Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. 12424/2023)

Kvartað var yfir því að lögreglan hafði hvorki svarað erindum né staðfest hvort tiltekin mál væru í vinnslu þar.

Í svörum lögreglunnar til umboðsmanns kom fram að brugðist hefði verið við erindum viðkomandi og m.a. væri mál til rannsóknar. Ekki var því tilefni til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. janúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 23. október 2023 sem laut að því að erindum yðar til lögreglunnar hafi ekki verið svarað. Enn fremur er kvartað yfir því að þér hafi ekki fengið staðfestingu á því hvort tiltekin mál yðar séu í vinnslu hjá lögreglunni.

Í tilefni af kvörtuninni var lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu ritað bréf 15. nóvember sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort þér ættuð mál til meðferðar hjá embættinu, hvort erindi yðar hefðu borist og þá hvað liði svörum við þeim. Svar lögreglustjórans barst 4. desember sl. en þar kemur fram að fjöldi erinda hafi borist frá yður á tímabilinu janúar til mars 2023. Tekið er fram í svarinu að ekki sé bókað að yður hafi verið svarað með tölvupóstum en bókað sé um önnur samskipti við yður, m.a. að lögreglumaður í afgreiðslu hafi rætt við yður, að rætt hafi verið við yður símleiðis sem og á heimili yðar. Þá segir í svari lögreglustjóra að yður hafi verið gefinn tími til að leggja fram kæru vegna líkamsárásar og eignarspjalla 27. janúar 2023 en að þér hafi ekki mætt í téðan tíma. Enn fremur sé bókað að þér hafi átt tíma 17. mars en ekki sé skráð hvort þér hafi mætt eða ekki, en ljóst sé að enginn skýrsla hafi verið tekin þann daginn. Að lokum er tekið fram að lögreglan hefur til rannsóknar húsbrot og eignarspjöll sem tilkynnt var um 23. mars 2023. Bréf lögreglustjórans fylgir bréfi þess hjálagt í ljósriti.

Þar sem kvörtun yðar laut að skorti á svörum og viðbrögðum við erindum yðar og í ljósi þess að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur samkvæmt ofangreindu svari brugðist við og sé m.a. með mál til rannsóknar tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Lýk ég því meðferð minni á kvörtuninni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.