Atvinnuleysistryggingar.

(Mál nr. 12530/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun Vinnumálastofnunar um beitingu viðurlaga á grundvelli laga um atvinnleysistryggingar þar sem viðkomandi hafnaði þátttöku í vinnumarkaðsúrræði.

Þar sem ákvörðunin hafði ekki verið lögð fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. janúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 27. desember sl. en af henni verður ráðið að hún lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um beitingu viðurlaga á grundvelli laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, vegna höfnunar yðar á þátttöku í vinnumarkaðsúrræði.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þetta ákvæði er einkum byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 54/2006 skal úrskurðarnefnd velferðarmála kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Stjórnsýslukæra skal berast nefndinni skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015, um úrskurðarnefnd velferðarmála.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið kært ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þar til niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar. Teljið þér yður enn rangsleitni beittan, að fenginni úrlausn nefndarinnar, er yður fært að leita til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.