Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. 12507/2023)

Kvartað var yfir tilteknum lögreglustjóra og barnaverndum í tengslum við rannsókn sakamáls.

Þar sem málið virtist enn til rannsóknar voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina. Viðkomandi var bent á að þegar henni lyki mætti leita til ríkissaksóknara ef hann teldi sig beittan rangsleitni að lokinni rannsókn lögreglunnar. Að sama skapi var bent á að leita til forstöðumanna barnaverndanna áður en lengra yrði haldið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. janúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 13. desember sl. sem þér beinið annars vegar að lögreglustjóranum á X og hins vegar barnavernd Y og Z. [...]   

Í tilefni af kvörtun yðar tel ég rétt að víkja að skilyrðum þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns Alþingis. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem verið hafa á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra af viðkomandi máli sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Þá leiðir af ákvæðinu að almennt er ekki gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi afskipti af málum meðan þau eru til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að eftir því sem fram kemur í kvörtun yðar verður ekki annað ráðið en að málið sé enn til rannsóknar hjá lögreglu. Að þessu leyti tel ég rétt að taka fram að eftir breytingar sem komu til framkvæmda við gildistöku laga nr. 47/2015, um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum, er stjórnsýsla ákæruvalds á tveimur stigum. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, hefur ríkissaksóknari eftirlit með framkvæmd ákæruvalds hjá öðrum ákærendum og samkvæmt 3. mgr. sömu greinar getur hann gefið öðrum ákærendum fyrirmæli um einstök mál sem þeim er skylt að hlíta. Hann getur kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um framkvæmd hennar og fylgst með henni. Af því leiðir að málsaðili sem telur á sig hallað við rannsókn lögreglu eða málsmeðferð eftir að mál er komið til meðferðar hjá ákæranda getur beint erindi til ríkissaksóknara um það atriði. Þá eru fyrirmæli ríkissaksóknara bindandi fyrir lægra setta stjórnvaldið.

Í ljósi framangreinds, og að virtum þeim sjónarmiðum sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, tel ég rétt að þér berið athugasemdir yðar við rannsókn málsins undir ríkissaksóknara áður en þér leitið til umboðsmanns með kvörtun þar að lútandi. Að því leyti sem kvörtunin lýtur að starfsháttum barnaverndar Y og Z tel ég sömuleiðis rétt að þér berið athugasemdir yðar undir forstöðumenn þeirra. Fari svo að þér leitið til framangreindra stjórnvalda og teljið yður enn rangsleitni beitta, að fenginni afstöðu þeirra, getið þér leitað til umboðsmanns að nýju með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér þarfnist frekari upplýsinga eða leiðbeininga er yður velkomið að hafa samband við skrifstofu umboðsmanns í síma 510-6700 frá 9:00-11:30 og 12:30-15:00 alla virka daga og ræða við lögfræðing eða með tölvupósti á netfangið postur@umbodsmadur.is.