Neytendamál. Kærunefndir.

(Mál nr. 12476/2023)

Kvartað var yfir úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa sem hafnaði kröfu um niðurfellingu reiknings.  

Þar sem það fellur utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um ágreining milli seljanda og kaupanda beindust sjónir hans einvörðungu að því hvort nefndin hefði gætt skráðra og óskráðra reglna stjórnsýsluréttar, nánari reglna um störf hennar og að hún hafi að öðru leyti hagað störfum sínum í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Ekki varð annað ráðið en að nefndin hefði farið að þeim reglum sem gilda um störf hennar og taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við meðferð málsins eða ályktanir nefndarinnar. Að öðru leyti væru þær athugasemdir sem fram komu í kvörtuninni ekki þess eðlis að tilefni væri til að taka þær til nánari athugunar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 24. janúar 2024.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 24. nóvember sl. yfir úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa 21. sama mánaðar, í máli nr. 36/2023. Með úrskurðinum hafnaði nefndin kröfu yðar um niðurfellingu reiknings fyrirtækisins X ehf. að fjárhæð 122.319 kr. vegna lokunar svalahandriðs.

Með ákvæðum laga nr. 81/2019, um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, hefur kærunefnd vöru- og þjónustukaupa verið falið að úrskurða með bindandi hætti í ágreiningsmálum sem falla undir nefndina og almennt einkaaðilar, neytendur, skjóta til hennar. Þegar sleppir sérstökum ákvæðum í lögunum um málsmeðferð fyrir nefndinni fer að öðru leyti um hana samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og nánari reglum sem ráðherra setur, sbr. 2. mgr. 15. gr. og 4. mgr. 16. gr. laga nr. 81/2019. Í framkvæmd hefur að jafnaði verið litið svo á að sá ágreiningur sem upp kemur á milli seljanda og kaupanda sé einkaréttarlegur í eðli sínu og falli sem slíkur utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis, eins og það er afmarkað í 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Á hinn bóginn er nefndin hluti af stjórnsýslu ríkisins og í því ljósi beinist eftirlit umboðsmanns Alþingis með störfum nefndarinnar fyrst og fremst að því hvort kæru­nefndin hafi við úrlausn einstakra mála gætt skráðra og óskráðra reglna stjórnsýslu­réttar, nánari reglna sem settar hafa verið um störf nefndarinnar og að hún hafi að öðru leyti hagað störfum sínum í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997. Að því marki sem úrlausn nefndarinnar í einstöku máli byggist á mati á atvikum er umboðsmaður almennt ekki í stakk búinn til að taka slíkt mat til endurskoðunar enda liggi fyrir að kærunefndin hafi við þá úrlausn fylgt þeim reglum sem eftirlit umboðsmanns beinist að samkvæmt framansögðu.

Í úrskurði kærunefndarinnar var lagt til grundvallar að í verklýsingu í tilboði X ehf, sem var á meðal gagna málsins, vegna svalalokunar hefði ekki falist vinna við lokun svalahandriðs. Í úrskurðinum er jafnframt rakið að þér hafið fullyrt að hafa óskað munnlega eftir framangreindri vinnu. Hafi engar athugasemdir borist við verklýsinguna frá yður og hafið þér ekki óskað eftir því að í henni yrði greint frá því að einangrun svalahandriðs yrði hluti af verkinu. Að þessu gættu, og þar sem nefndin taldi að ekkert hefði komið fram í málinu sem benti til þess að umkrafið gjald X ehf. væri ósanngjarnt, sbr. 28. gr. laga nr. 42/2000, um þjónustukaup, var kröfum yðar hafnað.

Að því marki sem úrlausn nefndarinnar byggist á mati á aðstæðum og sönnunar­gögnum sem lögð voru fram við meðferð málsins er umboðsmaður, líkt og áður greinir, almennt ekki í stakk búinn til þess að taka slíkt sönnunarmat til endurskoðunar enda liggi fyrir að nefndin hafi við þá úrlausn fylgt þeim reglum sem um eftirlit umboðsmanns beinist að samkvæmt framansögðu. Að því virtu og eftir að hafa kynnt mér úrskurð nefndarinnar og fyrirliggjandi gögn, þ. á m. framangreinda verklýsingu, tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við meðferð málsins eða ályktanir nefndarinnar. Þá verður ekki annað ráðið en að nefndin hafi við úrlausn málsins farið að þeim reglum sem gilda um störf hennar. Að öðru leyti tel ég þær athugasemdir sem fram koma í kvörtun yðar ekki þess eðlis að tilefni sé til að taka þær til nánari athugunar.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég umfjöllun minni um málið með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.