Almannatryggingar. Ellilífeyrir.

(Mál nr. 12557/2023)

Kvartað var yfir meðferð Tryggingastofnunar á tekjum úr lífeyrissjóði og óskað eftir að skýrt yrði hvernig ríkisskattstjóri og Tryggingastofnun gætu skilgreint þær með sitt hvorum hættinum.  

Umboðsmaður veitir hvorki ráðgjöf eða svör við almennum spurningum eða ábendingum um réttarstöðu einstaklinga eða lögaðila. Viðkomandi var bent á að kæra mætti ákvarðanir Tryggingastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. janúar 2024.

  

   

Vísað er til erindis yðar til umboðsmanns Alþingis 15. janúar sl. vegna meðferðar Tryggingastofnunar á tekjum yðar úr lífeyrissjóði. Óskið þér að skýrt verði hvernig tvær ríkisstofnanir, ríkisskattstjóri og Tryggingastofnun, geta skilgreint lífeyristekjur yðar á með sitt hvorum hættinum.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem hefur á hendi stjórnsýslu kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Af framansögðu leiðir að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir tiltekin ákvörðun eða athöfn stjórnvalds í máli þess sem kvörtun ber fram. Af þessu leiðir jafnframt að umboðsmaður veitir ekki skriflega ráðgjöf eða svör við almennum spurningum eða ábendingum sem honum berast um réttarstöðu einstaklinga eða lögaðila. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laganna gildir enn fremur að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Unnt er að kæra ákvarðanir Tryggingastofnunar, sem varða  grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta eða greiðslna, til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Kveðið er á um skilyrði og fjárhæð ellilífeyris í III. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Samkvæmt þeim lögum er Tryggingastofnun skylt að veita almenningi þjónustu og ráðgjöf um réttindi og skyldur samkvæmt lögunum, sbr. b-lið 2. mgr. 9. gr. og 45. gr. Ef þér eruð í vafa um hvernig fjárhæð ellilífeyris yðar frá Tryggingastofnun skuli ákvörðuð kann stofnunin því að geta leiðbeint yður þar um. 

Með vísan til þess sem að framan greinir læt ég athugun minni á máli yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.