Neytendamál.

(Mál nr. 12536/2023)

Kvartað var yfir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa.  

Í kvörtuninni kom fram að viðkomandi ætti í samskiptum við nefndina um endurupptöku málsins og biði viðbragða formanns hennar. Erindið var því enn til meðferðar hjá nefndinni og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. janúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 30. desember 2023 f.h. A ehf. sem varðar kærunefnd vöru- og þjónustukaupa. Í erindi yðar til mín 4. janúar sl. var upplýst um að þér ættuð í samskiptum við nefndina varðandi endurupptöku málsins. Samskiptin bera með sér að þér bíðið viðbragða formanns nefndarinnar við erindi yðar 20. desember 2023.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af ákvæðinu leiðir meðal annars að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar á meðan það er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að ekki liggur annað fyrir en að mál yðar sé enn til meðferðar hjá kærunefnd vöru- og þjónustukaupa. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Teljið þér félagið enn beitt rangsleitni að fenginni niðurstöðu nefndarinnar getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik f.h. hönd þess með kvörtun þar að lútandi.