Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 12489/2023)

Kvartað var yfir barnavernd í sveitarfélagi og tilteknum starfsmönnum hennar vegna synjunar um afhendingu gagna í forsjármáli, m.a. dómsúrskurði í tengslum við það.  

Viðkomandi hafði fengið tiltekin gögn og verið leiðbeint um kæruleiðir vegna takmörkunar á aðgengi að öðrum. Þar sem ekki varð ráðið að sú takmörkun hefði verið borin undir æðra stjórnvald voru ekki skilyrði til að umboðsmaður aðhefðist frekar að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 25. janúar 2024.

 

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 4. desember sl. sem beint er að Barnavernd X og nafngreindum starfsmönnum hennar og lýtur að því að yður hafi verið synjað um afhendingu gagna í forsjármáli yðar, m.a. dómsúrskurði í tengslum við það. Jafnframt er vísað til annarra samskipta yðar við starfsfólk umboðsmanns vegna málsins.

  

II

Í tilefni af kvörtun yðar sem þér beinduð til umboðsmanns Alþingis 6. júlí 2023 og laut að töfum á afgreiðslu beiðnar yðar um gögn frá X var sveitarfélaginu ritað bréf 10. júlí þess mánaðar þar sem óskað var upplýsinga m.a. um hvort beiðni yðar væri þar til meðferðar. Bárust svör 25. júlí sama mánaðar þar sem kom fram að yður hafi þegar verið afhent tiltekin gögn en verið leiðbeint um kæruleiðir vegna takmörkunar á aðgengi að hluta þeirra. Í samræmi við framangreint lauk umboðsmaður athugun sinni á málinu en tók þó fram að ef þér færuð þá leið að bera ákvörðun X um að takmarka aðgang yðar að gögnum málsins undir æðra stjórnvald gætuð þér leitað til hans að nýju ef þér telduð þér beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu þess.

Af kvörtunum yðar nú og þeim gögnum sem þér afhentuð umboðsmanni 21. desember sl. verður ráðið að hún lúti að sömu atriðum og kvörtun yðar í júlí sl. Ekki verður þó ráðið að þér hafið borið framangreinda takmörkun á afhendingu gagna undir æðra stjórnvald í samræmi við framangreindar leiðbeiningar til yðar þess efnis.

  

III

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í því. Ákvæði þetta er einkum byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af ákvæðinu leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt innan stjórnsýslunnar. Á grundvelli þessa hef ég litið svo á að ekki sé heimilt að taka mál til meðferðar  vegna kvörtunar þegar fyrir liggur að sá sem kvartar hefur átt þess kost að kæra málið til æðra stjórnvalds en kærufrestur hefur liðið án þess að hann hafi nýtt sér þá heimild.

Ástæða þess að ég rek framangreint er sú, líkt og fram kom í bréfi umboðsmanns til yðar 25. júlí 2023, að þér hafið fengið tiltekin gögn afhent 24. júlí sl. en verið leiðbeint um kæruleiðir vegna takmörkunar á aðgangi að gögnunum. Kvörtun yðar nú fylgdi jafnframt afrit af staðfestingu yðar á móttöku gagna.

Þar sem ekki verður ráðið að þér hafið borið framangreinda takmörkun á afhendingu gagna undir æðra stjórnvald eru ekki skilyrði að lögum til að ég geti fjallað nánar um kvörtun yðar. Það athugast í þessu sambandi að á meðal þeirra gagna sem þér hafið afhent umboðsmanni er afrit af handritaðri beiðni yðar 21. september 2023 um afhendingu „dómsúrskurðar“ í forsjármáli yðar og svar X við þeirri beiðni. Því svari fylgdi afrit af úrskurði barnaverndarráðs 10. nóvember 1993 þar sem staðfestur var úrskurður Barnaverndarnefndar Y um að þér, og móður barnsins, væruð svipt forsjá þess.

  

IV

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ef þér þarfnist frekari upplýsinga eða leiðbeininga er yður velkomið að hafa samband við skrifstofu umboðsmanns í síma 510-6700 á frá 9:00-11:30 og 12:30-15:00 alla virka daga og ræða við lögfræðing.