Gjafsókn. Lagaskilyrði fyrir gjafsókn. Synjun gjafsóknar. Mannréttindi. Aðgangur að dómstólum. Meinbugir á almennum stjórnvaldsfyrirmælum.

(Mál nr. 12284/2023)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir synjun dómsmálaráðuneytisins við umsókn hennar um gjafsókn fyrir Landsrétti. Var niðurstaða ráðuneytisins reist á umsögn gjafsóknarnefndar þar sem ekki var mælt með gjafsókn á þeim grundvelli að ekki væri nægilegt tilefni til áfrýjunar á dómi héraðsdóms í skilningi laga um meðferð einkamála. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort ákvörðun ráðuneytisins hefði verið reist á fullnægjandi lagagrundvelli.

Umboðsmaður vísaði til þess að af umsögn gjafsóknarnefndar yrðu takmarkaðar ályktanir dregnar um hvaða sjónarmið hefðu legið niðurstöðu hennar til grundvallar að því frátöldu að héraðsdómur hefði verið fjölskipaður og skipaður sérfróðum meðdómsmanni. Þá hefðu skýringar ráðuneytisins á því hvaða forsendur og rök hefðu legið til grundvallar mati nefndarinnar alfarið lotið að því að gera grein fyrir hlutverki sérfróðra meðdómsmanna þótt þar hefði einnig verið tekið fram að litið hefði verið til þess að tveir embættisdómarar hefðu jafnframt dæmt í málinu. Væri það að mati ráðuneytisins almennt til þess fallið að draga úr líkum á því að dómi héraðsdóms yrði snúið við í Landsrétti.

Umboðsmaður tók undir með ráðuneytinu að heimildum laga til að kalla til sérfróða meðdómsmenn væri ætlað að stuðla að réttri niðurstöðu í málum þar sem reyndi á þekkingu sérfræðilegs eðlis. Hins vegar gæti hann ekki fallist á að af því leiddi að almennt væri minna tilefni til málskots en ella þegar sérfóður meðdómsmaður hefði tekið þátt í meðferð máls í héraði. Þvert á móti kynni sú staða fremur að gefa gjafsóknarnefnd, sem einungis væri skipuð lögfræðingum, tilefni til að gæta varfærni við mat á því hvort tilefni væri til áfrýjunar máls með vísan til mats héraðsdóms á sérfræðilegum atriðum.

Í þessu sambandi taldi umboðsmaður það einnig hafa þýðingu að þótt gjafsóknarnefnd væri samkvæmt reglugerð heimilt að líta til þess hvort um væri að ræða mál sem dæmt hefði verið af sérfróðum meðdómsmanni í héraði bæri að hafa í huga að við setningu hennar hefði ekki verið fyrir hendi heimild til að kalla til sérfróða meðdómsmenn á áfrýjunarstigi. Við mat á því hvort og þá hvaða vægi gjafsóknarnefnd væri heimilt að ljá því sjónarmiði yrði að horfa til þess að samkvæmt lögum um meðferð einkamála, eins og þeim hefði verið breytt, væri nú heimilt að kveðja til sérfróðan meðdómsmann til setu í Landsrétti auk þess sem gerðar hefðu verið veigamiklar breytingar á sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi með það fyrir augum að tryggja fulla endurskoðun Landsréttar á öllum þáttum dómsniðurstöðu í héraði, þ. á m. sönnunarmati. Við skýringu reglugerðarinnar yrði því að hafa markmið þeirra lagabreytinga í huga þannig að við heildstætt mat á því hvort nokkrar líkur væru á því að mál félli á annan veg í Landsrétti en í héraði væri því ekki ljáð afgerandi vægi hvort sérfróður meðdómsmaður hefði tekið þátt í meðferð máls í héraði.

Umboðsmaður vísaði til þess að af umsögn gjafsóknarnefndar og skýringum ráðuneytisins yrði ekki annað ráðið en að niðurstaða nefndarinnar hefði fyrst og fremst byggst á því að fyrir hefði legið dómur fjölskipaðs héraðsdóms sem skipaður hefði verið sérfróðum meðdómsmanni. Var það álit umboðsmanns að hann fengi ekki séð að lagt hefði verið mat á gjafsóknarbeiðni A með tilliti til allra þeirra sjónarmiða sem máli skiptu við úrlausn á því hvort nægilegt tilefni væri til áfrýjunar héraðsdóms. Var það því niðurstaða umboðsmanns að ákvörðun ráðuneytisins um að synja beiðni hennar um gjafsókn hefði ekki verið reist á fullnægjandi lagagrundvelli. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka mál A upp að nýju, kæmi fram ósk um það frá henni, og að leitaðist þá við að rétta hlut hennar í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu. Jafnframt beindi hann því til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem þar hefðu komið fram.

Að lokum benti umboðsmaður dómsmálaráðuneytinu á að taka til athugunar hvort téð ákvæði reglugerðarinnar væri í nægjanlega góðu samræmi við núverandi réttarstöðu og þá sérstaklega þau markmið sem stefnt hefði verið að með breytingum á lögum um meðferð einkamála.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 28. febrúar 2024. 

  

  

I Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 6. júlí 2023 leitaði B lögmaður til umboðsmanns Alþingis, fyrir hönd A, og kvartaði yfir synjun dómsmálaráðuneytisins 9. júní 2023 við umsókn hennar um gjafsókn fyrir Landsrétti. Var niðurstaða ráðuneytisins reist á umsögn gjafsóknarnefndar, þar sem ekki var mælt með gjafsókn á þeim grundvelli að ekki væri nægilegt tilefni til áfrýjunar á dómi héraðsdóms í skilningi 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, með síðari breytingum.

Athugun umboðsmanns hefur beinst að því hvort ákvörðun ráðuneytisins hafi verið reist á fullnægjandi lagagrundvelli.

  

II Málavextir

Samkvæmt gögnum málsins sótti A um gjafsókn fyrir Landsrétti 3. maí 2023 vegna áfrýjunar á dómi Héraðsdóms Suðurlands [dags] í máli nr. [...], en hún hafði notið gjafsóknar fyrir héraðsdómi í tilefni af málshöfðun barnsföður hennar. Með dómi héraðsdóms var kveðið á um að lögheimili dóttur þeirra yrði hjá föður auk þess sem kveðið var á um inntak umgengnisréttar hennar við A sem og meðlag. Í gjafsóknarbeiðninni kom fram að fjárhags- og félagslegar aðstæður A væru óbreyttar frá því að gjafsóknarleyfi hefði verið veitt fyrir héraðsdómi. Kom þar einnig fram að vegna hagsmuna dóttur hennar væri óhjákvæmilegt að áfrýja dómi héraðsdóms. Var í þeim efnum vísað til niðurstöðu matsgerðar dómkvadds matsmanns og skýrs og eindregins vilja dóttur hennar um að eiga lögheimili hjá móður. Í niðurlagi gjafsóknarbeiðninnar var tekið fram að A hefði upphaflega gert ráð fyrir því að standa sjálf straum af kostnaði við málareksturinn með stuðningi annarra. Þar sem það hefði ekki gengið eftir væri nú sótt um gjafsóknarleyfi en beðist væri velvirðingar á því hve seint erindið væri lagt fram. Var þess óskað að umsóknin hlyti flýtimeðferð þar sem gera mætti ráð fyrir að aðalmeðferð fyrir Landsrétti færi fram að viku liðinni.

Dómur Landsréttar var kveðinn upp [dags] í máli nr. [...]. Við aðalmeðferð málsins gáfu A, barnsfaðir hennar og dómkvaddur matsmaður viðbótarskýrslu auk þess sem dómendur áttu samtal við dótturina. Með nánar greindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var hann staðfestur, en málskostnaður fyrir Landsrétti látinn niður falla.

Með bréfi 9. júní 2023 tilkynnti dómsmálaráðuneytið um að ekki væri heimilt að verða við beiðni A um gjafsókn þar sem gjafsóknarnefnd hefði ekki mælt með að gjafsókn yrði veitt. Í bréfi ráðuneytisins var umsögn gjafsóknarnefndar rakin en þar sagði m.a. eftirfarandi: 

Gjafsóknarheimildir 126. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála fela í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að menn kosti sjálfir dómsmál sín. Samkvæmt 1. mgr. 126. gr. laganna verður gjafsókn því aðeins veitt gefi málstaður umsækjanda nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar. Þá er það skilyrði samkvæmt a-lið 1. mgr. að eðlilegt megi teljast að gjafsókn sé kostuð af almannafé. Önnur skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar koma ekki til skoðunar nema nokkuð ljóst sé að umsækjandi uppfylli umrædd grundvallarskilyrði.

Umsækjandi hefur áfrýjað til Landsréttar dómi Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. [...] með kröfu um að lögheimili dóttur hennar verði hjá henni, en héraðsdómur hafi kveðið á um að lögheimili stúlkunnar yrði framvegis hjá föður. Umsækjandi telur það stúlkunni fyrir bestu að lögheimili hennar verði áfram hjá umsækjanda, enda hafi stúlkan lýst eindregið vilja sínum til þess að búa hjá umsækjanda auk þess sem umsækjandi kveður að hagsmunir stúlkunnar séu ótryggir hjá föður, með vísan til niðurstöðu matsgerðar.

Umsækjandi hefur fengið gjafsókn til að láta reyna á rétt sinn fyrir dómi. Ekki er sjálfgefið að gjafsókn verði veitt fyrir Landsrétti enda þótt hún hafi fengist fyrir héraðsdómi. Sönnunarfærsla hefur farið fram fyrir héraðsdómi og fyrir liggur dómur fjölskipaðs héraðsdóms sem skipaður var sérfróðum meðdómsmanni. Samkvæmt framanröktu og að virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina, er það mat gjafsóknarnefndar að ekki sé nægilegt tilefni til áfrýjunar af hálfu umsækjanda í skilningi ofangreinds ákvæðis laga um meðferð einkamála þannig að uppfyllt séu skilyrði til gjafsóknar. Er því ekki mælt með gjafsókn.

   

III Samskipti umboðsmanns og dómsmálaráðuneytisins

Með bréfi til dómsmálaráðuneytisins 4. september 2023 var þess m.a. óskað að ráðuneytið, eftir atvikum með atbeina gjafsóknarnefndar, skýrði nánar hvaða forsendur og rök hefðu legið til grundvallar því mati að málstaður A hefði ekki gefið nægilegt tilefni til áfrýjunar á dómi héraðsdóms í skilningi 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, með síðari breytingum.

Í svarbréfi ráðuneytisins 27. október 2023 kom fram að megintilgangur þess að kveðja til sérfróðan meðdómsmann væri sá að veita dómara aðgang að sérfræðiþekkingu til að leysa úr ágreiningsefnum er vörðuðu staðreyndir máls og dómari gæti ekki leyst úr á grundvelli eigin lögfræðiþekkingar. Í þessu tilliti hefði sérfróður meðdómsmaður m.a. það hlutverk að fara yfir og leggja gagnrýnið mat á matsgerðir sem lagðar væru fram í dómi og fjalla um atriði á sínu sérsviði. Það að kvaddur væri til sérfróður meðdómsmaður yki þannig almennt líkur á því að mál væri dæmt á réttum grundvelli. Í því sambandi væri einnig rétt að líta til þess að kvaðning sérfróðs meðdómsmanns hefði jafnframt í för með sér að þrír dómarar dæmdu mál í héraði en ekki einn. Í því tilviki sem hér um ræddi hefðu þannig tveir embættisdómarar auk hins sérfróða meðdómsmanns skipað héraðsdóm.

Í bréfi ráðuneytisins sagði jafnframt að af 6. gr. reglugerðar nr. 45/2008, um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar, leiddi  að við mat á tilefni til gjafsóknar fyrir æðra dómstigi bæri að hafa hliðsjón af þeim atriðum sem nefnd væru í 4. gr. a. reglugerðarinnar auk dómsniðurstöðu og ástæðum áfrýjunar. Þá væri heimilt að líta til þess hvort um væri að ræða mál sem dæmt hefði verið af sérfróðum meðdómsmönnum eða hvort áfrýjunargrundvöllur máls lyti aðallega að sönnunarþáttum þess. Þýðing þess að líta mætti til þess hvort mál hefði verið dæmt af sérfróðum meðdómsmönnum fælist samkvæmt framangreindu í því að auknar líkur væru á því að mál hefði verið dæmt á réttum grundvelli í héraði og væri þá einnig litið til þess að tveir embættisdómarar dæmdu í málinu auk hins sérfróða meðdómsmanns. Væri það almennt talið til þess fallið að draga úr líkum á því að dómi héraðsdóms yrði snúið í Landsrétti sem hefði þýðingu við mat á tilefni áfrýjunar.

     

IV Álit umboðsmanns Alþingis

1 Lagagrundvöllur gjafsóknar

Samkvæmt 1. mgr. 125. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, eins og þeim hefur síðar verið breytt, skal ráðherra skipa nefnd þriggja lögfræðinga, gjafsóknarnefnd, til fjögurra ára í senn til að veita umsögn um umsóknir um gjafsókn. Í 4. mgr. sömu greinar segir að ráðherra veiti gjafsókn eftir umsókn aðila og verður hún því aðeins veitt að gjafsóknarnefnd mæli með því.

Um skilyrði gjafsóknar er fjallað í 1. mgr. 126. gr. laganna. Í upphafi málsgreinarinnar er kveðið á um það almenna skilyrði að gjafsókn verði aðeins veitt gefi málstaður umsækjanda nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar. Að auki þarf annaðhvort að vera fullnægt skilyrðum a- eða b-liðar sömu málsgreinar. Samkvæmt a-lið hennar þarf fjárhag umsækjanda að vera þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, enda megi teljast eðlilegt að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé. Í b-lið málsgreinarinnar er mælt fyrir um það skilyrði að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.

Upphafsskilyrði 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 um nægilegt tilefni eru efnislega samhljóða ákvæðinu eins og það hljóðaði við gildistöku laganna 1. júlí 1992. Með 2. gr. laga nr. 7/2005 voru gerðar breytingar á ákvæðum laganna sem þrengdu skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar. Í breytingunum fólst m.a. að heimild þágildandi b-liðar 1. mgr. 126. gr. laganna fyrir veitingu gjafsóknar, í þeim tilvikum sem úrlausn máls hafði verulega almenna þýðingu eða varðaði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda, var felld á brott. Þá var það viðbótarskilyrði sett fyrir veitingu gjafsóknar að eðlilegt mætti teljast að öðru leyti að gjafsókn væri kostuð af almannafé.

Í almennum athugasemdum við frumvarp til laga nr. 7/2005 kom m.a. fram að það væri grundvallarskilyrði samkvæmt gildandi lögum að nægilegt tilefni væri til málsóknar. Til viðbótar þessu skilyrði væri lagt til að metið yrði hvort eðlilegt væri að gjafsókn væri kostuð af almannafé. Það gætu komið upp tilvik þar sem ekki væri hægt að fullyrða að málsókn væri tilefnislaus, en óeðlilegt væri að ríkissjóður kostaði málsóknina, svo sem nánar væri skýrt í 2. gr. frumvarpsins (Alþt. 2004-2005, A-deild, bls. 880). Í athugasemdum við þá grein frumvarpsins sagði m.a. eftirfarandi: 

Mat á tilefni getur verið erfitt. Í sumum tilfellum getur verið óeðlilegt að veita einstaklingi gjafsókn í máli gegn öðrum jafnvel þótt fjárhagsstaða hans gefi tilefni til þess. Má sem dæmi nefna ef málstilefnið er hæpið og engar eða mjög litlar líkur eru á að kröfur umsækjanda verði dæmdar honum í hag, málshöfðun er ónauðsynleg eða ótímabær, óverulegir hagsmunir eru í húfi, mál varðar viðskipti er tengjast verulega atvinnustarfsemi einstaklings og viðkomandi einstaklingur hefur með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi komið sér í þá aðstöðu sem málsókninni er ætlað að bæta úr eða mál er þess eðlis að óeðlilegt sé að veita gjafsókn, svo sem ef mál er milli nákominna og málsefnið er þess eðlis að ekki sé eðlilegt að reka það fyrir dómstólum. Gert er ráð fyrir að mat á tilefni verði áfram í höndum gjafsóknarnefndar og þá eins þegar deilt er um lagatúlkun í væntanlegu dómsmáli (Alþt. 2004-2005, A-deild, bls. 881).

Með 7. gr. laga nr. 72/2012 voru ákvæði 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 færð í núverandi horf og fólu þær breytingar í sér rýmkun á þágildandi reglum um veitingu gjafsóknar. Er þar nú einnig gerður skýr greinarmunur á skilyrðunum um annars vegar nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og hins vegar að eðlilegt megi teljast að gjafsókn sé kostuð af almannafé. Kemur síðarnefnda skilyrðið nú einungis til skoðunar við mat á því hvort veita eigi gjafsókn á grundvelli a-liðar 1. mgr. 126. gr. laganna.

Samkvæmt 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 getur ráðherra í reglugerð kveðið nánar á um skilyrði gjafsóknar, þ.m.t. hvenær nægilegt tilefni sé til veitingar gjafsóknar. Á þeim grundvelli hefur ráðherra sett reglugerð nr. 45/2008, um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar. Í 4. gr. a reglugerðarinnar er fjallað um þau meginsjónarmið sem hafa skal hliðsjón af við mat á því hvort nægilegt tilefni sé til málsóknar eða málsvarnar. Samkvæmt 2. tölulið greinarinnar skal hafa hliðsjón af því hvort málsefnið sé þannig að nokkrar líkur séu á því að málið vinnist fyrir dómi. Er þar m.a. heimilt að horfa til þess hvort dómstólar hafi áður leyst úr sambærilegu ágreiningsefni. Samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar, um mat á tilefni til gjafsóknar fyrir æðra dómstigi, ber jafnframt að hafa hliðsjón af dómsniðurstöðu og ástæðum áfrýjunar. Þá er heimilt að líta til þess hvort um sé að ræða mál sem dæmt hefur verið af sérfróðum meðdómsmönnum eða hvort áfrýjunargrundvöllur máls lúti aðallega að sönnunarþáttum þess.

   

2 Heimildir til að kveðja til sérfróða meðdómsmenn og endurskoðun á sönnunarmati á áfrýjunarstigi

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, eins og henni var breytt með 1. gr. laga 49/2016, skipar einn dómari dóm í hverju máli í héraði nema kvaddir verði til meðdómsmenn samkvæmt 2. eða 3. mgr. greinarinnar. Samkvæmt 2. mgr. hennar getur annars vegar dómari, ef deilt er um staðreyndir sem bornar eru fram sem málsástæður og dómari telur þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr, kvatt til einn meðdómsmann sem hefur slíka kunnáttu. Ákveður dómstjóri þá hvaða héraðsdómari skipi dóm í málinu með dómsformanni og hinum sérfróða meðdómsmanni. Þó er dómara heimilt að kveðja til tvo meðdómsmenn ef hann telur þurfa sérkunnáttu í dómi á fleiri en einu sviði. Hins vegar getur dómstjóri, ef mál er umfangsmikið eða sakarefni mjög mikilvægt frá almennu sjónarmiði, ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu eða tveir héraðsdómarar með einum sérfróðum meðdómsmanni, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Í þeim breytingum sem gerðar voru með lögum nr. 49/2016 fólst samkvæmt þessu að aðeins einn sérfróður meðdómsmaður er nú að jafnaði kallaður til setu í dómi þegar reynir á sérkunnáttu í dómsmáli í héraði en ekki tveir líkt og áður.

Með 2. gr. laga nr. 49/2016 var nýrri grein bætt við lög nr. 91/1991, 2. gr. a., sem fjallar um sérfróða meðdómsmenn fyrir Landsrétti. Þar segir að hafi sérfróður meðdómsmaður tekið þátt í meðferð máls fyrir héraðsdómi sem fengið hafi efnislega úrlausn þar og enn sé deilt um staðreyndir sem bornar séu fram sem málsástæður fyrir Landsrétti, og forseti telur þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr, geti hann að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingu dómsformanns í málinu kvatt til einn meðdómsmann sem hafi slíka sérkunnáttu og skipar hann þá dóm í máli með tveimur dómurum við Landsrétt. Telji forseti þörf á sérkunnáttu á fleiri en einu sviði við úrlausn máls og ekki er völ á meðdómsmanni með sérþekkingu á báðum eða öllum sviðum getur hann kallað til tvo sérfróða meðdómsmenn til að taka þátt í meðferð þess með þremur dómurum við Landsrétt. Jafnframt getur hann ákveðið, ef mál er umfangsmikið eða sakarefni mjög mikilvægt frá almennu sjónarmiði, að þrír dómarar við Landsrétt skipi dóm með tveimur sérfróðum meðdómsmönnum.

Fyrir gildistöku laga nr. 49/2016, sem tóku gildi samhliða stofnun Landsréttar með lögum nr. 50/2016, um dómstóla, var ekki fyrir hendi heimild til að kalla til sérfróða meðdómsmenn á áfrýjunarstigi. Þótt ekki væri útilokað að niðurstöður héraðsdóms, sem skipaður hafði verið sérfróðum meðdómsmönnum, væri snúið við í Hæstarétti bar framkvæmd engu að síður með sér að slík tilvik heyrðu til undantekninga. Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi því er varð að fyrrnefndu lögunum var vísað til þess að fræðimenn hér á landi virtust almennt sammála um að reynslan af fyrirkomulagi sérfróðra meðdómsmanna í héraði væri almennt góð. Hins vegar hefði ekki verið fyrir hendi heimild til að kalla til sérfróða meðdómsmenn til setu í Hæstarétti þótt rétturinn gæti þurft að endurskoða þætti í niðurstöðu héraðsdóms þar sem reynt hefði á sérþekkingu og sérfróðir meðdómsmenn setið þar í dómi. Þá var tekið fram að tilkoma sérfróðra meðdómsmanna á millidómstigi samræmdist vel því markmiði með stofnun þess að unnt yrði að fá endurskoðaða svo trúverðugt væri alla þætti dómsniðurstöðu í héraði (sjá þskj. 1018 á 145. löggjafarþingi 2015-2016, bls. 39).

Með lögum nr. 49/2016 voru jafnframt gerðar breytingar á ákvæðum laga nr. 91/1991 viðvíkjandi sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi, en munnlegar skýrslur fóru almennt ekki fram í einkamálum fyrir Hæstarétti samkvæmt eldri lögum. Í breytingunum fólust m.a. þau nýmæli að allar skýrslutökur í héraði eru nú teknar upp í hljóði og mynd og er unnt að spila þær að hluta eða í heild við aðalmeðferð fyrir Landsrétti, sbr. 3. mgr. 11. gr. og 1. mgr. 162. gr. laga nr. 91/1991. Þá er aðilum heimilt að leiða ný vitni fyrir Landsrétt og taka viðbótarskýrslur af aðilum og vitnum sem gáfu skýrslur fyrir héraðsdómi enda telji Landsréttur það geta haft þýðingu fyrir úrlausn málsins.

Í athugasemdum við 20. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 49/2016 sagði m.a. að meginreglan um milliliðalausa sönnunarfærslu gerði ráð fyrir að dómur yrði einungis byggður á þeim gögnum sem færð væru fyrir dómara. Sú meginregla væri til þess fallin að takmarka möguleika áfrýjunardómstóls á endurskoðun sönnunarmats héraðsdóms að því leyti sem það byggðist á munnlegum framburði ef munnleg sönnunarfærsla færi ekki fram á áfrýjunarstigi. Var vísað til þess að í frumvarpinu væri gert ráð fyrir að Landsréttur gæti endurskoðað alla þætti sönnunarmats auk þess sem tekið var fram að með þessu nýmæli væri stigið veigamikið skref í átt til milliliðalausrar sönnunarfærslu og unnt yrði að reisa endurskoðun á sönnunarmati á mun traustari grunni en samkvæmt gildandi rétti (sjá þskj. 1018 á 145. löggjafarþingi 2015-2016, bls. 43-44).

  

3 Var niðurstaða ráðuneytisins í samræmi við lög?

Með 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 hefur löggjafinn falið gjafsóknarnefnd að líta til ákveðinna sjónarmiða við mat á umsókn um gjafsókn er lúta m.a. að líkum þess að málarekstur muni bera árangur. Þær breytingar sem gerðar voru á skilyrðum fyrir veitingu gjafsóknar með lögum nr. 7/2005 og 72/2012 hafa þannig ekki haggað því almenna skilyrði greinarinnar að nægilegt tilefni þurfi að vera til málshöfðunar eða málsvarnar. Niðurstaða um túlkun málsgreinarinnar, eins og hún hljóðaði fyrir gildistöku framangreindra laga­breytinga, hefur því áfram þýðingu að þessu leyti.

Í framkvæmd umboðsmanns hefur verið talið að skýra verði skilyrðið um nægilegt tilefni með þeim hætti að stefnt sé að því að réttur manna til aðgangs að dómstólum verði raunhæfur og virkur og þá með það í huga að sá réttur sé verndaður af bæði 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur hefur verið með lögum nr. 62/1994, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis 26. júní 2001 í máli nr. 3070/2000 og 31. desember 2001 í máli nr. 3212/2001. Þá verði skilyrðið ekki skilið með þeim hætti að þar sé beinlínis gert ráð fyrir að gjafsóknarnefnd meti heildstætt með sama hætti og dómstóll sönnun fyrir atvikum þess máls sem er tilefni beiðni um gjafsókn og taki afstöðu til tilefnis máls­höfðunar á þeim grundvelli einum, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Aerts gegn Belgíu 30. júlí 1998 í máli nr. 25357/94. Í síðari framkvæmd dómstólsins hefur það þó ekki verið talið brjóta gegn gegn rétti manna til aðgangs að dómstólum að veiting gjafsóknar sé bundin því skilyrði að einhverjar líkur séu á árangari af málarekstri, en meta þurfi gæði gjafsóknarkerfis viðkomandi ríkis hverju sinni, sbr. dóma í máli Del Sol gegn Frakklandi 26. febrúar 2002 í máli nr. 46800/99 og í máli Steel og Morris gegn Bretlandi 15. febrúar 2005 í máli nr. 68416/01.

Á meðal þeirra meginsjónarmiða sem gjafsóknarnefnd ber að hafa til viðmiðunar við mat á því hvort nægilegt tilefni sé til veitingar gjafsóknar er hvort málsefnið sé þannig að nokkrar líkur séu á því að málið vinnist fyrir dómi, sbr. 2. tölulið 4. gr. a. reglugerðar nr. 45/2008. Umboðsmaður hefur almennt lagt til grundvallar að heimildir gjafsóknarnefndar til mats á því hvort nokkrar líkur séu á að mál vinnist fyrir dómi séu að meginstefnu bundnar við mat á því hvort málstaður gjafsóknarbeiðanda sé við fyrstu sýn bersýnilega haldlítill. Hefur umboðsmaður ekki útilokað að stjórnvöld geti litið til þess ef umsækjandi hefur ekki sýnt fram á raunhæfa möguleika til að leggja fram gögn eða leiða vitni sem kunna að hafa áhrif á sönnun atvika sem hafa þýðingu um það hvort málshöfðun geti að lögum skilað þeim árangri sem gjafsóknarbeiðandi vonast eftir. Sé hins vegar fyrir hendi raunverulegur vafi um rétt atvik máls, m.t.t. sönnunargagna og aðstæðna að öðru leyti, verði jafnan að skýra slíkan vafa gjafsóknarbeiðanda í hag, sbr. álit umboðsmanns Alþingis 30. desember 2005 í máli nr. 4371/2005. Ég tel því ekki ástæðu til að gera athugasemdir við að gjafsóknarnefnd geri kröfur til þess að fyrir liggi að fyrirhugaður málarekstur eða áfrýjun gjafsóknarbeiðanda sé í þeim búningi að einhverjar líkur séu á að dómur falli honum í hag og þá að teknu tilliti til þess hvort uppi er raunverulegur vafi um sönnunaratriði, sbr. til hliðsjónar álit setts umboðsmanns Alþingis 26. apríl 2010 í máli nr. 5746/2009. 

Þá leiðir það af 6. gr. reglugerðar nr. 45/2008 að við mat á því hvort nægilegt tilefni sé til áfrýjunar héraðsdóms ber gjafsóknarnefnd að horfa til niðurstöðu dómsins og ástæðna áfrýjunar. Er því ekki sjálfgefið að gjafsóknarbeiðanda verði veitt gjafsókn til áfrýjunar máls þótt hann hafi fengið gjafsóknarleyfi fyrir héraðsdómi. Þá eru að mínum dómi ekki efni til að gera athugasemdir við að því sé ljáð vægi, við mat á því hvort nægilegt tilefni sé til áfrýjunar héraðsdóms, að þar hafi verið tekin rökstudd afstaða til laga- og sönnunaratriða. Hvað sem því líður verður við það mat jafnframt að horfa til þess hvort nokkrar líkur séu á því að málið falli á annan veg á æðra dómstigi miðað við fyrirliggjandi dóm og áfrýjunargrundvöllinn. Þótt við slíkar aðstæður verði að játa gjafsóknarnefnd nokkurt svigrúm til mats ber henni skylda til að taka sjálfstæða afstöðu til hvers og eins máls með forsvaranlegum hætti á grundvelli málefnalegra sjónarmiða.

Í umsögn gjafsóknarnefndar var sem fyrr greinir vísað til þess að sönnunarfærsla hefði farið fram í héraði og fyrir lægi dómur fjölskipaðs héraðsdóms sem skipaður hefði verið sérfróðum meðdómsmanni. Var það niðurstaða nefndarinnar að í ljósi þess, og að virtum þeim gögnum sem lögð hefðu verið fyrir nefndina, væri ekki nægilegt tilefni til áfrýjunar dómsins af hálfu A. Af umsögn nefndarinnar verða takmarkaðar ályktanir dregnar um hvaða sjónarmið lágu þessari niðurstöðu til grundvallar að því frátöldu að héraðsdómur hafi verið fjölskipaður og skipaður sérfróðum meðdómsmanni. Þá hafa skýringar dómsmálaráðuneytisins á því hvaða forsendur og rök hafi legið til grundvallar mati gjafsóknarnefndar alfarið lotið að því að gera grein fyrir hlutverki sérfróðra meðdómsmanna þótt þar sé einnig tekið fram að litið hafi verið til þess að tveir embættisdómarar hafi jafnframt dæmt í málinu. Er þá vísað til þess að almennt sé það til þess fallið draga úr líkum á því að dómi héraðsdóms verði snúið við í Landsrétti.

Líkt og ráðuneytið hefur bent á í skýringum sínum er megintilgangur þess að kveðja til sérfróða meðdómsmenn að veita dómara aðgang að sérfræðiþekkingu til að leysa úr málum þar sem lagaþekking og almenn kunnátta dómara dugir ekki til úrlausnar. Er heimildinni þar með ætlað að stuðla að réttri niðurstöðu í málum þar sem reynir á þekkingu sérfræðilegs eðlis. Ég get hins vegar ekki fallist á að af þessu leiði að almennt sé minna tilefni til málskots en ella þegar sérfróður meðdómsmaður hefur tekið þátt í meðferð máls í héraði. Þvert á móti tel ég að þessi staða kunni fremur að gefa gjafsóknarnefnd, sem einungis er skipuð lögfræðingum, tilefni til að gæta varfærni við mat á því hvort tilefni er til áfrýjunar máls með vísan til mats héraðsdóms á sérfræðilegum atriðum.

Hér hefur einnig þýðingu að þótt gjafsóknarnefnd sé samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 45/2008 heimilt að líta til þess hvort um sé að ræða mál sem dæmt hafi verið af sérfróðum meðdómsmönnum í héraði ber að hafa í huga að við setningu reglugerðarinnar var ekki fyrir hendi heimild til að kalla til slíka meðdómsmenn á áfrýjunarstigi. Við mat á því hvort og þá hvaða vægi gjafsóknarnefnd er heimilt að ljá þessu sjónarmiði verður því að horfa til þeirra breytinga sem gerðar voru á lögum um meðferð einkamála með fyrrgreindum lögum nr. 49/2016 og þeirra markmiða sem lágu þeirri lagasetningu til grundvallar. Er nú samkvæmt 2. gr. a. laga nr. 91/1991 heimilt að kveðja til sérfróðan meðdómsmann til setu í Landsrétti auk þess sem gerðar hafa verið veigamiklar breytingar á sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi með það að fyrir augum að tryggja fulla endurskoðun Landsréttar á öllum þáttum dómsniðurstöðu í héraði, þ. á m. sönnunarmati. Tel ég því að við nánari skýringu 6. gr. reglugerðarinnar verði að hafa breytt markmið laganna í huga. Hef ég þá í huga að við heildstætt mat á því hvort nokkrar líkur séu á því að mál falli á annan veg í Landsrétti en í héraði sé því ekki ljáð afgerandi vægi hvort sérfróður meðdómsmaður hafi tekið þátt í meðferð máls í héraði. Þótt hér geti þ.a.l. verið um að ræða atriði sem þýðingu hefur að þessu leyti getur það ekki leyst gjafsóknarnefnd undan skyldu til þess að leggja heildstætt mat á málsefnið.

Af umsögn gjafsóknarnefndar og skýringum dómsmálaráðuneytisins verður ekki annað ráðið en að niðurstaða nefndarinnar hafi fyrst og fremst byggst á því að fyrir hafi legið dómur fjölskipaðs héraðsdóms sem skipaður hafi verið sérfróðum meðdómsmanni. Verður þá jafnframt að leggja til grundvallar að þetta hafi verið talið draga úr líkum á því að niðurstöðu héraðsdóms yrði hnekkt fyrir Landsrétti. Með vísan til þess sem áður greinir get ég því ekki séð að lagt hafi verið mat á gjafsóknarbeiðni A m.t.t allra þeirra sjónarmiða sem máli skiptu við úrlausn á því hvort nægilegt tilnefni væri til áfrýjunar héraðsdóms. Er það þ.a.l. niðurstaða mín að ákvörðun ráðuneytisins um að synja beiðni hennar um gjafsókn hafi ekki verið reist á fullnægjandi lagagrundvelli.

Samkvæmt því sem áður greinir tel ég í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að téð ákvæði 2. málsliðar 6. gr. reglugerðar nr. 45/2008 sé skýrt til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru á lögum um meðferð einkamála með lögum nr. 49/2016 svo og markmið þeirra. Engu að síður er ljóst að ákvæðið á rætur sínar í eldra réttarástandi. Líkt og atvik málsins bera með sér kann framsetning þess þ.a.l. að vera til þess fallin að valda misskilningi um það heildstæða mat sem þarf að fara fram á gjafsóknarbeiðni án tillits til þess hvort mál hafi verið dæmt af sérfróðum meðdómsmanni í héraði eða ekki. Ég beini því þeirri ábendingu til dómsmálaráðuneytisins, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að taka til athugunar hvort og þá að hvaða marki þetta ákvæði reglugerðarinnar sé í nægjanlega góðu samræmi við núverandi réttarstöðu og þá sérstaklega þau markmið sem stefnt var að með setningu laga nr. 49/2016.

      

V Niðurstaða

Það er niðurstaða mín að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 9. júní 2023 um að synja A um leyfi til gjafsóknar fyrir Landsrétti hafi ekki byggst á fullnægjandi lagagrundvelli. Er sú niðurstaða einkum á því reist að í umsögn gjafsóknarnefndar, sem lögð var til grundvallar ákvörðuninni, hafi ekki verið lagt mat á öll þau sjónarmið sem máli skiptu við úrlausn á því hvort nægilegt tilefni væri til áfrýjunar héraðsdóms í máli hennar.

Ég beini því til ráðuneytisins að taka mál mál A upp að nýju, komi fram ósk um það frá henni, og leitast þá við að rétta hlut hennar í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í álitinu. Hef ég þá í huga að þess eru dæmi að ráðuneytið hafi rétt hlut umsækjanda um gjafsókn eftir að umsókn hafði verið hafnað og dómur gengið í málinu. Í því sambandi tek ég þó fram að með áliti mínu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvort fallast eigi á beiðni A um gjafsókn. Að lokum eru það tilmæli mín til dómsmálaráðuneytisins að það taki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin hafa verið í álitinu.