Fjármála- og tryggingastarfsemi.

(Mál nr. 12550/2023)

Kvartað var yfir íbúðarláni hjá Arion banka hf.  

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til þessarar bankastarfsemi voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 24. janúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 9. janúar sl. fyrir hönd dóttur yðar. Verður sá skilningur lagður í kvörtunina að hún beinist að Arion banka hf. og lúti að íbúðarláni sem dóttir yðar tók hjá bankanum.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 3. gr. sömu laga kemur fram að undir starfssvið umboðsmanns falli ríki og sveitarfélög en að það nái einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ástæða þess að yður er bent á þetta er að Arion banki hf. er hlutafélag og fjármálafyrirtæki sem starfar á grundvelli laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og telst því einkaréttarlegur aðili. Þar sem kvörtun yðar beinist að starfsemi einkaaðila, og í ljósi framangreindra lagareglna um starfssvið umboðsmanns Alþingis, brestur lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Lýk ég því athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.