Skattar og gjöld.

(Mál nr. 12535/2023)

Kvartað var yfir kílómetragjaldi sem lagt var á vegna aksturs rafmagnsbíla. Ósamræmi væri milli þeirrar álagningar annars vegar og hins vegar vegna stærri ökutækja á borð við vörubifreiðar.  

Ekki varð ráðið af kvörtuninni að beindist að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds gagnvart viðkomandi né hefði álagningin verið borin undir ríkisskattstjóra eða eftir atvikum yfirskattanefnd. Með hliðsjón af því sem og að erindið laut í grunninn að lagasetningu Alþingis voru ekki skilyrði til að taka kvörtunina til athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. janúar 2024.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 30. desember sl. sem lýtur að kílómetragjaldi sem lagt er á vegna aksturs rafmagnsbíla. Fram kemur að þér teljið ósamræmi í því hvernig álagningu er háttað hvað varðar rafmagnsbíla annars vegar en hins vegar stærri ökutæki á borð við vörubifreiðar. Engin löggilding eða innsiglun fari fram í tilviki fyrrnefndu bifreiðanna en það sé hins vegar gert í tengslum við álagningu gjalds vegna aksturs þeirra síðarnefndu.

Um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða gilda samnefnd lög nr. 101/2023 sem samþykkt voru á Alþingi þann 16. desember 2023. Í lögunum segir í 1. mgr. 10. gr. að ríkisskattstjóri annist álagningu kílómetragjalds og innheimtumenn ríkissjóðs annist innheimtu gjaldsins. Þá er álagning gjalds samkvæmt lögunum kæranleg til ríkisskattstjóra og kæra má úrskurð ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar samkvæmt 1. og 2. mgr. 19. gr. laganna.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir ákvæði 1. eða 2. mgr. 3. gr. laganna, kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið. Þá er samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð í málinu. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Umboðsmaður Alþingis fjallar því að jafnaði ekki um mál liggi ekki fyrir afstaða stjórnvalda til þess. Loks er athygli yðar vakin á því að starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Samkvæmt því er að jafnaði ekki í verkahring umboðsmanns að láta í ljós álit sitt á því hvernig til hefur tekist með löggjöf Alþingis.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að hún beinist að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds gagnvart yður í framangreindum skilningi. Þá ber kvörtunin ekki með sér að þér hafið borið álagningu kílómetragjalds samkvæmt lögum nr. 101/2023 undir ríkisskattstjóra eða eftir atvikum yfirskattanefnd. Með hliðsjón af þessu, sem og að erindi yðar lýtur í grunninn að því fyrirkomulagi sem löggjafinn hefur valið álagningu kílómetragjalds samkvæmt lögunum, tel ég ekki uppfyllt skilyrði til að taka kvörtun yðar til athugunar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég athugun minni í tilefni af kvörtun yðar.