Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 12520/2023)

Kvartað var yfir því að úrskurðarnefnd upplýsingamála hefði ekki kveðið upp úrskurð vegna kæru.

Í svari nefndarinnar til umboðsmanns kom fram að málið væri 17. elsta í málaskrá hennar, að jafnaði væru þau afgreidd í tímaröð og drög að úrskurði væru í vinnslu. Stefnt væri að því að ljúka málinu í febrúar og taldi umboðsmaður því ekki ástæðu til að aðhafast frekar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. janúar 2024.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A og B yfir því að ekki hafi verið kveðinn upp úrskurður af hálfu úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna kæru umbjóðenda yðar sem lögð hafi verið fram 28. júní 2023 (málsnr. [...]).

Í tilefni af kvörtuninni var úrskurðarnefndinni ritað bréf 22. desember sl. þar sem þess var óskað að nefndin upplýsti umboðsmann um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Í svari nefndarinnar 9. janúar sl., sem fylgir hjálagt með í ljósriti, segir að málið sé hið 17. elsta í málaskrá hennar. Að jafnaði afgreiði nefndin mál í tímaröð og að drög að úrskurði séu nú í vinnslu. Stefnt sé að því að málinu verði lokið fyrir lok febrúarmánaðar.

Í ljósi þess sem fram hefur komið um framvindu málsins tel ég ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega vegna kvörtunar yðar að svo stöddu. Læt ég því athugun minni vegna kvörtunar yðar lokið með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Standist áform nefndarinnar ekki eða ef frekari og óhæfilegar tafir verða á meðferð málsins geta A og B, eða þér fyrir þeirra hönd leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.