Námslán og námsstyrkir.

(Mál nr. 12537/2023)

Kvartað var yfir Menntasjóði námsmanna, málskotsnefnd sjóðsins og innheimtufyrirtæki.  

Gögn málsins báru ekki með sér að það hefði verið borið undir málskotsnefndina og því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að svo stöddu. Hvað einkafyrirtækið snerti þá tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfsemi þess.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 24. janúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 31. desember 2023 sem beinist að Menntasjóði námsmanna, málskotsnefnd sjóðsins og X ehf. Með bréfi til yðar 5. janúar sl. var þess óskað að gerð yrði nánari grein fyrir þeim ákvörðunum stjórnvalda sem kvartað var yfir og hvenær þær áttu sér stað. Frekari skýringar og gögn bárust með tölvubréfum yðar 16. og 17. janúar sl.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, skal kvörtun berast innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Ástæða þess að þetta er nefnt er að ekki verður betur séð en að kvörtun yðar beinist að hluta að ákvörðunum Menntasjóðs námsmanna og samskiptum yðar við sjóðinn sem eru utan þess frests. Hins vegar verður ráðið af kvörtuninni að hún beinist m.a. að meðferð sjóðsins á beiðni yðar um undanþágu frá greiðslum, sbr. tölvubréf yðar 16. maí 2023, sem ætla verður að sett hafi verið fram á grundvelli 1. mgr. 23. gr. laga nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þetta ákvæði byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Í samræmi við þetta, og þar sem gögn málsins bera ekki með sér að þér hafið borið málið undir málskotsnefnd, sem sker samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga nr. 60/2020 úr um það hvort ákvarðanir stjórnar Menntasjóðs námsmanna séu í samræmi við ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæli, eru ekki skilyrði til þess að ég taki kvörtun yðar til nánari skoðunar að þessu leyti að svo stöddu. Í þessu sambandi athugast að á meðal gagna málsins er tölvubréf formanns nefndarinnar sem hefur að geyma leiðbeiningar um það hvernig mál skuli borið undir nefndina í kjölfar þess að ákvörðun stjórnar Menntasjóðs námsmanna liggur fyrir.

Að því leyti sem kvörtunin varðar X ehf. og starfsfólk þess er athygli yðar vakin á því að starfssvið umboðsmanns nær samkvæmt lögum nr. 85/1997 ekki til einkaaðila heldur stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Því eru heldur ekki lagaskilyrði til þess að ég taki þennan þátt kvörtunar yðar til athugunar.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér farið þá leið að leita til stjórnar Menntasjóðs námsmanna, og eftir atvikum málskotsnefndar samkvæmt 32. gr. laga nr. 60/2020, og teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu nefndarinnar getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.