Fangelsismál. Heilbrigðisþjónusta. Aðstoð geðlæknis við gæsluvarðhaldsfanga sem vistaður er í einangrun. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Stjórnarskrá.

(Mál nr. 3518/2002)

A kvartaði yfir framkvæmd vistunar hans í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni, m.a. yfir því að beiðni hans um aðstoð geðlæknis, þegar hann var vistaður í einangrun, hefði ekki verið sinnt. Umboðsmaður aflaði upplýsinga frá fangelsisyfirvöldum um atvik málsins. Kom þá í ljós að fangaverðir höfðu á umræddum tíma haft samband við B, geðlækni, vegna beiðni A. Hafi B þá sagst ætla að hafa samband við A í gegnum síma sama dag en úr því hefði ekki orðið. Í skýringum B til umboðsmanns var viðurkennt að mistök hefðu orðið þegar hann brást ekki við beiðni A.

Umboðsmaður taldi rétt í tilefni af máli A að rita fangelsismálastofnun og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu fyrirspurnarbréf. Í bréfunum tók umboðsmaður fram að í máli A hefði hann meðal annars í huga þær skyldur sem hvíla að lögum á stjórnvöldum að því er varðar líkamlega og andlega velferð fanga, sbr. 68. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, og til hliðsjónar 38. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna. Vísaði umboðsmaður til álits síns frá 7. júlí 2000 í máli nr. 2426/1998 og til frumkvæðisálits síns frá 27. nóvember 2001 í máli nr. 2805/1999 (SUA 2000, bls. 73-74) en í því hafði umboðsmaður vísað um þetta til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málunum Kud A gegn Póllandi frá 26. október 2000, Peers gegn Grikklandi frá 19. apríl 2001 og Valašinas gegn Litháen frá 25. júlí 2001.

Í bréfinu til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins rakti umboðsmaður fyrri málsl. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, sbr. 1. gr. laga nr. 123/1997, þar sem segir að fangar skuli njóta sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir auk þeirrar sérstöku heilbrigðisþjónustu sem lög og reglur um fanga segja til um. Þá segir í síðari málsl. ákvæðisins að ráðuneytið sjái um og beri ábyrgð á heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsum að höfðu samráði við fangelsismálastofnun. Óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um fyrirkomulag geðlæknisþjónustu við fanga í fangelsinu að Litla-Hrauni, t.d. hvort hún byggðist á þjónustusamningi eða á öðrum grunni. Í því sambandi var óskað eftir upplýsingum um það hvort og þá að hvaða marki það væri á verksviði Heilbrigðisstofnunarinnar á Selfossi að sjá almennt til þess að fangar á Litla-Hrauni fengju þá geðlæknisþjónustu sem lög áskilja. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um hvernig háttað væri eftirliti stofnunarinnar með því að þessi þjónusta væri veitt og þá eftir atvikum til hvaða úrræða stofnunin gæti gripið til ef sýnt þætti að út af því væri brugðið. Loks var óskað eftir upplýsingum um hvort fyrir lægi hvernig starfsmenn á Litla-Hrauni ættu að bregðast við ef einstakir læknar sinntu ekki beiðnum um vitjanir og símtöl. Í bréfinu til fangelsismálastofnunar óskaði umboðsmaður eftir viðhorfi stofnunarinnar til þess hvernig hún teldi að fangaverðir eigi að lögum eða á grundvelli vandaðra stjórnsýsluhátta að bregðast við ef geðlæknir verður ekki við beiðni um aðstoð frá afplánunar- eða gæsluvarðhaldsfanga sem situr í einangrun, hafi fangaverðir í upphafi metið ástand fangans svo að geðlæknis væri þörf.

Í svarbréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að 30. apríl 1999 hefði verið undirritaður samningur á milli Heilbrigðisstofnunarinnar á Selfossi og ráðuneytisins um heilbrigðisþjónustu við fanga að Litla-Hrauni, þar sem meðal annars kæmi fram að fangar skuli fá heilsugæsluþjónustu og nauðsynlega sérhæfða læknisþjónustu, þ.m.t. geðlæknisþjónustu. Í bréfinu var rakið að Heilbrigðisstofnunin á Selfossi bæri ábyrgð á því að veita þjónustu samkvæmt ofangreindum samningi. Þá var vísað til þess að samkvæmt 3. gr. samningsins hefði landlæknir faglegt eftirlit með störfum stofnunarinnar auk þess að hafa almenna eftirlitsskyldu með störfum heilbrigðisstétta, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu. Þá tók ráðuneytið fram að ekki væru ákvæði í samningnum um hvernig starfsmenn Litla-Hrauns ættu að bregðast við ef einstakir læknar sinna ekki beiðnum um vitjanir og símtöl. Ráðuneytið rakti að það væru eðlileg viðbrögð við slíku að ítreka beiðni en kvarta til Heilbrigðisstofnunarinnar á Selfossi ef mikil brögð væru að slíku eða ítrekuðum beiðnum væri ekki sinnt.

Í svarbréfi fangelsismálastofnunar til umboðsmanns var vísað til nýrri samnings á milli Heilbrigðisstofnunarinnar á Selfossi og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins frá 3. júlí 2001. Þá sagði í bréfinu að fangelsismálastofnun teldi að fangavörðum hafi í máli A borið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að hafa samband við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi og gera vakthafandi lækni grein fyrir beiðni A.

Með vísan til skýringa og upplýsinga frá stjórnvöldum ákvað umboðsmaður að ljúka máli A með bréfi til hans. Þar rakti umboðsmaður að þar sem umræddur geðlæknir hefði viðurkennt að mistök hefðu orðið þegar hann brást ekki við beiðni A, auk þess sem yfirvöld fangelsisins og læknisþjónustu fanga hefðu lýst því yfir að þau teldu að fangaverðir hefðu átt að bregðast við þegar geðlæknirinn sinnti ekki beiðni hans, hefði hann ákveðið að aðhafast ekki frekar í tilefni af kvörtun A, sbr. a-lið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Hefði umboðsmaður þá horft til þess að gögn málsins og athugun hans hefðu ekki leitt í ljós að frekara tilefni væri til athugasemda af hans hálfu vegna máls A sérstaklega, m.a. að teknu tilliti til ákvæða laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, og annarra reglna.

Umboðsmaður tók hins vegar fram að vegna atvika í máli A, skýringa geðlæknisins B, og þess tíma sem það tók lækninn að svara fyrirspurn umboðsmanns, hefði hann ákveðið að rita landlækni bréf og kynna honum mál A. Þá hefði umboðsmaður ákveðið að lýsa þeirri afstöðu sinni í bréfum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og fangelsismálastofnunar að í samræmi við svör þessara aðila til sín gengi hann út frá því að af þeirra hálfu yrðu gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til að koma á framfæri við starfsfólk fangelsa og hlutaðeigandi heilbrigðisstofnana upplýsingum um hvaða viðbrögð væri rétt að viðhafa þegar beiðnum frá fanga um aðstoð læknis væri ekki sinnt eins og raunin var í máli A.

Með bréfum, dags. 23. janúar 2004, til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins annars vegar og fangelsismálastofnunar hins vegar, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort þessi stjórnvöld hefðu gert einhverjar tilteknar ráðstafanir í tilefni af framangreindum bréfum mínum og þá í hverju þær ráðstafanir felist. Svarbréf heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins er dagsett 25. febrúar 2004. Þar kemur fram að ráðuneytið hafi sent Heilbrigðisstofnuninni Selfossi bréf 4. apríl 2003 og beint því til stofnunarinnar að hún sæi til þess að þjónusta við fanga væri í samræmi við tilgreinda samninga ráðuneytisins við stofnunina og gripi til viðeigandi ráðstafana ef misbrestur væri á því. Í bréfi fangelsismálastofnunar til mín, dags. 18. febrúar 2004, segir meðal annars eftirfarandi:

„Af þessu tilefni skal tekið fram að í framhaldi af móttöku framangreinds bréfs yðar í mars 2003 átti Fangelsismálastofnun ítarlegar viðræður við forstöðumann Fangelsisins Litla-Hrauni um að starfsmönnum þyrfti að vera ljóst hvernig kalla bæri á læknisaðstoð eða koma á framfæri beiðnum fanga um slíka þjónustu. Í framhaldi af því var málið tekið til umfjöllunar á reglubundnum samráðsfundi forstöðumannsins með heilbrigðisstarfsmönnum á Litla-Hrauni, auk þess sem málið hefur ítrekað verið rætt á yfirmannafundum á Litla-Hrauni, með beiðni um að það verði áréttað fyrir starfsmönnum hvernig koma eigi á framfæri beiðnum fanga um læknisaðstoð.“

Með bréfi fangelsismálastofnunar fylgdi afrit af tölvupósti forstöðumanns Litla-Hrauns til forstjóra fangelsismálastofnunar, dags. 29. janúar 2004, þar sem segir meðal annars eftirfarandi:

„Þegar fangi óskar að ná tali af geðlækni fangelsisins byrjar hann á að skrá sig á lista hjá hjúkrunarfræðingi sem skráir hann síðan á lista hjá heimilislæknum. Þeir ákveða síðan í framhaldi af viðtali við fangann hvort þörf er á viðtali við geðlækni. Í bráðatilvikum utan venjulegs vinnutíma er haft samband við lækna fangelsisins sem taka ákvörðun um það hvort vísa skuli málinu til geðlæknis.“