Heilbrigðismál. Eftirlitshlutverk landlæknis. Læknisvottorð.

(Mál nr. 3653/2002)

A kvartaði yfir afgreiðslu landlæknis á erindi þar sem hann óskaði eftir áliti á vinnubrögðum læknisins B við útgáfu á læknisvottorði vegna dóttur hans. Í bréfi landlæknisembættisins til A kom fram að vottorðið hefði verið skoðað en ekki væru gerðar við það athugasemdir.

Umboðsmaður lauk máli þessu með áliti, dags. 3. apríl 2003. Þar vék hann að ákvæði 18. gr. læknalaga nr. 53/1988 sem mælir fyrir um að allir læknar séu háðir eftirliti landlæknis og að honum beri að gæta þess að læknar „haldi ákvæði“ laganna og annarra heilbrigðislaga. Þá vísaði hann til 28. gr. sömu laga sem mælir fyrir um tiltekin stjórnsýsluviðurlög sem landlæknir og eftir atvikum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skal beita ef læknir vanrækir skyldur sínar, fer út fyrir verksvið sitt eða brýtur í bága við fyrirmæli heilbrigðislaga. Umboðsmaður lagði þann skilning í svar landlæknisembættisins til A að það hefði verið afstaða þess að ekki væri tilefni til að beita úrræðum 28. gr. læknalaga gagnvart B. Taldi umboðsmaður ekki forsendur til þess að gera athugasemd við þá niðurstöðu.

Í skýringum embættisins til umboðsmanns kom fram sú afstaða að umrætt vottorð hefði staðist „fyllilega 11. gr. læknalaga og reglur um gerð og útgáfu læknisvottorða nr. 586/1991“. Vék umboðsmaður að þeim reglum og taldi að við mat á því hvort umrætt vottorð hefði uppfyllt kröfur 3. gr. þeirra yrði að hafa í huga að verulegar líkur voru á því að það hefði áhrif á framgang í ágreiningsmáli sem var til úrlausnar sýslumanns um rétt A til að umgangast dóttur sína. Taldi hann að 3. mgr. 3. gr. reglnanna yrði ekki skilin öðruvísi en að í vottorði þyrfti að koma fram á hverju álit læknis byggðist, þar á meðal hvort það byggðist á frásögn foreldris um hegðun og atferli barns eða sjálfstæðri athugun læknis á barninu. Áleit umboðsmaður því ástæðu til að gera athugasemd við þá afstöðu landlæknisembættisins að umrætt læknisvottorð stæðist fyllilega umræddar reglur. Hann taldi sig hins vegar ekki hafa forsendur til að leggja mat á hvort ítarlegt viðtal við annað foreldri uppfyllti þá kröfu að læknir hefði „sjálfur sannreynt“ það sem staðhæft væri í vottorði, sbr. 1. ml. 3. mgr. 3. gr. reglnanna, eða hvort útgáfa vottorðsins hefði stangast á við 2. ml. 1. mgr. 11. gr. læknalaga þar sem sú skylda er lögð á lækni að votta það eitt sem „hann veit sönnur á“. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til landlæknisembættisins að framvegis yrði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu við almennt eftirlit með útgáfu læknisvottorða.

Með bréfi til landlæknisembættisins, dags. 29. janúar 2004, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort embættið hefði gert einhverjar tilteknar ráðstafanir í tilefni af framangreindu áliti mínu og þá í hverju þær ráðstafanir felist. Svar landlæknis er dagsett 26. mars 2004 og segir þar meðal annars eftirfarandi:

„Í reglum um gerð og útgáfu læknisvottorða nr. 586/1991 kemur fram, eins og umboðsmaður bendir réttilega á, að læknir skuli ekki staðhæfa annað í vottorði en það sem hann hefur sjálfur sannreynt. Eins og flestum er kunnugt byggir vinnulag lækna við sjúklinga einkum á fernum þáttum: sögu, skoðun/rannsókn, áliti/klínísku mati og áætlun. Ljóst er að þegar saga er tekin um vandamál er lýtur að barni byggir hún alltaf á upplýsingum einhvers fullorðins, oftast foreldri eða forráðamanns. Nauðsynlegur hluti af starfi læknis er að meta ástand sjúklings og horfur, með öðrum orðum að meta hver framvinda sjúkdóms verður í nánustu framtíð. Þessu má mjög oft finna stað í læknisvottorðum, enda er tilgangur þeirra slíkt mat. Ekki er venja að geta ítarlegra heimilda um hvaðan upplýsingar koma, umfram það sem augljóst má vera af orðalagi vottorða.

Í ljósi þessa, og að umboðsmaður taldi ekki ástæðu til efnislegra athugasemda við vottorð það sem tilefni varð til samskipta umboðsmanns við Landlæknisembættið, taldi landlæknir ekki sérstaka ástæðu til frekari aðgerða í þessu máli. Segja má að reglur um læknisvottorð séu skýrar og ekki sérstakt tilefni til að árétta þær. Þær eru eigi að síður reglur og geta aldrei tekið til allra þeirra þátta sem til álita koma þegar læknisvottorð eru rituð. Ekki hafa hingað til komið upp mál þar sem sá þáttur læknisvottorða er umboðsmaður hefur áhyggjur af, hafi valdið misskilningi. Landlæknir mun að sjálfsögðu hafa ábendingar umboðsmanns í huga ef slík mál koma upp og taka tillit til ábendinganna við aðgerðir sínar gagnvart þeim heilbrigðisstarfsmanni sem þá kann að eiga í hlut.“