Póst- og fjarskiptamál. Fjarskipti. Eignarréttur. Bótaábyrgð ríkisins.

(Mál nr. 12139/2023)

Kvartað var yfir lagningu ljósleiðarastrengs í eignarlöndum. Í kvörtuninni var þess m.a. óskað að umboðsmaður tæki afstöðu til fjölmargra atriða sem lutu með almennum hætti að fyrirkomulagi sem mælt er fyrir um í fjarskiptalögum varðandi aðgang fjarskiptafyrirtækja að landi og mannvirkjum. Að virtu hlutverki og starfssviði umboðsmanns var athugun hans afmörkuð við úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála en samkvæmt honum bar landeigendum að veita aðgang að landi sínu vegna framkvæmdarinnar.

Ekki varð betur séð en úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála sem og Fjarskiptastofa hefðu tekið athugasemdir landeigenda við framkvæmdina til ítarlegrar skoðunar og tekið rökstudda afstöðu til þeirra. Landeigendur hefðu verið upplýstir um framkvæmdina, ástæðu hennar, tilgang og markmið auk þess sem kostur hefði verið gefinn á að koma á framfæri athugasemdum. Með hliðsjón af orðalagi þágildandi laga taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar hvað snerti úrlausn ágreinings um bótaskyldu vegna lagningar fjarskiptavirkis en lagt var til grundvallar að það væri á hendi matsnefndar eignarnámsbóta að skera úr um hann.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. janúar 2024.

   

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 10. apríl 2023. Lýtur kvörtunarefnið að lagningu ljósleiðarastrengs í eignarlöndum í X. Samkvæmt ákvörðun Fjarskiptastofu [...] átti téð félag samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, sem nú eru fallin úr gildi, rétt til aðgangs að eignarlöndunum til lagningar strengsins samkvæmt lagnaleið sem tilgreind var í viðaukum við ákvörðunina. Bæri þinglýstum eigendum eignarlanda á leiðinni að veita félaginu aðgang að landi sínu vegna framkvæmdarinnar bótalaust. Landeigendum væri hins vegar ekki skylt að samþykkja staðlaða samningsskilmála sem félagið lagði fyrir þá í samráðsferli um framkvæmdina.

Með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála [...] var ákvörðun Fjarskiptastofu breytt með þeim hætti að Ljósleiðarinn ehf. ætti sama rétt til aðgangs að eignarlöndum í X til lagningar á ljósleiðarastreng samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 70/2022, um fjarskipti en þau komu í stað fyrrgreindra laga nr. 81/2003 um sama efni. Jafnframt liggur fyrir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komst að þeirri niðurstöðu að lagning ljósleiðarans væri ekki háð framkvæmdaleyfi, sbr. úrskurð nefndarinnar [...].

Í tilefni af kvörtuninni var úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála ritað bréf 8. maí sl. og óskað eftir afriti af öllum gögnum málsins. Þau bárust 24. maí sl.

  

II

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Í 3. gr. laganna er starfssvið umboðsmanns nánar afmarkað í samræmi við þetta. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna getur hver sá sem telur stjórnvald hafa beitt sig rangindum borið fram kvörtun við umboðsmann. Í þessu ákvæði felst að ekki verður að jafnaði kvartað til umboðsmanns nema kvörtunin varði tiltekna athöfn eða ákvörðun stjórnvalds sem felur í sér beitingu stjórnsýsluvalds. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té, án þess að um tiltekna athöfn eða ákvörðun stjórnvalds sé að ræða í framangreindum skilningi, lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið. Þá fellur það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um störf Alþingis og þar með hvernig almennt hefur tekist til við lagasetningu þess, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Ástæða þess að þetta er rakið er að í kvörtun yðar er m.a. óskað eftir því að umboðsmaður taki afstöðu til fjölmargra atriða sem lúta með almennum hætti að því fyrirkomulagi sem fjarskiptalög mæla fyrir um varðandi aðgang fjarskiptafyrirtækja að landi og mannvirkjum. Samkvæmt framangreindu er það hins vegar ekki á færi umboðsmanns að láta í té álit sitt á því hvernig haga eigi laga- og reglusetningu á þessu sviði. Með hliðsjón af þessu og hvernig kvörtun yðar er sett fram hefur athugun umboðsmanns á henni því verið afmörkuð við framangreindan úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.

   

III

1

Ég hef skilið kvörtun yðar á leið að athugasemdir yðar lúti einkum að skorti á samráði Ljósleiðarans ehf. við landeigendur, þ.m.t. yður, og önnur samskipti félagsins við þá. Þá hafi landeigendum ekki verið ákveðnar bætur við meðferð málsins hjá Fjarskiptastofu eða úrskurðarnefndinni.

Í 1. mgr. 69. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, sem í gildi voru þegar Ljósleiðarinn ehf. tilkynnti landeigendum um fyrirhugaða lagningu ljósleiðarastrengs, sagði að væri fjarskiptafyrirtæki nauðsynlegt að leggja leiðslur fjarskiptavirkja um land annars manns, m.a. yfir það eða í jörðu, væri eiganda viðkomandi fasteignar skylt að heimila slíkt, enda kæmu fullar bætur fyrir. Hafa skyldi samráð við eigendur eða umráðamenn slíkra fasteigna og mannvirkja um hvar leiðslur væru lagðar og þess gætt að sem minnst væri raskað hagsmunum eigandans. Í 2. mgr. greinarinnar sagði m.a. að yrði tjón á landi manna, og ekki yrði úr bætt, eða lagning fjarskiptavirkja leiddi til takmörkunar á afnotamöguleikum viðkomandi eignar, skyldi eigandi fjarskiptavirkis þá bæta tjónið. Næðist ekki samkomulag um bótafjárhæð skyldi um ákvörðun bóta fara að lögum um framkvæmd eignarnáms. Um þessi atriði er nú mælt fyrir um í 1. og 3. mgr. 34. gr. núgildandi laga nr. 70/2022 um sama efni. Í 1. mgr. 34. gr. núgildandi laga segir jafnframt, sbr. 3. málslið hennar, að ágreiningi um fyrirhugaða lagningu fjarskiptavirkis megi vísa til Fjarskiptastofu sem að fengnum sjónarmiðum málsaðila skuli úrskurða um legu slíkra lagna.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar er á því byggt að á grundvelli síðastnefnds ákvæðis núgildandi laga um fjarskipti hefði Fjarskiptastofu verið rétt að mæla fyrir um lagningu strengsins í ákvörðun sinni, þótt nánar tilgreindir annmarkar hefðu verið á framsetningu stofnunarinnar á niðurstöðu hennar að því leyti. Var það jafnframt niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Fjarskiptastofu hefði ekki verið rétt að ákveða að landeigendur skyldu veita aðgang að landi sínu bótalaust. Væri uppi ágreiningur um bótaskyldu væri það á hendi matsnefndar eignarnámsbóta að skera úr um hann, s.s. gert hefði verið ráð fyrir í 2. mgr. 69. gr. eldri laga, sbr. nú 3. mgr. 34. gr. núgildandi laga.

   

2

Með lögum nr. 70/2022 hefur Fjarskiptastofu verið falið að úrskurða um legu lagna fjarskiptavirkis. Sætir úrskurðarvald stofnunarinnar þó þeim takmörkunum sem leiða af lögum og stjórnvaldsfyrirmælum og ber henni að haga málsmeðferð sinni í samræmi við gildandi ákvæði laga um fjarskipti og lög nr. 75/2021, um Fjarskiptastofu, svo og almennar reglur stjórnsýsluréttarins. Þá sæta ákvarðanir Fjarskiptastofu kæru til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 75/2021. Í samræmi við það sem áður greinir um hlutverk umboðsmanns Alþingis lýtur athugun umboðsmanns fyrst og fremst að því hvort málsmeðferð stjórnvalda hafi verið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að leggja til grundvallar eigið mat á því hvernig legu ljósleiðarastrengs skuli háttað. Hefur athugun mín á kvörtun yðar tekið mið af þessu.

Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar og fyrirliggjandi gögn og upplýsingar tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í málinu. Hef ég þá einkum í huga að ekki verður betur séð en að úrskurðarnefndin, sem og Fjarskiptastofa, hafi tekið athugasemdir landeigenda við framkvæmd Ljósleiðarans ehf. til ítarlegrar skoðunar og tekið rökstudda afstöðu til þeirra. Fram kemur m.a. fram sú afstaða beggja stjórnvalda að samráð Ljósleiðarans ehf. við landeigendur hefði mátt betur fara og beindi úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála tilteknum tilmælum til félagsins af þessu tilefni. Hins vegar hefðu landeigendur verið upplýstir um framkvæmdina, ástæðu hennar, tilgang og markmið auk þess sem kostur hefði verið gefinn á að koma á framfæri athugasemdum. Er þá einkum vísað til bréfa Ljósleiðarans ehf. til landeigenda 6. júlí 2022 en með því var m.a. óskað eftir athugasemdum landeigenda varðandi framkvæmdina.

Afstaða úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, sem og Fjarskiptastofu, er hins vegar byggð á því að þetta atriði, sem og aðrar þær röksemdir sem byggt var á af hálfu landeigenda, fái ekki breytt lögbundinni skyldu þeirra til að heimila lagningu fjarskiptavirkisins. Með hliðsjón af orðalagi þágildandi 1. mgr. 69. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, sbr. 1. mgr. 34. gr. núgildandi laga nr. 70/2022, hef ég ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu. Þá tel ég ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar hvað snertir úrlausn ágreinings um bótaskyldu vegna lagningar fjarskiptavirkis.

  

IV

Með vísan til alls framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.