Máli lokið með bréfi, dags. 18. júlí 1994.
A kvartaði yfir því að tryggingaráð hefði með úrskurði 4. september 1992 synjað ósk hennar um endurmat örorku vegna umferðarslyss á árinu 1982. Taldi A að réttlætanlegt væri að hækka fyrra örorkumat úr 10% í 15% og vísaði því til stuðnings til vottorðs læknis, X, frá árinu 1991. Í úrskurði tryggingaráðs var byggt á því áliti tryggingalæknis að ekki væri ástæða til breytinga á eldra örorkumati. Þá var vísað til ákvæðis 51. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, þess efnis að enginn gæti samtímis notið nema einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt lögunum. Í skýringum tryggingaráðs til umboðsmanns kom fram að við meðferð Tryggingastofnunar á málinu hefði komið í ljós að A væri metin til 75% varanlegrar örorku frá 1. ágúst 1988 og að hækkað örorkumat breytti því engu varðandi greiðslur til hennar frá Tryggingastofnun. Enda þótt þetta hefði nægt til að afgreiða málið hefði örorkumat þó verið skoðað þar sem hækkað mat hefði e.t.v. nýst A gagnvart tryggingafélagi. Þá hefði hins vegar komið í ljós að ógerningur hefði verið að aðgreina hvað væri afleiðing slyss og hvað ekki, m.a. vegna þess hversu langt var um liðið frá slysinu.
Þá tók umboðsmaður fram að enda þótt tíðkast hefði að örorkumat tryggingalækna væri notað við bótauppgjör í skaðabótamálum væri það hlutverk tryggingalækna og tryggingayfirlæknis að meta skilyrði og grundvöll bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar og mætti skjóta þeim ákvörðunum til tryggingaráðs. Enda þótt tryggingaráði bæri í störfum sínum sem stjórnvalds að gæta rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, og þar með að mál væru nægilega upplýst áður en ákvörðun væri tekin, taldi umboðsmaður, eins og máli þessu var háttað, ekki tilefni til að gera athugasemdir við úrlausn tryggingaráðs. Þá tók umboðsmaður fram að það félli utan valdsviðs hans að fjalla um uppgjör bótamála milli einstaklinga, en fram hafði komið hjá A að óánægja hennar beindist fyrst og fremst að uppgjöri skaðabóta vegna slyss hjá tilteknu tryggingafélagi. Taldi umboðsmaður því ekki tilefni til athugasemda við úrskurð tryggingaráðs.
Í bréfi umboðsmanns til A, dags. 18. júlí 1994, sagði:
"I.
Ég vísa til kvörtunar yðar frá 22. mars 1993, en þar kvartið þér yfir úrskurði tryggingaráðs, dags. 4. september 1992. Í úrskurðinum er staðfest örorkumat frá 5. apríl 1983 vegna slyss, er þér urðuð fyrir 3. mars 1982, og ósk yðar um endurmat því hafnað.
Í úrskurði tryggingaráðs segir:
"Vegna framkominnar kvörtunar endurskoðaði [...] bæklunarlæknir hinn 23. mars s.l. örorkumatið frá 1983 m.a. með því að skoða [A]. [...] taldi ekki ástæðu til breytinga á umræddu örorkumati.
[A] hefur verið kynnt sú niðurstaða.
Í 5. mgr. 34. gr. l. nr. 67/1971 um almannatryggingar sagði:
"Örorkubætur greiðast ekki, ef orkutapið er metið minna en 15%."
Nýtt mat hefur farið fram, sem staðfestir eldra mat. Engin ný gögn hafa borist er leitt gætu til annarrar niðurstöðu. Því telur tryggingaráð rétt að staðfesta slysamatið frá 5. apríl 1983.
Þá skal og getið ákvæða 2. málsliðs 2. mgr. 3. mgr. 51. gr. l. nr. 67/1971 en þar segir:
"Að öðru leyti getur enginn samtímis notið nema einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt lögum þessum eða lögum um atvinnuleysistryggingar.
Ef maður á rétt á fleiri tegundum bóta en einni, sem ekki geta farið saman, má hann taka hærri eða hæstu bæturnar."
Örorkulífeyrisþegi á því ekki rétt til örorkubóta skv. 34. gr."
II.
Ég hef ritað tryggingaráði bréf, skv. 7. gr. laga nr. 13/1987, fyrst 19. apríl 1993 og síðan 1. júní 1993. Með bréfum tryggingaráðs, dags. 3. maí og 23. júlí 1993, bárust mér gögn málsins. Með bréfi, dags. 6. apríl 1994, óskaði ég eftir frekari skýringum frá tryggingaráði og benti sérstaklega á, að meðal gagna málsins, sem mér bárust með bréfi tryggingaráðs frá 3. maí 1993, var örorkumat X, læknis, frá 14. febrúar 1991, þar sem fram kemur að réttlætanlegt sé talið, að hækka örorkumatið úr 10% í 15% varanlega örorku, vegna versnandi einkenna frá hægri úlnlið og hugsanlegrar baktognunar.
Í bréfi tryggingaráðs til mín, dags. 18. maí 1994, segir:
"[A] [...] leitaði til tryggingaráðs 26. febrúar 1992, þar sem henni hefði verið neitað af læknum Tryggingastofnunar ríkisins um endurmat vegna slyss er varð í mars 1982. [...]Málið var endurskoðað á læknadeild og upplýstist þá, að [A] var metin til 65% almennrar örorku frá 1. október 1984 vegna psoriasis liðagigtar og skjaldkirtilssjúkdóms, og til 75% varanlegrar örorku frá 1. ágúst 1988. Þegar þetta lá fyrir var ljóst, að hækkað mat breytti engu varðandi greiðslur hennar frá Tryggingastofnun, sbr. [43.] gr. laga nr. 117/1993 (áður 51. gr. laga nr. 67/1971). Þessi ástæða hefði nægt til að afgreiða málið, en [A] kvartaði yfir örorkumati, þá var sá þáttur skoðaður betur, þar sem hækkað mat hefði e.t.v. nýst henni gagnvart tryggingafélagi. Við endurskoðun matsins kom hinsvegar í ljós, að ógerningur var m.a. hversu langt var liðið frá slysi svo og vegna hrakandi líkamlegs ástands að aðgreina hvað væri afleiðing slyss og hvað ekki.
Varðandi örorkumat [X] frá 14. febrúar 1991, skal tekið fram, að um það var fjallað hjá tryggingaráði, en með hliðsjón af málavöxtum og þar sem niðurstaða mats var ekki afdráttarlaus var talið að það breytti engu um niðurstöðu kvörtunarmáls."
III.
Tryggingaráð sker úr um grundvöll, skilyrði og upphæð bóta, sem greiddar eru samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. nú 7. gr. laga nr. 117/1993, sem tóku gildi 1. janúar 1994, og áður 7. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar, með síðari breytingum.
Með 2. gr. laga nr. 75/1989 var 7. gr. laga nr. 67/1971 breytt og var tilgangur þeirrar lagabreytingar m.a. að taka af tvímæli um valdsvið tryggingaráðs, þ. á m. um vald tryggingaráðs til að leysa úr ágreiningi um skilyrði greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins.
Í skýringum við 2. gr. frumvarpsins sagði svo:
"Samkvæmt þessari grein hefur tryggingaráð heimild til að endurmeta öll atriði varðandi rétt til greiðslu úr almannatryggingum, sem starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins leggja mat á eða taka ákvörðun um í störfum sínum, án tillits til þess hvort mat starfsmanns eða ákvörðun varða einungis skýringu á fyrirmælum almannatryggingalaga eða hvort mat eða ákvörðun snýr að öðrum atriðum, svo sem læknisfræðilegu mati á skilyrðum bóta og lífeyrisréttar." (Alþt. 1988, A-deild, bls. 2591.)
Tryggingayfirlæknir metur örorku þeirra, sem sækja um örorkubætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993, og má skjóta ákvörðun hans til tryggingaráðs. Grundvöll bótaréttar má endurskoða hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum, sem orðið hafa, sbr. 3. mgr. 48. gr. núgildandi laga, sbr. áður 2. mgr. 56. gr. laga nr. 67/1971.
Örorkumat tryggingayfirlæknis er því lagt til grundvallar ákvörðun á örorkubótum, sem greiddar eru skv. 29. gr. laga nr. 117/1993, vegna slyss, sem veldur varanlegri örorku, sbr. áður 34. gr. laga nr. 67/1971. Um rétt til örorkulífeyris og ákvörðun bóta fer hins vegar eftir 12. gr. laga nr. 117/1993, en þar er um lífeyristryggingu að ræða, en ekki slysatryggingu. Þá eru í 2. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993, sbr. áður 51. gr. laga nr. 67/1971, ákvæði um það, hvaða bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar geta farið saman, en meginreglan er sú, að enginn geti samtímis notið nema einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt lögunum. Það er skoðun mín, að sú skýring tryggingaráðs sé rétt, að sá, sem nýtur fulls örorkulífeyris samkvæmt 12. gr. almannatryggingalaga, eigi ekki samtímis rétt á örorkubótum á grundvelli 29. gr. laga nr. 117/1993 (áður 34. gr. laga nr. 67/1971), og því hafi endurmat á örorku yðar vegna slyss ekki haft þýðingu um greiðslur til yðar frá Tryggingastofnun ríkisins.
Tryggingaráð er stjórnvald og veita ákvæði 7. gr. laga nr. 117/1993, áður laga nr. 67/1971 með síðari breytingum, þeim, sem í hlut á, rétt til að bera ákvörðun lægra setts stjórnvalds undir æðra sett stjórnvald til endurskoðunar. Eins og greinir í áliti mínu í máli nr. 651/1992, frá 4. febrúar 1993, er æðra stjórnvaldi skylt, við slíka endurskoðun, að sjá til þess, að atvik máls séu nægilega upplýst, áður en mál er til lykta leitt.Ákvæði um úrlausn ágreinings fyrir tryggingaráði eiga þó eingöngu við um ágreining um bótarétt samkvæmt lögum um almannatryggingar. Enda þótt tíðkast hafi, að örorkumöt tryggingalækna hafi verið notuð við bótauppgjör í skaðabótamálum, meta tryggingalæknar og tryggingayfirlæknir, í starfi sínu hjá Tryggingastofnun ríkisins, skilyrði og grundvöll bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar. Með hliðsjón af hlutverki tryggingaráðs, samkvæmt lögum um almannatryggingar, tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við úrlausn tryggingaráðs í máli yðar.
IV.
Í athugasemdum yðar hefur komið fram, að kvörtun yðar vegna úrlausnar tryggingaráðs sé ekki til komin vegna óánægju með ákvörðun um greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, en að þér teljið yður vanhaldna í greiðslum bóta vegna afleiðinga slyss þess, er þér urðuð fyrir á árinu 1982. Hefur jafnframt komið fram óánægja yðar vegna uppgjörs á skaðabótum, sem greiddar voru af tryggingafélagi þess, sem bar skaðabótaábyrgð á tjóni yðar. Það fellur hins vegar utan starfssviðs míns að fjalla um uppgjör bótamála milli einstaklinga. Get ég því ekki fjallað frekar um þann þátt í kvörtun yðar.
V.
Samkvæmt því, sem ég hef rakið um starfssvið og hlutverk tryggingaráðs, tel ég ekki tilefni til athugasemda við málsmeðferð ráðsins eða niðurstöðu í máli yðar. Er afskiptum mínum af máli yðar því lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis."