Fjármála- og tryggingastarfsemi.

(Mál nr. 12528/2023)

Kvartað var yfir Landsbankanum hf.  vegna synjunar við umsókn fyrirtækis um stofnun bankareiknings.  

Landsbankinn hf. telst einkaréttarlegur aðili og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina. Var viðkomandi bent á að mögulega mætti beina athugasemdum til Fjármálaeftirlitsins.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. janúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 25. desember sl. sem beinist að Landsbankanum hf. og lýtur að synjun bankans við umsókn fyrirtækis yðar um stofnun bankareiknings. Verður ráðið af kvörtuninni að umsókninni hafi verið synjað með vísan til laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 3. gr. sömu laga kemur fram að undir starfssvið umboðsmanns falli ríki og sveitarfélög en að það nái einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ástæða þess að yður er bent á þetta er að Landsbankinn hf. er hlutafélag og fjármálafyrirtæki sem starfar á grundvelli laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og telst því einkaréttarlegur aðili. Sem slíkur fellur hann að jafnaði utan starfssviðs umboðsmanns í samræmi við ofangreind ákvæði laga nr. 85/1997. Sú háttsemi sem kvörtun yðar beinist að felur ekki í sér stjórnsýslu í ofangreindum skilningi enda er ekki í henni fólgin beiting opinbers valds sem félaginu hefur verið fengið með lögum eða ákvörðunar­taka á þeim grundvelli. Það fellur því utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um þá starfsemi félagsins sem kvörtun yðar lýtur að.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Athygli yðar er vakin á því að Fjármálaeftirlitið skal samkvæmt lögum fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila, m.a. viðskiptabanka, spari­sjóða og lánafyrirtækja, sé í samræmi við lög og reglur sem um starf­semina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heil­brigða og eðlilega viðskiptahætti, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftir­lit með fjármálastarfsemi. Yður kann því að vera fært að beina athugasemdum yðar til framangreinds stjórnvalds. Með þessari ábendingu hefur þó engin afstaða verið tekin til þess hvort tilefni sé fyrir yður til að gera það.