Kvartað var yfir kílómetragjaldi sem lagt var á vegna aksturs tengiltvinnbíla þar sem bifreiðin sem um ræddi væri einungis til notkunar með bensíni en ekki rafmagni.
Með hliðsjón af því sem og að erindið laut í grunninn að lagasetningu Alþingis voru ekki skilyrði til að taka kvörtunina til athugunar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. janúar 2024.
Vísað er til kvörtunar yðar 10. janúar sl. en af henni verður ráðið að þér séuð ósáttir við að greiða þurfi nánar tilgreint kílómetragjald á tengiltvinnbíla þegar bifreiðin sem um ræðir er einungis til notkunar með bensíni en ekki rafmagni.
Með lögum nr. 101/2023, um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða, er tilteknum hópi bifreiðaeigenda gert skylt að greiða til ríkissjóðs kílómetragjald af akstri bifreiða. Í 2. gr. téðra laga er afmarkað nánar, í þremur töluliðum, hvaða bifreiðar eru gjaldskyldar samkvæmt lögunum. Þar segir í 2. tölulið 1. mgr. að átt sé við tengiltvinnbifreið sem skráð er sem fólks- eða sendibifreið í ökutækjaskrá og fellur undir 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 101/2023 kemur fram að með tengiltvinnbifreið sé átt við bifreið sem gengur fyrir rafmagni en getur jafnframt gengið fyrir jarðefnaeldsneyti (bensín eða dísel) og hægt er að stinga í samband til að hlaða. Tengiltvinnbifreið falli þannig ekki undir flokk hreinorkubifreiða (rafmagns- eða vetnisbifreiða), þar sem tengiltvinnbifreið getur bæði nýtt jarðefnaeldsneyti og rafmagn sem orkugjafa (Alþt. 154 löggjþ. 2023-2024, þskj. 574 – 507. mál).
Ástæða þess að framangreint lagaákvæði er rakið er sú að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Í okkar réttarkerfi er almennt álitið að það sé hlutverk dómstóla að skera úr um slík atriði. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði. Af kvörtun yðar, eins og hún er fram sett, verður ekki annað ráðið en að hún lúti aðallega að atriðum sem tekin var skýr afstaða til með lögum. Með vísan til framangreinds eru því ekki uppfyllt skilyrði til að taka kvörtun yðar til meðferðar að því marki sem hún lýtur að því að yður hafi verið mismunað með ólögmætum hætti.
Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.