Kvartað var yfir vistun í öryggisklefa á Litla-Hrauni og framkomu fangavarða, þ. á m. við líkamsleitir.
Þar sem ákvarðanir um líkamsleitir og vistun í öryggisklefa, hafði ekki verið lögð fyrir dómsmálaráðuneytið til umfjöllunar voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður tæki kvörtunina til skoðunar að því leyti. Hvað kvartanir yfir framkomu fangavarða snerti upplýsti umboðsmaður að hann hefði til skoðunar að taka ákveðna þætti málsins til meðferðar á grundvelli frumkvæðisheimildar sinnar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 24. janúar 2024.
Vísað er til kvörtunar yðar 17. nóvember 2023, sem lýtur að vistun yðar í öryggisklefa Fangelsisins Litla-Hrauni 5. til 7. sama mánaðar. Af kvörtuninni verður ráðið að hún beinist m.a. að framkomu fangavarða gagnvart yður meðan á vistun yðar í öryggisklefa stóð, þ. á m. við líkamsleitir.
Í tilefni af kvörtuninni var forstöðumanni fangelsisins ritað bréf 5. desember 2023 þar sem óskað var eftir upplýsingum og afritum allra gagna sem vörðuðu dvöl yðar í öryggisklefa fangelsisins umrædda daga. Svör forstöðumanns ásamt fylgigögnum bárust með bréfi 22. janúar sl. en meðfylgjandi var m.a. ákvörðun forstöðumanns um vistun yðar í öryggisklefa, dags. 3. nóvember 2023, og skýrslur vegna líkamsleita m.a. dagana 31. október og 5. nóvember þess árs.
Ákvarðanir um líkamsleit og vistun í öryggisklefa á grundvelli 70. og 76. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, eru kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins samkvæmt 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Af því leiðir að kærufrestir vegna ákvarðana um líkamsleitir 31. október og 5. nóvember 2023 og ákvörðunar um vistun í öryggisklefa 3. nóvember þess árs munu renna út innan tíðar.
Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Þar sem ekki verður ráðið af kvörtun yðar að dómsmálaráðuneytið hafi fjallað um ákvörðun forstöðumanns um vistun yðar í öryggisklefa eða ákvarðanir um líkamsleit eru ekki skilyrði að lögum að svo stöddu til þess að umboðsmaður fjalli um málið að því leyti á grundvelli kvörtunar.
Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunarinnar að því leyti sem hún snýr að ákvörðunum forstöðumanns fangelsisins um vistun í öryggisklefa 5. til 7. nóvember 2023 og líkamsleita, sbr. framangreint. Fari svo að þér berið ákvörðun forstöðumanns um vistun í öryggisklefa og/eða ákvarðanir um líkamsleitir undir dómsmálaráðuneytið og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu/niðurstöðum ráðuneytisins getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun/kvartanir þar að lútandi.
Hvað snertir þá þætti kvörtunar yðar sem lúta að háttsemi og framkomu fangavarða gagnvart yður tel ég rétt að upplýsa yður um að ég hef það til skoðunar að taka ákveðna þætti málsins til meðferðar á grundvelli frumkvæðisheimildar minnar, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Fari svo verður yður haldið upplýstum um framvindu málsins. Þá minni ég jafnframt á að umboðsmaður Alþingis hefur m.a. því hlutverki að gegna að hafa eftirlit með aðstæðum frelsissviptra, þ. á m. fanga, á almennum grunni. Athugasemdir yðar verða hafðar til hliðsjónar við framkvæmd þess eftirlits. Það hefur þó ekki áhrif á framangreinda niðurstöðu mína um að ekki séu forsendur til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar að svo stöddu.