Starfsmaður stofnunar kvartaði yfir því að hafa ekki fengið að taka þátt í starfsmannafundi þar sem hann vildi ekki mæta á fundinn með flugi heldur keyra bíl í eigu stofnunarinnar því það væri umhverfisvænna. Stofnunin kvaðst þurfa að taka fleira með í reikninginn eins og kostnað og vinnutap en ekki aðeins kolefnisspor. Því var beiðninni um að keyra á fundinn hafnað og viðkomandi mætti þá ekki.
Umboðsmaður benti á að forstöðumenn hefðu ríkt svigrúm til að skipuleggja störf starfsmanna sinna sem lyti þó ákveðnum takmörkunum, s.s. á grundvelli stjórnsýslulaga þegar teknar væru stjórnvaldsákvarðanir sem beindust að starfsmönnum. Af kvörtuninni varð hins vegar ekki ráðið að fjarvera af fundinum hefði haft tilteknar afleiðingar við starfsmanninn eða að tekin hefði verið stjórnvaldsákvörðun í máli hans að öðru leyti. Enn fremur væri ekki að sjá að hann hefði verið beittur rangsleitni af hálfu opinbers aðila í tengslum við fundinn. Umboðsmaður tók því fram að almennt væri það ekki hlutverk hans að hlutast til um hvernig stofnanir haga fundarhaldi sínu eða innra skipulagi að öðru leyti. Af því leiddi að almennt væri ekki gert ráð fyrir að einstaka starfsmenn innan stjórnsýslunnar gætu leitað beint til umboðsmanns til að leysa ágreining um hvort og þá hvernig viðkomandi starfsmaður ætti að inna af hendi þau verkefni sem honum hefðu verið falin. Lét umboðsmaður því athugun sinni lokið.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. janúar 2024.
Vísað er til kvörtunar yðar 5. desember 2023 yfir því að hafa ekki fengið að taka þátt í starfsmannafundi á vegum X, [...], í nóvembermánuði þess árs.
Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni og gögnum málsins var yður boðið að mæta á téðan fund með flugi austur á land. Með hliðsjón af umhverfissjónarmiðum og því að flug sé sá farkostur sem hefur stærsta kolefnissporið höfnuðuð þér því að mæta á fundinn með flugi og óskuðuð í kjölfarið eftir því að fá að keyra einn af rafmagnsbílum stofnunarinnar. Beiðni yðar var hafnað m.a. með vísan til þess að þótt stofnunin hefði kolefnisfótspor ávallt í huga væri ekki eingöngu hægt að horfa til þessa við skipulagningu funda. Akstur fram og til baka austur á land taki 2 daga með tilheyrandi kostnaði og vinnutapi og því hafi ekki verið hægt að fallast á beiðni yðar. Af þeim sökum mættuð þér ekki á fundinn.
Í tilefni af framangreindu tel ég rétt að benda á að í almennum stjórnunarheimildum forstöðumanns felst vald til þess að skipuleggja starfsemi, vinnufyrirkomulag, skilgreina starfslýsingar og ákveða hvernig störfum er fyrirkomið í skipuriti stofnunar nema annað leiði af skráðum eða óskráðum reglum. Þá eru ákvarðanir yfirmanna um hvernig beri að haga störfum hjá stofnun og leysa tiltekin verkefni af hendi ákvarðanir sem lúta almennt að innri málefnum hennar og teljast ekki stjórnvaldsákvarðanir. Þótt stjórnunarheimildir forstöðumanna veiti þeim ríkt svigrúm til að skipuleggja störf starfsmanna sinna lúta þær þó ákveðnum takmörkunum. Í frumvarpi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er tekið fram að ákvarðanir um skipun, setningu og ráðningu opinberra starfsmanna, svo og lausn þeirra frá störfum og brottvikning þeirra teljist stjórnvaldsákvarðanir. Það sama eigi við um ákvarðanir stjórnvalda um að beita opinbera starfsmenn stjórnsýsluviðurlögum og frádrætti launa vegna ólögmætra fjarvista frá vinnu (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3283-3284). Þannig teljast tilteknar ákvarðanir sem varða mjög mikilsverð réttindi og skyldur opinberra starfsmanna stjórnvaldsákvarðanir þó að þær lúti í eðli sínu að skipulagi og störfum hjá stjórnvaldinu.
Þá eru einnig dæmi þess að ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og teljast almennt ekki stjórnvaldsákvarðanir séu það gagnvart tilteknum starfsmanni að ákveðnum skilyrðum fullnægðum. Má þar t.d. nefna að ákvarðanir um breytingar á störfum og verksviði starfsmanna ríkisins, sbr. 19. gr. laga nr. 70/1996, teljast almennt ekki stjórnvaldsákvarðanir nema breytingin hafi jafnframt í för með sér skerðingu á launakjörum eða öðrum mikilsverðum réttindum starfsmanns. Þá eru ákvarðanir forstöðumanna um að áminna starfsmann vegna brota á starfsskyldum þeirra stjórnvaldsákvörðun, sbr. 21. gr. sömu laga.
Ástæða þess að framangreint er rakið er að af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að fjarvera yðar á téðum fundi hafi haft tilteknar afleiðingar fyrir yður eða að tekin hafi verið stjórnvaldsákvörðun í máli yðar að öðru leyti. Enn fremur er ekki að sjá að þér hafið verið beittur rangsleitni af hálfu opinbers aðila í tengslum við téðan fund.
Rétt er að taka fram að það er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir tilgreind ákvæði laganna, geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í samræmi við þetta er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðsmanns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar. Það er hins vegar almennt ekki hlutverk umboðsmanns að hlutast til um hvernig stofnanir haga fundarhaldi sínu eða innra skipulagi að öðru leyti, sbr. einnig framangreind umfjöllun um stjórnunarrétt forstöðumanna stjórnvalda. Af framangreindu leiðir jafnframt að það er almennt ekki gert ráð fyrir að einstaka starfsmenn innan stjórnsýslunnar geti leitað beint til umboðsmanns til að leysa ágreining um hvort og þá hvernig viðkomandi starfsmaður eigi að inna af hendi þau verkefni sem honum hafa verið falin.
Með vísan til þess sem að framan greinir og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég athugun minni vegna kvörtunar yðar lokið.