Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð. Framkoma opinberra starfsmanna.

(Mál nr. 12565/2023)

Kvartað var yfir Reykjavíkurborg og því að lögregla hefði verið kölluð til sökum þess að hópur manna sem dvaldist í gistiskýli á vegum sveitarfélagsins neitað að yfirgefa það vegna veðurs.  

Þar sem ráðstafanirnar beindust ekki að þeim sem kvartaði voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 24. janúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 22. janúar sl. sem beinist að Reykjavíkurborg og lýtur að því að 19. janúar sl. var lögregla kölluð til sökum þess að hópur manna sem dvaldist í gistiskýli á vegum sveitarfélagsins við Grandagarð neituðu að yfirgefa skýlið vegna veðurs. Teljið þér að með þessu hafi málfrelsi mannanna verið heft en samkvæmt kvörtuninni er tveimur nafngreindum mönnum nú meinaður aðgangur að skýlinu vegna þátttöku í framangreindum atvikum.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir ákvæði 1. eða 2. mgr. 3. gr. laganna, kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að ekki verður ráðið téðar ráðstafanir sveitarfélagsins og aðgerðir lögreglu hafi beinst að yður. Þá liggur ekki fyrir hvort þeir menn sem nafngreindir eru í kvörtuninni, og mun nú vera meinuð aðganga að gistiskýlinu, hafi veitt yður formlegt umboð til þess að fara með mál þeirra og þar með leggja fram kvörtun fyrir þeirra hönd til umboðsmanns. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.