Opinberir starfsmenn. Framkoma opinberra starfsmanna.

(Mál nr. 12355/2023)

Kvartað var yfir viðbrögðum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna athugasemda við framkomu tiltekins starfsmanns hennar.  

Af gögnum málsins var ljóst að brugðist hafði verið við athugasemdunum, m.a. með tölvupósti þáverandi forstjóra heilsugæslunnar til viðkomandi og með bréfi fyrir hönd stjórnar heilsugæslunnar. Gáfu svörin til kynna að litið yrði til ábendinganna og rætt yrði við starfsmanninn. Umboðsmaður taldi því ekki forsendur til að gera athugasemdir við málsmeðferðina.  

Í kvörtuninni voru jafnframt gerðar almennar athugasemdir við ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins en þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til lagasetningar Alþingis voru ekki skilyrði til að fjalla frekar um það.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. janúar 2024.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 4. september 2023, sem lýtur að viðbrögðum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna athugasemda yðar við framkomu tiltekins starfsmanns hennar í yðar garð. Verður ráðið að samskipti yðar við umræddan starfsmann hafi átt sér stað í janúar 2022 og þau lotið að ákveðnu verkefni sem þér unnuð fyrir heilsugæsluna. Áttu samskiptin sér stað eftir að verkefninu var lokið. Í kjölfar atviksins komuð þér athugasemdum á framfæri, m.a. við stjórn heilsugæslunnar. Fyrir liggur að þér upplýstuð heilbrigðisráðuneytið um atvikið, og fenguð þau svör að ráðuneytið teldi ekki ástæðu til að bregðast frekar við kvörtuninni.

Í tilefni af kvörtun yðar til umboðsmanns var Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ritað bréf 5. október 2023. þar sem óskað var eftir að umboðsmanni yrðu afhent afrit allra fyrirliggjandi gagna sem lytu að þeim athugasemdum sem þér komuð á framfæri vegna atviksins. Jafnframt þess óskað að veittar yrðu upplýsingar um viðbrögð heilsugæslunnar við þeim og aðrar þær upplýsingar sem heilsugæslan teldi að gætu varpað ljósi á málið. Svarbréf og gögn bárust 6. nóvember sl.

  

II

Kvartanir sem lúta að því hvernig einstakir starfsmenn í stjórnsýslunni rækja skyldur sínar verða almennt bornar undir þann sem fer með agavald gagnvart viðkomandi starfsmanni, sem fær þá tækifæri til að fjalla um málið og taka afstöðu til þess hvort tilefni sé fyrir hann að bregðast við gagnvart starfsmanninum. Þegar gerðar eru athugasemdir við störf starfsmanna í stjórnsýslu hefur stjórnvald svigrúm til að meta hvort það telji tilefni til þess að hefja stjórnsýslumál gagnvart starfsmanninum, en aðild að slíku máli hjá stjórnvaldi á almennt aðeins viðkomandi starfsmaður. Þótt þeim sem telja tilefni til sé þannig frjálst að bera fram kvartanir til þess forstöðumanns sem fer með agavald vegna háttsemi starfsmanns er það óhjákvæmilega háð mati viðkomandi forstöðumanns hvort háttsemin sé þess eðlis að tilefni sé til að beita viðurlögum á borð við áminningu eða eftir atvikum uppsögn. Athugun umboðsmanns Alþingis á málum af framangreindum toga beinist einkum að því hvort stjórnvald hafi gætt að viðeigandi málsmeðferðarreglum og dregið forsvaranlegar ályktanir af atvikum.

Af gögnum þeim sem bárust með kvörtun yðar er ljóst að brugðist var við athugasemdum yðar m.a. með tölvubréfi þáverandi forstjóra heilsugæslunnar til yðar í ágúst 2022 og með bréfi fyrir hönd stjórnar heilsugæslunnar til yðar 12. október þess árs. Gáfu svörin til kynna að litið yrði til ábendinga yðar og rætt yrði við þann starfsmann sem kvartað var undan.

Í svari Heilsugæslunnar vegna fyrirspurnar umboðsmanns kemur m.a. fram að í kjölfar þess að þér komuð athugasemdum á framfæri með bréfi 20. febrúar 2022 hafi forstjóri heilsugæslunnar átt fund með umræddum starfsmanni í þeim tilgangi að athuga hvort starfsmaðurinn kynni að hafa brotið gegn skyldum sem á henni hvíldu sem starfsmanni stofnunar á grundvelli laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í kjölfar skoðunar á atvikum máls hafi það verið afstaða forstjóra heilsugæslunnar að ekki væru forsendur til að halda málinu áfram í þeim skilningi að til álita kæmu úrræði gagnvart starfsmanni vegna brota á ákvæðum laga nr. 70/1996. Í bréfinu er jafnframt gerð grein fyrir því að í mars 2023 hafi framkvæmdastjóri mannauðs og nýliðunar hjá heilsugæslunni mætt á fund með yður þar sem efni bréfsins frá 12. október 2022 hafi m.a. verið rætt. Í kjölfar þess hafi af hálfu heilsugæslunnar verið litið svo á að málinu væri lokið að því leyti sem það sneri að umræddu atviki.

Að teknu tilliti til þess sem að framan hefur verið rakið tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá málsmeðferð sem átti sér stað eða þau svör sem þér fenguð vegna kvörtunar yðar né viðbrögð Heilsugæslunnar að öðru leyti.

  

III

Í kvörtun yðar gerið þér jafnframt almennar athugasemdir við ákvæði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Af því tilefni er rétt að benda á að starfssvið umboðsmanns, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði. Brestur því lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að því marki sem hún lýtur með almennum hætti að ákvæðum umræddra laga.

  

IV

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.