Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Börn. Umgengni.

(Mál nr. 12498/2023)

Kvartað var yfir málsmeðferðartíma hjá sýslumanninum á Suðurnesjum vegna beiðni um úrskurð um umgengni við barn sem lögð var fram hjá embættinu tæplega ári fyrr. Einnig var bent á langan málsmeðferðartíma hjá embættinu og sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu vegna eldri umgengnismála.  

Ljóst var að eldri málin féllu utan þess ársfrests sem gefst til að kvarta til umboðsmanns auk þess sem þau höfðu ekki verið kærð til dómsmálaráðuneytisins. Hvað fyrra umkvörtunarefnið snerti varð ekki annað séð en málið væri í virkum farvegi hjá sýslumanninum. Ekki var því tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu en viðkomandi var bent á að kæra mætti tafir á málsmeðferðinni til dómsmálaráðherra.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. janúar 2024.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 10. desember sl. yfir málsmeðferðartíma sýslumannsins á Suðurnesjum vegna beiðni yðar um úrskurð um umgengni við son yðar sem lögð var fram hjá embættinu 30. janúar 2023. Þá hefði embættið ekki svarað fyrirspurn yðar 12. desember sl. vegna málsins. Í kvörtun yðar var einnig bent á langan málsmeðferðartíma annars vegar hjá sýslu­manninum á Suðurnesjum og hins vegar hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu vegna eldri umgengnismála sem þér hafið haft til meðferðar hjá embættunum tveimur.

Vegna kvörtunar yðar bendi ég yður á að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslu­gerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Þá er kveðið á um það í 3. mgr. 6. gr. sömu laga að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Vegna kvörtunarinnar hafði starf­s­maður minn samband við yður símleiðis 21. desember sl. til að fá gleggri mynd af umkvörtunar­­efninu auk þess sem óskað var eftir því að þér afhentuð umboðsmanni frekari gögn vegna málsins. Í símtalinu kom fram að eldri málin tvö féllu utan téðs ársfrests auk þess sem þau voru ekki kærð til dómsmála­ráðuneytisins á grundvelli 78. gr. barnalaga nr. 76/2003. Það eru því ekki skilyrði að lögum til að taka þennan þátt í kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Varðandi þann þátt í kvörtun yðar er lýtur að málsmeðferðartíma sýslumannsins á Suðurnesjum og varðar beiðni yðar um úrskurð um umgengni 30. janúar 2023 verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að málið sé í virkum farvegi hjá sýslumanninum á Suðurnesjum. Verður og ráðið að hinn 12. desember 2023 hafi embættið afhent yður skýrslu vegna viðtala við barn yðar í tilefni af fyrirspurn yðar þar um sama dag. Munu viðtöl við barnið hafa farið fram 17. og 23. október þess árs en skýrslan mun vera dagsett 8. desember. Þá hefur komið fram af hálfu yðar að þér hafið komið á framfæri athugasemdum vegna skýrslunnar í kjölfar þess að hún var afhent yður. Eftir því sem fram kemur í tölvubréfi yðar til umboðsmanns 3. janúar sl. höfðu þá engin viðbrögð við athugasemdum yðar borist. Að þessu gættu tel ég ekki tilefni til að taka erindi yðar til frekari athugunar að svo stöddu. Lýk ég því hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Vegna kvörtunar yðar og þeirrar stöðu sem uppi er í máli yðar tel ég rétt að benda yður á að samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimilt að kæra óhæfilegar tafir á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds, sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Í ljósi þessa bendi ég yður á að samkvæmt að samkvæmt 78. gr. barnalaga nr. 76/2003 er heimilt að kæra stjórnvalds­ákvarðanir teknar samkvæmt þeim lögum til dómsmálaráðherra. Ef þér teljið sérstakt tilefni til getið þér því freistað þess að kæra tafir á málsmeðferð sýslumannsins á Suðurnesjum til dómsmálaráðherra. Teljið þér yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu dómsmálaráðherra, getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.