Mannanöfn.

(Mál nr. 12515/2023)

Kvartað var yfir verklagi mannanafnanefndar og Þjóðskrár Íslands. Óskað hafði verið eftir að tiltekið nafn yrði tekið til umfjöllunar hjá nefndinni en í svari Þjóðskrár var bent á að þar sem hvorki væri um að ræða val á nafni barns viðkomandi né verið að sækja um nafnabreytingu þá yrði erindið ekki tekið til úrskurðar.  

Þar sem erindið hafði ekki verið borið undir dómsmálaráðuneytið voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 5. janúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 15. desember sl. yfir verklagi mannanafnanefndar og Þjóðskrár Íslands. Samkvæmt kvörtuninni óskuðuð þér eftir að tiltekið nafn, sem ekki er í mannanafnaskrá, yrði tekið til umfjöllunar hjá mannanafnanefnd. Í svari frá Þjóðskrá Íslands var yður leiðbeint um að þar sem hvorki væri um að ræða val á nafni barns yðar né að þér væruð að sækja um nafnabreytingu tæki mannanafnanefnd erindið ekki til úrskurðar. Í kvörtun yðar kemur fram að sú framkvæmd byggi á vinnureglum sem nefndin hefur stuðst við frá því í ársbyrjun 2022. Verður af kvörtuninni ráðið að þér teljið framkvæmd nefndarinnar að þessu leyti ekki í samræmi við 22. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn, en þar er mælt fyrir um verkefni nefndarinnar.

Í tilefni af kvörtun yðar tel ég rétt að víkja að skilyrðum þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns Alþingis. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og nánar greindar siðareglur. Í samræmi við þetta segir í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir starfssvið umboðsmanns Alþingis, geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Þá getur umboðsmaður samkvæmt 5. gr. laganna tekið mál til athugunar að eigin frumkvæði.

Af framangreindum ákvæðum leiðir að starfsemi stjórnvalda verður að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar hjá umboðsmanni Alþingis á grundvelli kvörtunar heldur verður kvörtun að lúta að tiltekinni ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997 er mælt fyrir um frekari skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli hafa tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem verið hafa á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra af viðkomandi máli sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður almennt talið rétt að það æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum áður en hann tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar og þá einnig í þeim tilvikum þar sem afstaða æðra stjórnvaldsins til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru.

Ástæða þess að þetta er tekið fram er sú að samkvæmt b-lið 21. töluliðar 2. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 6/2022 fer dómsmálaráðuneytið með málefni mannanafnanefndar. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið borið athugasemdir yðar um starfshætti og verklag framangreindra stjórnvalda undir dómsmálaráðuneytið. Af þeim sökum tel ég rétt að þér freistið þess að leita þangað með athugasemdir yðar áður en leitað er til umboðsmanns með kvörtun að þessu leyti.

Kjósið þér að leita með erindi til ráðuneytisins og teljið þér yður enn beitta rangsleitni að fenginni afstöðu þess er yður frjálst að leita til umboðsmanns á ný og verður þá tekin frekari afstaða til þess hvort og þá að hvaða marki umrædd stjórnsýsla getur komið til athugunar umboðsmanns Alþingis á grundvelli kvörtunar.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég athugun minni á kvörtun yðar.