Skattar og gjöld. Almannatryggingar.

(Mál nr. 12534/2023)

Kvartað var yfir breytingum á lögum um tekjuskatt sem fólu í sér niðurfellingu persónuafsláttar til eftirlauna- og lífeyrisþega sem eru búsettir erlendis.

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til lagasetningar Alþingis voru ekki skilyrði til að fjalla um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. janúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 29. desember sl. er lýtur að breytingum á 70. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem gerðar voru með 11. gr. laga nr. 102/2023, um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl.,  sem samþykkt voru á Alþingi 16. þess mánaðar. Í breytingunum felst að sá tekjuskattur eftirlaunaþega og lífeyrisþega sem um ræðir í 2. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003 skal nú reiknast af tekjuskattstofni samkvæmt 1.-3. tölulið 1. mgr. 66. gr. laganna án persónuafsláttar. Munu breytingarnar taka gildi 1. janúar 2025, sbr. 36. gr. laga nr. 102/2023.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði.

Af kvörtun yðar, eins og hún er fram sett, verður ekki annað ráðið en að hún lúti að atriðum sem Alþingi hefur tekið afstöðu til með lagasetningu. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.