Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. 12526/2023)

Kvartað var yfir því að lögreglumenn hefðu farið í eftirlitsferð á heimili við leit að ákveðnum einstaklingum.

Þar sem erindið hafði hvorki verið lagt fyrir dómsmálaráðuneytið né nefnd um eftirlit með lögreglu voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði um það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. janúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 21. desember sl. er lýtur að því að lögreglumenn hafi farið í eftirlitsferð að heimili yðar 18. apríl sl. við leit að nánar tilgreindum einstaklingum.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem verið hafa á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra af viðkomandi máli sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Í samræmi við þetta hefur umboðsmaður almennt talið rétt að það æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum áður en hann tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar og þá einnig í þeim tilvikum þar sem afstaða æðra stjórnvaldsins til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru.

Í framkvæmd umboðsmanns Alþingis hefur jafnframt verið litið svo á, með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum, að þegar með lögum hefur verið komið á fót sérstökum eftirlitsaðila innan stjórnsýslunnar til að fjalla um kærur eða kvartanir sé rétt að slík leið hafi verið farin áður en kvörtun vegna sama máls kemur til umfjöllunar hjá umboðsmanni.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 4. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er dómsmálaráðherra æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu. Á grundvelli lögreglulaga starfar jafnframt nefnd um eftirlit með lögreglu en á meðal hlutverka hennar er að taka til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald, sbr. b-lið 1. mgr. 35. gr. a. laganna.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið borið athugasemdir yðar við starfshætti lögreglu undir framangreinda aðila. Í ljósi þess brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu. Kjósið þér að leita með erindi til stjórnvalda í samræmi við framangreint og teljið þér yður enn beitta rangsleitni að fenginni afstöðu þeirra er yður frjálst að leita til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi og verður þá tekin afstaða til þess hvort og þá að hvaða marki málið getur komið til athugunar af hálfu umboðsmanns.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.