Opinberir starfsmenn. Framkoma opinberra starfsmanna. Styrkveitingar. Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Fundarbeiðni.

(Mál nr. 12443/2023)

Kvartað var yfir félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og Vinnumálastofnun gagnvart tilteknum samtökum.  

Þar sem athugasemdir um starfshætti Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála og Vinnumálastofnunar höfðu ekki verið bornar undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þann þátt kvörtunarinnar. Hvað snerti afgreiðslu ráðuneytisins á beiðni um upplýsingar var ekki tilefni til að aðhafast sérstaklega því samtökin höfðu þegar fengið leiðréttingu mála sinna að því leyti innan stjórnsýslunnar. Um fundi með ráðherra benti umboðsmaður á að ráðherra bæri ekki skylda til að rökstyðja sérstaklega ákvarðanir sínar um fundi eða viðtöl við borgarana og því ekki tilefni til að taka það atriði til frekari athugunar. Þá var kvartað yfir að ráðuneytið hefði áætlað að styrkveiting héldist  í hendur við endurnýjun á þjónustusamningi en fyrir því væri ekki lagastoð. Í ljósi þess að kvörtunin bar með sér að ráðuneytið hafði horfið frá þessum fyrirætlunum um tengingu styrksins við þjónustusamning og greitt hann var ekki tilefni til að taka það til sérstakrar athugunar. Að lokum skorti gögn með kvörtuninni til að fjalla um nánar tilgreint kvörtunarefni auk þess sem það laut fullyrðingum um huglæga afstöðu sem væri verulegum takmörkunum háð fyrir umboðsmann að fjalla um.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. janúar 2024.

  

     

I

Vísað er til kvörtunar yðar 2. október 2023 f.h. félagasamtakanna A sem þér beinið að félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og Vinnumálastofnun. Kvartið þér yfir athöfnum framangreindra stjórnvalda gagnvart A frá og með haustmánuðum 2021.

Að því marki sem kvörtun yðar beinist gegn félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu verður ráðið af hún lúti að afgreiðslu ráðuneytisins í október og nóvember 2021 á upplýsingabeiðni yðar f.h. A, fyrirætlunum þess á árinu 2023 í tengslum við afgreiðslu fjárstyrks til A og örðugleikum við að fá áheyrn á fundi hjá félags- og vinnumarkaðsráðherra. Þá gerið þér athugasemdir við viðbrögð ráðuneytisins við athöfnum félagsmanna A á föstudögum í nóvember og desember 2022, m.a. við húsnæði ráðuneytisins, svo og önnur atriði sem þér teljið benda til illvilja eða fordóma opinberra starfsmanna í garð samtakanna og félagsmanna þeirra.

Viðvíkjandi Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála verður ráðið að kvörtunin beinist að framkvæmd úttektar stofnunarinnar á starfsemi A og upplýsingagjöf stofnunarinnar um starfsemi félagasamtakanna til velferðarsviða Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar í janúar 2023. Þá teljið þér að stofnunin hafi gagnvart A farið út fyrir hlutverk sitt eins og það er skilgreint í 3. gr. laga nr. 88/2021 um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Hvað snertir Vinnumálastofnun verður ráðið að þér kvartið yfir því að stofnunin hafi óskað eftir aðkomu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála að endurnýjuðum þjónustusamningi við A. Teljið þér að um ólögmætt valdframsal hafi verið að ræða.

  

II

Samkvæmt d-lið 2. töluliðar 3. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, fer félags- og vinnumarkaðsráðuneytið með málefni Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Á grundvelli liðar bb í 4. tölulið 3. gr. forsetaúrskurðarins eins og honum var breytt með forsetaúrskurði nr. 2/2023, fer ráðuneytið jafnframt með málefni Vinnumálastofnunar.

Ástæða þess að þetta er tekið fram er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þetta ákvæði er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður almennt talið rétt að það æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um mál og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum áður en umboðsmaður tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar og þá einnig í þeim tilvikum þar sem afstaða þess til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið borið athugasemdir yðar f.h. A um starfshætti Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála og Vinnumálastofnunar undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Í ljósi þess eftirlitshlutverks sem félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur undir höndum á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda sinna og með vísan til framangreindra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég rétt að þér freistið þess að bera athugasemdir í kvörtun yðar um háttsemi framangreindra stjórnvalda undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið áður en þér leitið til umboðsmanns Alþingis með kvörtun vegna þeirra.

  

III

Hvað snertir afgreiðslu ráðuneytisins á upplýsingabeiðni yðar 6. október 2021 f.h. A um aðgang að tiltekinni greinargerð, liggur fyrir að með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 29. ágúst 2022 var félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu gert skylt að veita yður f.h. A aðgang að umræddri greinargerð að því tilskildu að tilteknar upplýsingar yrðu fyrst afmáðar en úrskurður nefndarinnar fylgdi kvörtuninni. Þar sem ekki verður ráðið að gerðar séu athugasemdir við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, heldur eingöngu afgreiðslu ráðuneytisins á beiðni yðar, og í ljósi þess að A hefur þegar fengið leiðréttingu mála sinna að þessu leyti innan stjórnsýslunnar tel ég ekki tilefni til að aðhafast sérstaklega vegna þessa atriðis.

  

IV

Í kvörtun yðar er því lýst að eftir að núverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra tók við embætti sínu 28. nóvember 2021 hafi A margsinnis óskað eftir að fá fund með ráðherranum án árangurs. Verður ráðið að ráðherra hafi aðeins í eitt skipti orðið við slíkri beiðni og boðið formanni félagsins til fundar í maí 2023. Gerið þér athugasemdir við viðbrögð ráðherrans og ráðuneytis hans við beiðnum samtakanna um fundi svo og efnistök á fundi formannsins með ráðherra. Byggið þér á því að framangreind atvik hafi falið í sér brot gegn réttmætisreglu, jafnræðisreglu og vönduðum stjórnsýsluháttum.

Af því tilefni tek ég fram að það er meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald á almennt rétt á að fá skriflegt svar nema svars sé ekki vænst. Það ræðst hins vegar af eðli erindis og málsatvika að öðru leyti hvaða kröfur verða leiddar af lögum og vönduðum stjórnsýsluháttum til þeirra svara sem stjórnvöld veita erindi borgaranna. Í tilefni af kvörtuninni tel ég þó rétt að benda yður á að af reglum stjórnsýslu­réttarins leiðir almennt ekki að einstaklingar eða lögaðilar eigi fortakslausan rétt til að velja sér við hvaða starfsmenn eða em­bættismenn, þ. á m. ráðherra, þeir eiga samskipti vegna umleitana sinna. Stjórnvaldi er þannig að öllu jöfnu í sjálfsvald sett hvort orðið er við ósk um aðstoð tiltekins starfs­manns eða fund með ráðherra, að því tilskildu að gætt sé að leiðbeiningarskyldu, ef hún á við, og starfsmaðurinn sem veitir leiðbeiningar eða aðstoð búi yfir fullnægjandi þekkingu til að leysa það verkefni réttilega af hendi. Almennt er það ráðherra að meta hvort hann veitir sjálfur viðtal vegna máls sem heyrir undir málefnasvið ráðuneytis hans. Þar sem ekki verður leidd af lögum skylda ráðherra til að rökstyðja sérstaklega ákvarðanir hans um fundi eða viðtöl við borgarana tel ég ekki tilefni til að taka þetta atriði í kvörtun yðar til frekari athugunar.

  

V

Í kvörtun yðar er þá tekið fram að meiri hluti fjárlaganefndar hafi í nefndaráliti sínu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023 sem lagt var fyrir Alþingi 5. desember 2022 lagt til að veita A 10 m. kr. tímabundið framlag til almenns reksturs undir lið 32.40 sem tók til stjórnsýslu félagsmála. Hafi samtökin í kjölfar þessa ítrekað spurst fyrir hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu um fjárveitinguna. Hafi skrifstofustjóri ráðuneytisins loks upplýst um að ráðuneytið áætlaði að styrkveitingin héldist í hendur við endurnýjun á þjónustusamningi samtakanna og Vinnumálastofnunar. Lúta athugasemdir yðar einkum að því að téðar fyrirætlanir ráðuneytisins hafi skort lagastoð.

Í ljósi þess að kvörtun yðar ber með sér að ráðuneytið hafi horfið frá framangreindum fyrirætlunum um tengingu styrkveitingarinnar við þjónustusamning A og gengið frá greiðslu styrksins 16. maí 2023 tel ég ekki tilefni til þess að ég taki framangreind atvik sérstaklega til athugunar með tilliti til þeirra athugasemda sem þér gerið við fyrirhugaða málsmeðferð ráðuneytisins og óorðin atvik í kvörtun yðar. Er þá einnig höfð hliðsjón af því að engra gagna nýtur við um þetta atriði í kvörtun yðar.

  

VI

Af kvörtun yðar verður að lokum ráðið að þér gerið athugasemdir við viðbrögð félags- og vinnumarkaðsráðherra og ráðuneytis hans við nánar tilgreindum athöfnum félagsmanna A í nóvember og desember 2022 við húsnæði ráðuneytisins. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér gerið aðallega athugasemdir við viðbrögð ráðuneytisins við fyrirætlunum félagsmanna A um fjórða og síðasta gjörninginn sem munu m.a. hafa falist í því að útbúin hafi verið gjöf til ráðherra. Hafi staðið til að félagsmenn gengju að ráðuneytinu og afhentu ráðherra gjöfina. Hafi samtökunum hins vegar borist skilaboð áður en lagt var af stað þar sem þess hafi verið óskað að ekki yrði látið verða af þessum fyrirætlunum, þar sem þær væru til þess fallnar að valda ótta innan ráðuneytisins. Gerið þér í kvörtuninni athugasemdir við þessi viðbrögð ráðuneytisins.

Þau skilaboð sem þér hafið vísað til, þar sem þér kveðið félagsmenn A hafa verið beðna að láta af fyrirætlunum sínum um framangreindan gjörning, eru ekki meðal gagna kvörtunar yðar. Ekki er heldur greint frá því í kvörtuninni frá hverjum þau stöfuðu né heldur nánara inntaki þeirra, þó að helst verði ráðið að þau hafi borist samtökunum frá starfsmanni félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Í ljósi þeirra heimilda sem lög nr. 85/1997 veita umboðsmanni til athugunar á þeim kvörtunum sem berast er ljóst að það er verulegum takmörkunum háð að fjalla um fullyrðingar um huglæga afstöðu opinberra starfsmanna án þess að frekari gagna njóti við. Eru því ekki forsendur fyrir mig til að taka afstöðu til þess sem kemur fram í kvörtun yðar um afstöðu starfsfólks ráðuneytisins gagnvart félagsmönnum A. Þá tel ég þetta atriði málsins ekki gefa tilefni til frekari athugunar umboðsmanns.

Með vísan til sömu sjónarmiða tel ég heldur ekki tilefni til að fjalla nánar um fullyrðingar yðar í kvörtuninni í þá veru að skrifstofustjóra félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins hafi verið í nöp við A og stjórnendur þess eða þær upplýsingar sem þér kveðið A hafa undir höndum um að hún sé vinkona félags- og vinnumarkaðsráðherra og tiltekins starfsmanns Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Þá á hið sama við um tilvísun yðar til atvika sem þér kveðið hafa átt sér stað á fundi hjá Vinnumálastofnun ótilgreindan dag í desembermánuði 2021 eða 2022 þar sem skrifstofustjóri ráðuneytisins mun hafa verið viðstödd.

  

VII

Í samræmi við framangreint lýk ég hér með umfjöllun minni um málið, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.