Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Sveitarfélög. Eftirlit stjórnsýsluaðila.

(Mál nr. 12510/2023)

Kvartað var yfir því að innviðaráðuneytið hefði ekki svarað erindi. 

Í svari ráðuneytisins kom fram að erindið væri til meðferðar og viðkomandi hefði verið upplýstur um stöðu þess. Ekki var því ástæða til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. janúar 2024.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 13. desember sl. yfir því að erindi yðar til innviðaráðuneytisins 18. ágúst sl. hafi ekki verið svarað. Laut erindi yðar að mati reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga á reikningsskilum Reykjavíkurborgar.

Í tilefni af kvörtuninni var ráðuneytinu ritað bréf 19. desember sl. þar sem þess var óskað að upplýst yrði um hvað liðið meðferð og afgreiðslu erindis yðar. Í svari ráðuneytisins 5. janúar sl., sem fylgir hjálagt með í ljósriti, segir að því hafi borist erindið og að reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga sé með það til meðferðar. Bréfi ráðuneytisins fylgdi jafnframt afrit af tölvupósti til yðar 14. desember sl. þar sem þér voruð upplýstir um að nefndin hefði erindið til meðferðar en hefði þó ekki lokið afgreiðslu þess. Til stæði að að skoða erindið frekar á næsta fundi eða fundum hennar.

Þótt ekki komi skýrt fram í svörunum hvenær nákvæmlega sé gert ráð fyrir að afgreiðslu erindisins ljúki verður ekki betur séð en að það sé í farvegi hjá ráðuneytinu. Í ljósi þess sem fram hefur komið um framvindu málsins tel ég ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega vegna kvörtunar yðar að svo stöddu. Læt ég því athugun minni vegna kvörtunar yðar lokið með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Standist áform ráðuneytisins ekki eða ef frekari og óhæfilegar tafir verða á meðferð málsins, getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.