Hæfi. Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 12509/2023)

Í kvörtun var hæfi orkumálastjóra til að annast tiltekin lögbundin verkefni Orkustofnunar á grundvelli raforkulöggjafar auk annarra stjórnsýsluverkefna dregið í efa vegna ummæla hennar sem birst höfðu í fjölmiðlum. 

Ekki varð fyllilega ráðið af kvörtuninni hvort hún beindist að almennu hæfi orkumálastjóra eða að sérstöku hæfi hennar til meðferðar einstakra mála. Að því marki sem kvörtunin beindist að almennu hæfi hennar taldi umboðsmaður rétt að fyrst yrði leitað með athugasemdir til ráðherra áður en hann fjallaði um kvörtunina. Lyti kvörtunin hins vegar að hæfi orkumálastjóra til meðferðar tiltekins eða tiltekinna mála sem væri ólokið benti umboðsmaður á að þótt í stjórnsýslulögum væri ekki fjallað sérstaklega um hvort og þá með hvaða hætti málsaðili gæti krafist þess að starfsmaður eða nefndarmaður viki sæti við meðferð máls orkaði ekki tvímælis að hann ætti rétt á því að skorið væri úr um hæfi þeirra sem fengið hefði verið það hlutverk að leysa úr máli hans. Þar af leiðandi mætti óska eftir því við stofnunina að skorið yrði úr hæfi viðkomandi í samræmi stjórnsýslulög. Þá væri hægt að leita til umboðsmanns vegna ákvarðana sem þegar lægju fyrir að því gefnu að fullnægt væri skilyrðum laga til meðferðar kvörtunar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. janúar 2024.

   

   

Vísað er til kvörtunar A 13. desember sl. er lýtur að hæfi orkumálastjóra til að annast tiltekin lögbundin verkefni Orkustofnunar á grundvelli raforkulöggjafar auk annarra stjórnsýsluverkefna. Í kvörtuninni er vikið að álitaefnum í tengslum við lögbundið hlutverk Orkustofnunar, einkum um inntak ráðgjafarhlutverks hennar, sbr. 1. og 4. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 87/2003 um Orkustofnun, og hvernig það samrýmist leyfis- og eftirlitshlutverki stofnunarinnar á grundvelli raforkulaga nr. 65/20023. Í kvörtuninni kemur einnig fram að A telji að orkumálastjóri hafi látið í ljós gildishlaðnar skoðanir á opinberum vettvangi um tiltekna raforkunotendur og starfsemi þeirra sem kunni að vekja upp álitamál í tengslum við hæfi til þess að sinna vissum stjórnsýsluverkefnum. Kvörtuninni fylgdu tilvísanir í ummæli orkumálastjóra sem m.a. hafa birst í fjölmiðlum á undanförnum árum.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um Orkustofnun heyrir stofnunin undir yfirstjórn umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Samkvæmt 5. gr. laganna skipar ráðherra forstöðumann stofnunarinnar, orkumálastjóra, til fimm ára í senn og fer hann með stjórn og daglegan rekstur stofnunarinnar. Í framangreindu felst m.a. að stofnunin lýtur yfirstjórn og eftirliti ráðherra sem hefur viss stjórnunarúrræði gagnvart stofnuninni og fer með aga- og veitingarvald gagnvart forstjóra hennar.

Að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli hafa tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem verið hafa á fyrri afskiptum af máli, og eftir atvikum ákvörðunum þeirra, sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til aðila eins og umboðsmanns, sem stendur utan stjórnkerfis þeirra, með kvartanir. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður almennt talið að þegar ráðherra fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir sé rétt að hann fái tækifæri til að fjalla um mál og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum sem hann hefur áður en mál er tekið til athugunar á grundvelli kvörtunar. Er þá horft til þess að ráðherra getur á þessum grundvelli gefið forstöðumanni bindandi fyrirmæli um starfshætti stofnunar.

Ástæða þess að ég rek framangreint er að af kvörtun yðar verður ekki fyllilega ráðið hvort athugasemdir A beinist að almennu hæfi orkumálastjóra eða að sérstöku hæfi hennar til meðferðar einstakra mála. Að því marki sem kvörtunin beinist að almennu hæfi hennar tel ég rétt, að framangreindu gættu, að samtökin leiti fyrst með athugasemdir sínar til ráðherra áður en ég fjalla um kvörtunina. Ef samtökin telja sig ekki fá viðunandi úrlausn með þeim hætti er þeim að sjálfsögðu unnt að leita til umboðsmanns á ný og verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki málefnið getur komið til athugunar af hálfu umboðsmanns.

Lúti kvörtunin hins vegar að hæfi orkumálastjóra til meðferðar tiltekins eða tiltekinna mála sem er ólokið bendi ég á að þótt í stjórnsýslulögum sé ekki fjallað sérstaklega um hvort og þá með hvaða hætti málsaðili geti krafist þess að starfsmaður eða nefndarmaður víki sæti við meðferð máls orkar ekki tvímælis að hann á rétt á því að skorið sé úr um hæfi þeirra sem fengið er það hlutverk að leysa úr máli hans. Ef fyrirtæki innan A telur orkumálastjóra eða aðra starfsmenn Orkustofnunar vanhæfa til þess að koma að afgreiðslu máls getur það þ.a.l. óskað eftir því við stofnunina að skorið verði úr hæfi viðkomandi í samræmi við 5. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá tek ég fram að liggi þegar fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi af hálfu Orkustofnunar gagnvart einstökum aðilum að samtökunum sem viðkomandi telja fela í sér rangsleitni í sinn garð, er þeim jafnframt unnt, eða samtökin fyrir þeirra hönd, að leggja fram kvörtun þar að lútandi, að því gefnu að fullnægt sé skilyrðum 6. gr. laga nr. 85/1997, þ.m.t. samkvæmt framangreindri 3. mgr. lagagreinarinnar um nýtingu kæruleiða í stjórnsýslunni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið læt ég athugun minni á kvörtun A lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.