoli brygðist við með tilheyrandi fjárútlátum. Væri um réttan skilning að ræða var óskað nánari skýringa á þeim lagasjónarmiðum er byggju að baki þeirri afstöðu nefndarinnar. Í svari nefndarinnar sagði um þetta atriði:

Hér telur formaður matsnefndar mikilvægt að árétta það sem leiðir af lögum nr. 11/1973 [..] að það fellur utan valdsviðs matsnefndar að fjalla um lögmæti eignarnámsákvörðunar. Með tilvitnuðum texta [..] var einfaldlega bent á þá staðreynd að samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973 skal matsnefnd ákveða dag til fyrirtöku máls fallist nefndin á að lagaheimild sé til eignarnámsins. Af því leiðir að ef eignarnám á sér ekki lagastoð er mál ekki tekið fyrir heldur vísað frá matsnefnd. Í matsmáli nr. 5/202[1] háttaði svo til að eignarnámsákvörðun var reist á skýrri lagaheimild 37. gr. vegalaga nr. 80/2007.

Í þriðja lagi var í bréfi umboðsmanns vísað til þess að í úrskurðarframkvæmd matsnefndar eignarnámsbóta fyndust dæmi um að eignarnema hefði verið gert að greiða eignarnámsþola kostnað sem ekki virtist hafa verið talinn falla undir það að vera kostnaður við „rekstur matsmáls“ fyrir nefndinni og það án þess að séð væri að fyrir hefði legið annmarki á ákvörðun um eignarnám eða tengdum stjórnvaldsathöfnum sem eignarnámþoli hefði brugðist við. Af því tilefni var óskað skýringa á því hvort og þá hvernig afstaða nefndarinnar í máli A ehf. samrýmdist þeirri úrskurðarframkvæmd. Í svari nefndarinnar sagði í þessu sambandi eftirfarandi:

Alvanalegt er [að] matsnefnd úrskurði um að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna kostnaðar sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verði talinn í merkingu lokamálsliðar 11. gr. laga nr. 11/1973 sem fallið hefur til áður en matsmál berst matsnefnd til meðferðar á grundvelli laganna, t.d. meðan á samningaviðræðum hefur staðið áður en til töku ákvörðunar um eignarnám hefur komið. Með „kostnaði við rekstur matsmáls“ í merkingu áðurgreinds lagaákvæðis er því ekki einungis átt við kostnað sem fellur til undir meðferð matsmáls fyrir nefndinni. Í fyrirspurnarbréfinu er vísað til fimm úrskurða í dæmaskyni. Fyrir þá getur undirritaður formaður ekki svarað enda gengu þeir áður en hann var skipaður í nefndina, en bent skal á að ekki var allur umkrafinn kostnaður tekinn til greina í úrskurðinum 7. júní 2002 í máli nr. 4/2000 og 18. nóvember 2011 í málum nr. 1/2011 og 2/2011.

     

IV Álit umboðsmanns Alþingis

1 Nánari afmörkun athugunar

Svo sem samskipti mín við matsnefnd eignarnámsbóta bera með sér beindist athugun mín í upphafi einkum að því hvort úrskurður nefndarinnar hefði verið í samræmi við lög nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, eins og þau yrðu skýrð með hliðsjón af meginreglum um eignarnám og þann áskilnað 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema fullt verð komi fyrir. Eins og málið liggur fyrir að fengnum nánari skýringum nefndarinnar til mín tel ég mig þó ekki hafa nægilegar forsendur til þess að fjalla um þetta atriði. Hef ég því ákveðið að afmarka athugun mína við það hvort úrskurður nefndarinnar hafi fullnægt þeim kröfum sem gera verður til rökstuðnings stjórnvalds við þær aðstæður sem hér voru uppi, sbr. einkum 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  

2 Lög um framkvæmd eignarnáms

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, skal gætt ákvæða laganna við ákvörðun bóta vegna eignarnáms sem heimilað er í lögum. Í 1. mgr. 2. gr. laganna segir að matsnefnd eignarnámsbóta skeri úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald sem ákveða á samkvæmt lögunum.

Í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 11/1973 er gerð grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem nefnd, sem skipuð var 20. október 1973 til að endurskoða þágildandi lög um framkvæmd eignarnáms, lagði til grundvallar tillögum sínum sem fram komu í frumvarpinu. Þar kemur m.a. fram að ýmis vandkvæði séu á því að lögfesta ákvæði um fjárhæð eignarnámsbóta. Stafi það m.a. að því að ákvæði stjórnarskrárinnar um fullar bætur setji slíkri löggjöf vissar „óhagganlegar skorður“. Þar segir jafnframt að setning löggjafar af þessu tagi verði að tryggja réttaröryggi. Það verði m.a. gert með því að kynna eignarnámsþola rækilega fyrirhugaða eignarnámsskerðingu, m.a. áætluð mannvirki og óhagræði frá þeim og starfsemi eignarnema. Þá verði eignarnámsþoli að eiga þess kost að færa fram gögn og rök fyrir bótakröfum sínum. Einnig verði að tryggja að eignarnámsþoli verði ekki sviptur eignum sínum án þess að nægilega sé tryggt að hann fái þær bætur sem honum ber (Alþt. 1972-1973, A-deild, bls. 276).

Í 1. og 2. málslið 4. gr. laga nr. 11/1973 segir að eignarnemi skuli, þegar hann neytir eignarnámsheimildar sinnar, senda matsnefnd eignarnámsbóta beiðni um að mat fari fram. Beiðninni skal fylgja greinargerð fyrir eignarnámsheimild þeirri sem beiðnin styðst við og þeim framkvæmdum sem eru tilefni eignarnámsins. Fallist matsnefnd á að lagaheimild sé til eignarnámsins ákveður hún dag til fyrirtöku málsins með a.m.k. viku fyrirvara, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna.

Í athugasemdum við 4. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 11/1973 kemur fram að í greininni sé leitast við að tryggja að undirbúningur matsmáls sé sem rækilegastur þegar í upphafi, m.a. með því að mæla fyrir um skyldu eignarnema til að gera grein fyrir eignarnámsheimild sinni, svo að eigandi þeirrar eignar sem í hlut á geti gert sér ljóst hvort eignarnámskrafa eigi sér viðhlítandi lagastoð. Verði að telja matsnefnd óskylt að taka beiðni um eignarnámsmat fyrir, skorti hana lagaheimild að mati nefndarinnar, sbr. 5. gr. frumvarpsins (Alþt. 1972-1973, A-deild, bls. 278).

Samkvæmt 1. mgr. 10. laganna skal matsnefnd kveða upp úrskurð um fjárhæð eignarnámsbóta til eignarnámsþola. Í úrskurðinum skal gerð grein fyrir þeim atvikum og réttarreglum sem liggja til grundvallar niðurstöðum mats. Bótafjárhæð skal vera sundurliðuð. Þá skal grundvelli útreikninga lýst og jafnan taka afstöðu til ágreiningsatriða. Einnig ber sérstaklega að tiltaka hvern matskostnað eignarnemi eigi að greiða, sbr. 11. gr. laganna.

Í 11. gr. laga nr. 11/1973 segir að kostnað af starfi matsnefndar skuli greiða úr ríkissjóði, en matsnefnd ákveði hverju sinni í úrskurði sínum, þegar ríkið er ekki eignarnemi, hverja greiðslu eignarnemi skuli inna af hendi til ríkissjóðs vegna slíks kostnaðar. Ráðherra geti sett nánari reglur um greiðslu þessa kostnaðar, og svo um þóknun til nefndarmanna, en ekki verður séð að slíkar reglur hafi verið settar. Þá skuli eignarnemi greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls, og hæfilegur verður talinn. Í athugasemdum við 11. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 11/1973 segir eftirfarandi:  

Hér er ráð fyrir því gert, að kostnaður af starfi nefndarinnar sé í fyrstu greiddur úr ríkissjóði, en fáist síðan að verulegu leyti greiddur úr hendi eignarnema. Ríkissjóður hlýtur þó að standa endanlega straum af vissum hluta kostnaðarins, svo sem útgáfukostnaði. Hið sama kemur og til greina um ferðakostnað nefndarmanna, en viss jöfnun slíks kostnaðar á eignarnema virðist þó réttlætanleg. Hins vegar er eðlilegt að eignarnemi standi að meira eða minna leyti straum af þóknun fyrir starf matsmanna og öðrum kostnaði við ákvörðun eignarnámsbóta, og er því svo mælt fyrir, að matsnefnd ákveði, hverja fárhæð eignarnemi eigi af þessum sökum að greiða, en hún rennur þá í ríkissjóð. Eignarnámsþola verður hins vegar ekki gert að greiða neinn kostnað af meðferð málsins, heldur á hann rétt til hæfilegs endurgjalds á eigin kostnaði úr hendi eignarnema. Samt verður eignarnemi því aðeins skyldaður til að inna slíkt endurgjald af hendi, að um hóflegan og eðlilegan kostnað hafi verið að ræða. (Alþt. 1972-1973, A-deild, bls. 279.)

  

3 Skýring laga um framkvæmd eignarnáms með hliðsjón af  stjórnskipulegri vernd eignarréttarins

Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarrétturinn friðhelgur. Má engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Í greininni felst sú meginregla að eignarnámsþoli eigi að vera eins settur fjárhagslega og ef eignarnám hefði ekki farið fram. Í áskilnaðinum um fullt verð hefur m.a. verið talið felast að eignarnámsþoli eigi ekki eingöngu rétt til endurgjalds fyrir verðmæti þeirrar eignar sem tekin er eignarnámi heldur taki sá réttur jafnframt til bóta fyrir óhagræði sem eignarnám hefur að öðru leyti í för með sér og leiðir til fjárhagslegs tjóns fyrir hann. Þá leiði það enn fremur af þessum áskilnaði að við setningu laga og reglna um fjárhæð og tilhögun eignarnámsbóta þurfi að gæta þess að bætur séu tryggar, þær verði að vera réttilega ákvarðaðar og takmörk séu fyrir því hvaða kostnaður, sem til verður vegna eignarnámsins, verði lagður á eignarnámsþola (sbr. til hliðsjónar Gaukur Jörundsson: Eignaréttur I. Reykjavík 1982-1983, bls. 84 og 115. Sjá einnig Björg Thorarensen: Stjórnskipunarréttur: Mannréttindi. 2. útgáfa. Reykjavík 2019, bls. 504 og Ásgerður Ragnarsdóttir og Karl Axelsson: Eignarnám. Reykjavík 2021, bls. 37).

Ég nefni í þessu sambandi að með dómi Hæstaréttar 29. september 1958, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 609, var talið að fyrirmæli 10. gr. laga nr. 113/1952, um lausn ítaka af jörðum, er lutu að greiðslu yfirmatskostnaðar úr hendi eignarnámsþola sem ekki vildi una undirmati, samrýmdust ekki þágildandi 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. nú 72. gr. hennar, með svofelldum rökstuðningi: 

Samkvæmt 67. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 eiga fullar bætur að koma fyrir eign, sem tekin er eignarnámi. Réttur til bóta samkvæmt þessu boði stjórnarskrárinnar væri skertur ef sá, sem eign sinni er sviptur með þessum hætti, ætti sjálfur að bera lögmætan kostnað af ákvörðun bótanna.

Af ákvæðum laga nr. 11/1973, einkum 1. málslið 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 2. gr. þeirra, sem og áðurröktum lögskýringargögnum, verður sú ályktun dregin að með setningu þeirra hafi löggjafinn leitast við að mæla fyrir um tiltekna efnislega umgjörð með það fyrir augum að tryggja þeim, sem skyldaðir eru til að láta eign sína af hendi, þá réttarvernd sem leiðir af grunnreglu 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar um að fullt verð komi fyrir eign sem tekin hefur verið eignarnámi. Var enda gengið út frá því við setningu laganna að tryggja yrði að eignarnámsþoli yrði ekki „sviptur eignum sínum án þess að nægilega væri tryggt að hann fengi þær bætur sem honum ber“. Hefur í framkvæmd umboðsmanns verið talið að skýra verði ákvæði laganna, m.a. ákvæði 1. mgr. 2. gr., 10. og 11. gr. þeirra um úrskurðarheimildir matsnefndar eignarnámsbóta, með það í huga að stjórnarskrárverndaður réttur manns, sem skyldaður er að láta eign sína af hendi, til fullra bóta verði í senn bæði raunhæfur og virkur, sbr. álit umboðsmanns Alþingis 23. desember 2002 í máli nr. 3541/2002.

Ég tel að í tilvitnuðu áliti umboðsmanns hafi að verulegu leyti reynt á sams konar álitaefni og í máli A ehf. Í málinu hafði matsnefnd eignarnámsbóta talið að henni væri ekki heimilt samkvæmt lögum nr. 11/1973 að gera Vegagerðinni að greiða eignarnámsþola kostnað af meðferð ágreiningsmáls vegna ákvörðunar stofnunarinnar um eignarnám. Var þar nánar tiltekið um að ræða útgjöld vegna vinnu lögfræðings, m.a. í tilefni af stjórnsýslukæru þar sem eignarnámsákvörðunin var kærð. Í álitinu taldi umboðsmaður að líta yrði til þess að ákvörðun um eignarnám ætti sér yfirleitt nokkurn aðdraganda og framkvæmd eignarnáms og ákvörðun bóta færi oft fram í áföngum. Bætur vegna eignarnáms ættu þannig að jafnaði að taka mið af heildstæðu ferli máls sem hæfist með ákvörðun um eignarnám hjá eignarnámsþola á grundvelli lagaheimildar. Ákvörðun eignarnema um að taka tiltekna eign eignarnámi kynni að leiða til ágreinings um hvort ákvörðunin væri rétt að efni til, t.d. um staðsetningu, legu o.s.frv. Úrlausn slíks ágreinings kynni að hafa beina þýðingu þegar síðar yrði lagt mat á verðmæti hins eignarnumda. Þá kynni eignarnámsþoli eftir atvikum að telja að ekki hefði verið gætt réttra málsmeðferðarreglna af hálfu eignarnema við töku slíkrar ákvörðunar.

Í álitinu benti umboðsmaður á að við úrlausn á því hvort matsnefnd eignarnámsbóta væri heimilt að láta eignarnema eftir atvikum greiða kostnað á borð við þann sem undir væri í málinu kynni nefndin að þurfa að horfa til annarra ákvæða laga nr. 11/1973 en lokamálsliðar 11. gr. þeirra og þá einkum 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna. Taldi umboðsmaður að skýra yrði 1. mgr. 2. gr. og lokamálslið 11. gr. til samræmis við önnur ákvæði laganna um það hlutverk sem matsnefndinni væri falið með lögunum í því skyni að tryggja stjórnarskrárverndaðan rétt eignarnámsþola til fullra bóta. Vísaði umboðsmaður til þess að sá kostnaður sem eignarnámsþoli yrði fyrir við að nýta sér lögmætar leiðir til að fá leyst úr því hvort eignarnámsákvörðun væri byggð á lögum og málefnalegum forsendum og hvort beitt hefði verið réttum málsmeðferðarreglum, t.d. með stjórnsýslukæru, stofnaðist aðeins vegna þess að ákveðið hefði verið að nýta lögbundna eignarnámsheimild. Þar með hæfist ferli eignarnámsmáls í skilningi laga nr. 11/1973.

Í samræmi við framangreint hefur umboðsmaður lagt til grundvallar að líta verði svo á að það sé verkefni matsnefndar eignarnámsbóta, þegar hún úrskurðar um fjárhæð eignarnámsbóta til eignarnámsþola, að taka afstöðu til þess hvort gera eigi eignarnema að greiða eignarnámsþola málefnalegan og hæfilegan kostnað sem hann hefur stofnað til við að leita lögmætra leiða til að fá skorið úr um gildi eignarnámsákvörðunar, svo sem með því að beina stjórnsýslukæru til ráðuneytis. Þannig beri að skýra lagaákvæði um úrskurðarvald matsnefndarinnar með þeim hætti að þau taki eftir atvikum einnig til þess „lögmæta kostnaðar“ sem stofnast hefur hjá eignarnámsþola af því tilefni. Þegar litið sé til tilgangs laga nr. 11/1973 og hlutverks matsnefndarinnar við að tryggja þá réttarvernd sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar sé ekki fært að fallast á að aldrei geti komið til þess að nefndinni sé skylt að meta hvort rétt sé að bæta eignarnámsþola slíkan kostnað.

Ég tel að lokum rétt að víkja að dómi Hæstaréttar 2. október 2008 í máli nr. 619/2007. Í málinu var deilt um hvort kostnaður er laut að þóknun lögmanns vegna ráðgjafar og reksturs kærumáls til ráðherra vegna umhverfismats framkvæmdar fengist bættur á grundvelli 11. gr. laga nr. 11/1973, en þeim ágreiningi hafði verið vísað til matsnefndar eignarnámsbóta samkvæmt samkomulagi málsaðila. Með dómi Hæstaréttar var ekki fallist á að kostnaðurinn fengist bættur á grundvelli greinarinnar með svofelldum rökstuðningi: 

Þessi kostnaður stefnda verður ekki talinn til kostnaðar við rekstur matsmáls samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms, svo sem áskilið er í 11. gr. þeirra, en ekki kom til þess að eignarnámi væri beitt gagnvart honum. Þess vegna var það ekki hlutverk matsnefndar að kveða á um greiðslu þessa kostnaðar og skiptir þá ekki máli að aðilar hafi sammælst um að vísa þessu ágreiningsefni til hennar.

Niðurstaða Hæstaréttar var samkvæmt framangreindu á því reist að þar sem ekki hefði komið til eignarnáms teldist hinn umdeildi kostnaður ekki til „kostnaðar við rekstur matsmáls“ samkvæmt lögum nr. 11/1973. Voru atvik málsins því ekki sambærileg þeim sem lágu að baki fyrrgreindu áliti umboðsmanns í máli nr. 3541/2002. Að því virtu tel ég niðurstöðu Hæstaréttar ekki til þess fallna að draga úr þýðingu þeirra sjónarmiða sem fram koma í álitinu og áður er gerð grein fyrir.

   

4 Var niðurstaða matsnefndar eignarnámsbóta í samræmi við lög?

Það leiðir af 10. gr. laga nr. 11/1973 að matsnefnd eignarnámsbóta verður að láta rökstuðning fylgja niðurstöðu sinni um fjárhæð bóta og tiltaka sérstaklega hvern matskostnað eignarnemi eigi að greiða samkvæmt 11. gr. þeirra. Þar sem kröfum ákvæðisins um efni rökstuðnings sleppir verður rökstuðningur nefndarinnar að uppfylla þær lágmarkskröfur sem leiða af 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar segir að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds sé byggð á og, að því marki sem ákvörðun byggist á mati, skuli í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Ekki er kveðið á um það í 22. gr. stjórnsýslulaga hversu ítarlegur rökstuðningur skuli vera en í athugasemdum við greinina í frumvarpi því er varð að lögunum segir m.a.: 

Ef ákvörðun er byggð á réttarreglu sem eftirlætur stjórnvaldi mat, er ljóst að tilvísun til slíkrar lagareglu veitir aðila takmarkaða vitneskju um hvaða ástæður leiddu til niðurstöðu máls. Af þeim sökum er nauðsynlegt að gera í slíkum tilvikum grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið.

[...]

Að meginstefnu til á rökstuðningur stjórnvaldsákvarðana að vera stuttur, en þó það greinargóður að búast megi við að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á. Það fer því ávallt eftir atvikum hverju sinni hversu ítarlegur rökstuðningur þarf að vera svo að hann uppfylli framangreint skilyrði. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3303.)

Ákvörðun matsnefndar eignarnámsbóta um hvort fallast eigi á kröfu eignarnámsþola um greiðslu matskostnaðar, eða eftir atvikum annars lögmæts kostnaðar, er matskennd. Við mat sitt hefur nefndin visst svigrúm sem takmarkast þó m.a. við að kostnaðurinn verður að teljast málefnalegur og hæfilegur. Við matið getur nefndinni m.a. borið að líta til málsástæðna eignarnámsþola í viðkomandi máli, s.s. viðvíkjandi umfangi eignarnáms, og taka afstöðu til þess hvort tengsl við rekstur matsmálsins fyrir nefndinni séu með þeim hætti að fallast beri á kröfu um greiðslu kostnaðar vegna þess að einhverju leyti eða öllu.

Sem fyrr greinir var það niðurstaða matsnefndar eignarnámsbóta að kostnaður A ehf., vegna vinnu lögmanns í tengslum við stjórnsýslukæru félagsins á ákvörðun Vegagerðarinnar um eignarnám, teldist ekki til kostnaðar við rekstur matsmáls samkvæmt lögum nr. 11/1973, svo sem áskilið væri í 11. gr. þeirra. Verða þær forsendur vart skildar með öðrum hætti en að kostnaður eignarnámsþola, vegna stjórnsýslukæru um gildi eignarnáms, verði ekki felldur undir lokamálslið 11. gr. laganna. Af skýringum nefndarinnar verður þó ekki annað ráðið en að það sé afstaða hennar að ekki sé útilokað að slíkur kostnaður kunni að vera felldur undir undir ákvæðið í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í fyrrgreindu áliti umboðsmanns í máli nr. 3541/2002. Það sé hins vegar ekki sjálfgefið heldur þurfi að meta það hverju sinni. Þannig hafi það verið afstaða nefndarinnar að atvik í máli A ehf. gæfu ekki tilefni til að umræddur kostnaður skyldi felldur þar undir.

Af hálfu matsnefndarinnar hefur því hins vegar ekki verið skýrlega svarað, þótt þess hafi ítrekað verið óskað, hvaða sjónarmið hafi legið niðurstöðu hennar að þessu leyti til grundvallar. Hefur nefndin í þessu sambandi vísað til þess að hún hafi einkum horft til þess að fallist hafi verið á að lagaheimild væri til eignarnámsins og aðstaðan því hvorki sú að engin lagaheimild væri fyrir hendi né bersýnilegir annmarkar á henni. Þá hafi aðstæður í máli A ehf. verið ólíkar þeim sem á reyndi í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 2/2002 sem fjallað hefði verið um í áliti umboðsmanns nr. 3541/2002.

Af þessu tilefni tek ég fram að matsnefnd eignarnámsbóta hefur ákveðnu hlutverki að gegna við að staðreyna hvort lagaheimild sé til eignarnáms, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973. Í lögskýringargögnum er þó gengið út frá því að nefndinni sé óskylt að taka fyrir beiðni um eignarnámsmat telji hún hana skorta lagaheimild. Hefur matsnefndin jafnframt vísað til þess að eigi eignarnám sér ekki lagastoð sé mál ekki tekið til efnislegrar umfjöllunar heldur vísað frá. Fæ ég því ekki séð að það eitt að nefndin telji að lagaheimild sé til eignarnáms eigi að leiða til þess að kostnaður eignarnámsþola af hagsmunagæslu á fyrri stigum máls verði ekki felldur undir lokamálslið 11. gr. laga nr. 11/1973, eins og hann verður réttilega skýrður, enda leiðir öndverð niðurstaða nefndarinnar til þess að mál hlýtur ekki efnismeðferð. Þá athugast að það var úrskurður nefndarinnar frá 7. júní 2002 í máli nr. 4/2000 sem lá til grundvallar fyrrgreindu áliti umboðsmanns, en ekki úrskurður hennar í máli nr. 2/2002, sem nefndin hefur í þessu sambandi vísað til.  

Að öðru leyti er að mínum dómi óljóst hvaða sjónarmið lágu niðurstöðu nefndarinnar í máli A ehf. til grundvallar enda er hvergi nánar vikið að þeim í forsendum úrskurðar hennar. Þá hafa skýringar nefndarinnar í reynd ekki varpað frekara ljósi á þetta atriði. Í því sambandi tek ég fram að ég get ekki fallist á þá afstöðu nefndarinnar að það eitt að tiltaka að téður kostnaður A ehf. yrði ekki talinn til kostnaðar við rekstur matsmáls samkvæmt lögum nr. 11/1973 „eins og hér háttar til“ hafi getað fullnægt kröfum laga að þessu leyti. Hef ég þá einnig í huga það hlutverk sem nefndin hefur við að tryggja eignarnámsþola þá réttarvernd sem leiðir af grunnreglu 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og þær kröfur til skýrleika rökstuðnings sem af því leiða.

Samkvæmt framangreindu get ég ekki séð að nefndin hafi fært fram fullnægjandi rök fyrir þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við mat hennar á því hvort eignarnema yrði á grundvelli 11. gr. laga nr. 11/1973 gert að greiða A ehf. þann kostnað sem félagið stofnaði til við stjórnsýslukæru þess og þá hvort sá kostnaður teldist málefnalegur og hæfilegur. Er það því niðurstaða mín að rökstuðningur nefndarinnar í máli A ehf. hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við kröfur 22. gr. stjórnsýslulaga. 

  

5 Meinbugir á lögum

Sem fyrr segir er í 3. málslið 11. gr. laga nr. 11/1973 mælt fyrir um að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn. Athugun mín á máli A ehf. varpar að mínu mati ljósi á að nokkurs óskýrleika kunni að gæta í lögum nr. 11/1973 um rétt eignarnámsþola til að þess að fá bættan þann heildarkostnað sem hann kann að verða fyrir við eignarnám. Því kunni að ríkja óvissa um hvort og í hversu ríkum mæli lögin tryggi eignarnámsþola í reynd þá réttarvernd sem leiðir af grunnreglu 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Í umfjöllun fræðimanna hefur verið bent á að 11. gr. laga nr. 11/1973 taki í engu mið af því að í dag þurfi framkvæmdir sem krefjast eignarnáms að sæta ýmiss konar lögbundnum undirbúningi og ákvarðanatöku að frátaldri eignarnámsákvörðuninni sjálfri. Lög nr. 11/1973 séu þannig til marks um viðhorf á þeim tíma þegar þau voru sett sem hafi verið 20 árum fyrir setningu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Taki fyrrgreindu lögin í engu mið af þeim grundvelli sem stjórnsýslulög hafi markað allri stjórnsýsluframkvæmd, þ.m.t. um stjórnvaldsákvörðun sem ófrávíkjanlegum grundvelli eignarnáms í framkvæmd stjórnvalda. Réttarstaða eignarnámsþola í tengslum við þann kostnað sem hann kunni að standa frammi fyrir vegna hagsmunagæslu í aðdraganda og við töku ákvörðunar um eignarnám sé óskýr og óljóst sé, að óbreyttum lögum, hvort réttur eignarnámsþola sé raunverulega varinn í samræmi við fyrirmæli 72. gr. stjórnarskrárinnar (sjá til hliðsjónar Ásgerður Ragnarsdóttir og Karl Axelsson: Eignarnám. Reykjavík 2021, bls. 7 og 182-187).

Samkvæmt framangreindu og með vísan til 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tel ég rétt að vekja athygli Alþingis og dómsmálaráðherra á þeim óskýrleika sem fyrir hendi er um rétt eignarnámsþola til að fá þann kostnað bættan, sem hann kann að þurfa að leggja út fyrir vegna ákvörðunar um eignarnám og aðgerða í aðdraganda þess. Nánar tiltekið tel ég ástæðu til að tekið verði til skoðunar hvort sú réttarvernd sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar um fullt verð fyrir eign, sem tekin hefur verið eignarnámi, sé tryggð í lögum nr. 11/1973 með fullnægjandi hætti. Vek ég í því sambandi athygli á að matsnefnd eignarnámsbóta hefur tekið undir sjónarmið í þessa veru. Ég tek þó fram að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til þess með hvaða nánari hætti eigi að haga hugsanlegum úrbótum á gildandi reglum.

        

V Niðurstaða

Það er álit mitt að rökstuðningur matsnefndar eignarnámsbóta í máli A ehf. víðvíkjandi kröfu félagsins um greiðslu kostnaðar af rekstri matsmálsins hafi ekki verið í samræmi við kröfur 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ég beini því til matsnefndar eignarnámsbóta að taka mál A ehf. til meðferðar að nýju, komi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og leysi þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hafa verið í álitinu. Jafnframt beini ég því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í álitinu.

Þá tel ég rétt að vekja athygli Alþingis og dómsmálaráðherra, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, á þeim óskýrleika sem fyrir hendi er um rétt eignarnámsþola til að fá bættan þann kostnað sem hann kann að þurfa að leggja út fyrir vegna eignarnáms og þeirra aðgerða sem til koma í aðdraganda þess.