Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds.

(Mál nr. 12531/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds.  

Þar sem stöðubrotsgjaldið var ekki lagt á bíl viðkomandi og ekki lá fyrir hvort eigandi bifreiðarinnar hefði veitt umboð til að kvarta fyrir sína hönd voru ekki skilyrði til að fjalla um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. janúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 28. desember sl. er lýtur að ákvörðunum Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalda sem munu hafa verið lögð á bifreiðar íbúa við [...]. Með kvörtuninni fylgdi afrit af ákvörðun Bílastæðasjóðs 27. þess mánaðar þar sem beiðni um endurupptöku álagningar var hafnað.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir ákvæði 1. eða 2. mgr. 3. gr. laganna, kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Samkvæmt þessu eru það að jafnaði aðeins þeir sem orðið hafa fyrir ætlaðri rangsleitni stjórnvalda sem kvartað geta til umboðsmanns yfir henni en ekki aðrir. Þá segir í 3. mgr. 6. gr. laganna að ekki sé unnt að leita til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði hvílir það sjónarmið að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta eða bæta úr ágöllum sem kunna að hafa verið á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að ekki verður annað ráðið af ákvörðun Bílastæðasjóðs 27. desember sl. en að téð stöðubrotsgjald hafi verið lagt á bifreið annars en yðar. Þótt þér tekið fram í kvörtun yðar að hún sé lögð fram fyrir hönd allra eigenda íbúða við Grettisgötu 79 liggur ekki fyrir hvort viðkomandi hafi veitt yður formlegt umboð til þess að fara með mál hennar og þar með leggja fram kvörtun fyrir hennar hönd til umboðsmanns. Ég tek þó fram að eigendur þeirra bifreiða sem stöðubrotsgjöld hafa verið lögð á, eða þér fyrir þeirra hönd að fengnu fullnægjandi umboði þess efnis, geta leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi, að því tilskildu að áður hafi verið leitað leiðréttingar á álagningu gjaldsins hjá Bílastæðasjóði og afstaða hans liggi fyrir í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.