Skattar og gjöld. Sveitarfélög. Samningar. Jafnræðisreglur.

(Mál nr. 12539/2023)

Kvartað var yfir mismunun við álagningu lóðarleigu á íbúa Reykjanesbæjar. 

Af kvörtuninni varð ekki ráðið að hún beindist að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds. Því voru ekki skil­yrði til að fjalla frekar um kvörtunina. Umboðsmaður benti viðkomandi aftur á móti á að hann gæti freistað þess að koma athugasemdum sínum á framfæri við sveitarfélagið og jafnframt, ef hann teldi reglur sveitarfélagsins fela í sér mismunun, við innviðaráðherra.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. janúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 2. janúar sl. sem beint er að Reykjanesbæ og X. Samkvæmt kvörtuninni lýtur hún að mismunun við álagningu lóðarleigu á íbúa sveitarfélagsins.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­­mann Alþingis, er hlut­verk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórn­­sýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Af ákvæðum laganna leiðir m.a. að það er ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að láta í té almennar álitsgerðir eða svör við almennum fyrirspurnum um gildandi rétt, heldur að fjalla um kvartanir yfir því að stjórnvöld hafi ekki í ákveðnum tilvikum farið að lögum eða fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum. Kvörtun í máli einstaklings eða lögaðila verður þannig að lúta að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum stjórn­valda sem beinast sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varða beinlínis hagsmuni hans eða réttindi. Af kvörtun yðar, en henni fylgdu engin frekari gögn, verður ekki ráðið að hún beinist að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds. Því eru ekki skil­yrði að lögum fyrir því að ég fjalli frekar um kvörtunina.

Vegna kvörtunar yðar skal þess getið að lóðarleiga er lögð á fasteignir á grundvelli lóðarleigusamnings og felur í sér gjald sem tekið er fyrir afnot af lóð í eigu sveitarfélags. Yður kann því að vera fært að freista þess að koma sjónarmiðum yðar á framfæri við Reykjanesbæ. Ef þér teljið að reglur sveitarfélagsins feli í sér mismunun getið þér jafnframt freistað þess að bera athugasemdir yðar undir innviðaráðherra sem fer með stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum á grundvelli XI. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Fari svo að þér leitið vegna málsins til framangreindra stjórnvalda og teljið yður enn beittan rangsleitni getið þér leitað til umboðsmanns að nýju með kvörtun ef þér teljið ástæðu til. Verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki það getur komið til athugunar af hálfu umboðsmanns. Með þessu hefur þó engin afstaða verið tekin til þess hvort tilefni sé til þess fyrir yður að leita til sveitarfélagsins eða ráðherra vegna málsins.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmanns Alþingis, læt ég umfjöllun minni um málið lokið.