Skipulags- og byggingarmál. Sveitarfélög. Samningar.

(Mál nr. 12499/2023)

Kvartað var yfir umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar vegna umferðarmerkis sem sett hafði verið upp nálægt fasteign viðkomandi og hann gat ekki fellt sig við.  

Samkvæmt kvörtuninni hafði starfsmaður Reykjavíkurborgar upplýst um þá efnislegu afstöðu sveitarfélagsins að sá umferðarréttur sem leiddi af lóðarleigusamningi vegna fasteignarinnar fæli ekki í sér rétt til umferðar vélknúinna ökutækja eða lagningar þeirra á umræddu svæði. Ágreiningur þessi beindist því að verulegu leyti að einkaréttarlegum atriðum um túlkun á fyrirliggjandi lóðarleigusamningi en þar kynni hefðbundin nýting lóðarinnar svo og samskipti milli eigenda fasteignarinnar og Reykjavíkurborgar að hafa þýðingu. Umboðsmaður taldi málið því þess eðlis að eðlilegra væri að fá úr því leyst fyrir dómstólum.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. janúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 10. desember 2023 sem beint er að umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar vegna umferðarmerkis sem komið hefur verið upp í nánd við heimili yðar. Krefjist þér að skipulagsyfirvöld lagfæri ástand það sem leiðir af tilkomu skiltisins og samþykki á ný umferð og lagningu ökutækja á tilteknu svæði við fasteignina að [...]. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér teljið staðsetningu framangreinds umferðarmerkis og það réttarástand sem af því leiðir fari í bága við rétt yðar til lagningar ökutækis sem þér kveðið grundvallast á lóðarleigusamningi sem vísað sé til í afsali yðar að fasteigninni.

Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að taka fram að samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Lög nr. 85/1997 eru jafnframt byggð á þeirri forsendu að um ákveðna verkaskiptingu milli dómstóla og umboðsmanns sé að ræða og að mál geti verið þannig vaxin að eðlilegra sé að leyst verði úr þeim fyrir dómstólum. Í c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 kemur fram að starfssvið umboðsmanns taki ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Þá er í c-lið 2. mgr. 10. gr. laganna tekið fram að varði kvörtun réttar­ágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.

Samkvæmt kvörtuninni mun starfsmaður Reykjavíkurborgar hafa upplýst yður um þá efnislegu afstöðu sveitarfélagsins að sá umferðarréttur sem leiði af lóðarleigusamningi vegna fasteignarinnar feli ekki í sér rétt til umferðar vélknúinna ökutækja eða lagningar þeirra á umræddu svæði. Ágreiningur þessi beinist því að verulegu leyti að einkaréttarlegum atriðum um túlkun á fyrirliggjandi lóðarleigusamningi en þar kann hefðbundin nýting lóðarinnar svo og samskipti milli eigenda fasteignarinnar og Reykjavíkurborgar að hafa þýðingu. Ég tel samkvæmt framangreindu að mál þetta sé þess eðlis að eðlilegra sé að fá úr því leyst fyrir dómstólum. Þá geta álitamál tengd afsali að fasteign yðar ekki komið til nánari umfjöllunar af hálfu umboðsmanns en samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 falla einkaréttarleg álitaefni utan starfssviðs umboðsmanns.

Samkvæmt framansögðu eru ekki skilyrði til að ég taki kvörtun yðar til frekari meðferðar og lýk ég því hér með umfjöllun minni um hana, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.