Almannatryggingar. Endurkrafa ofgreiddra bóta. Leiðbeiningarskylda stjórnvalda. Endurupptaka.

(Mál nr. 12475/2023)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja umsókn um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta í kjölfar ákvörðunar stofnunarinnar um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2021. Þá lá fyrir að nefndin hafnaði í október 2023 beiðni um endurupptöku málsins. Athugasemdirnar lutu einkum að því að starfsmaður Tryggingastofnunar hefði vanrækt að gera nauðsynlegar athugasemdir við tekjuáætlun, í aðdraganda umsóknar um greiðslur frá stofnuninni, sem hefði leitt til endurgreiðslukröfunnar.  

Umboðsmaður gerði grein fyrir lagagrundvelli málsins, þ. á m. um endurkröfurétt Tryggingastofnunar á hendur bótaþegum sem hún hefði ofgreitt og heimild stofnunarinnar til að falla frá endurkröfu eða fullu eða hluta ef alveg sértstakar aðstæður væru fyrir hendi. Við mat á því skyldi einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann hefði verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Ekki varð annað ráðið en bæði stofnunin og nefndin hefðu tekið afstöðu til atvika í aðdraganda þess að tekjuáætlunin var lögð fram og fallist að viðkomandi hefði verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Hins vegnar leiddi það ekki eitt og sér til niðurfellingar kröfunnar heldur þyrfti að meta aðstæður heildstætt, m.a. með hliðsjón af fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum. Að frágengni því mati hefði verið verið niðurstaða nefndarinnar að ekki væru fyrir hendi alveg sérstakar aðstæður til að fella kröfuna niður. Í ljósi þessa og gagna málsins að öðru leyti taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu.  

Hvað endurupptökubeiðnina snerti  varð ekki ráðið að nefndin hefði reist úrskurð sinn á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik eða að aðstæður í málinu hefðu breyst þannig að ákvæði stjórnsýslulaga um endurupptöku ættu við. Þá varð ekki séð að lögð hefðu verið fram gögn sem bentu til þess að veigamiklar ástæður mæltu með endurupptöku málsins á grundvelli óskráðra heimilda. Ekki var því tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að synja beiðni um að taka málið aftur til meðferðar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 24. janúar 2024.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar sem beint er að Tryggingastofnun og úrskurðarnefnd velferðarmála og lýtur að úrskurði nefndarinnar 24. ágúst 2023 í máli nr. 68/2023. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar frá 24. ágúst 2022 um að synja umsókn yðar um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta í kjölfar ákvörðunar stofnunarinnar um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2021. Þá liggur fyrir að úrskurðarnefndin synjaði 18. október 2023 beiðni yðar um endurupptöku málsins.

Af kvörtun yðar, svo og stjórnsýslukæru yðar til úrskurðarnefndar velferðarmála, verður ráðið að athugasemdir yðar lúti einkum að því að þér teljið starfsmann Tryggingastofnunar hafa vanrækt að gera nauðsynlegar athugasemdir við tekjuáætlun yðar í aðdraganda umsóknar yðar um greiðslur frá stofnuninni sem leitt hafi til framangreindrar endurgreiðslukröfu.

  

II

Um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega og upplýsingar um tekjur er fjallað í V. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Við töku ákvörðunar Tryggingastofnunar um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum yðar á árinu 2021 gilti ákvæði 1. mgr. 39. gr. laganna á þá leið að umsækjanda eða greiðsluþega væri skylt að taka þátt í meðferð máls, m.a. með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun nauðsynlegar upplýsingar svo unnt væri að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá var jafnframt skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á bætur eða greiðslur. Sömu reglu er nú að finna í 1. mgr. 47. gr. laganna. Í III. kafla sömu laga var mælt fyrir um lífeyristryggingar, þ. á m. greiðslur örorku- og ellilífeyris svo og fyrirkomulag þeirra. Í 16. gr. laganna var fjallað um tekjutryggingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skyldi standa að útreikningi þeirra greiðslna sem þar um ræddi. Í 2. mgr. greinarinnar sagði að til tekna samkvæmt III. kafla teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með tilteknum undan­tekningum. Um fjárhæð ellilífeyrisgreiðslna og áhrif tekna á þær er nú fjallað í 21. og 22. gr. laganna. Meginreglan er því sú að hvers kyns skattskyldar tekjur hafi áhrif á fjárhæð þeirra bóta sem Tryggingastofnun greiðir.

Í þágildandi 6. mgr. 16. gr. laganna kom fram að Tryggingastofnun skyldi hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur væru í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflaði úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið væri um í þágildandi 40. gr. laganna. Í 1. málslið 1. mgr. 45. gr. laganna kom fram að Tryggingastofnun skyldi reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggðist á. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar var Tryggingastofnun heimilt að endurskoða grundvöll bótaréttar hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem hefðu orðið á aðstæðum greiðsluþega. Sambærilegar reglur er nú að finna í 1. og 2. mgr. 53. gr. laganna.

Þá kom fram í 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna að hefði Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega samkvæmt lögunum skyldi stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kynni að öðlast rétt til. Þetta ætti þó eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli hefðu verið hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafaði af því að bótaþegi hefði ekki tilkynnt stofnuninni um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður. Einnig ætti Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum. Er nú mælt fyrir um reglur sama efnis í 1. og 2. mgr. 34. gr. laganna. Er þetta einnig áréttað í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Í 11. gr. reglugerðarinnar kemur hins vegar fram undanþága frá þeirri meginreglu að endurkrefja skuli um ofgreiddar bætur. Samkvæmt henni er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skuli þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.

      

III

Samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndarinnar mun hafa komið í ljós við endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótum vegna ársins 2021 að þér hefðuð samkvæmt álagningu opinberra gjalda af hálfu skattyfirvalda verið með hærri tekjur á árinu en kom fram í tekjuáætlun yðar. Reiknaðist stofnuninni svo til að þér hefðuð fengið greiddar á árinu 2.250.831 kr. en hefðuð átt að fá greitt 1.292.592. Að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta væri skuld yðar við stofnunina 656.874 kr. Í eftirfarandi rökstuðningi stofnunarinnar sem og úrskurði úrskurðarnefndarinnar eru forsendur endurreiknings og uppgjörs Tryggingastofnunar ítarlega raktar. 

Í kvörtuninni, svo og stjórnsýslukæru yðar til nefndarinnar, gerið þér, líkt og áður greinir, einkum athugasemdir við að starfsmaður Tryggingastofnunar hafi ekki gert athugasemdir við tekjuáætlun yðar. Verður því ráðið að þér teljið hafa hvílt á henni jákvæð skylda þess efnis sem hún hafi brugðist. Kvörtuninni fylgdi afrit af tölvupóstssamskiptum yðar við starfsmann stofnunarinnar á árinu 2021.

Í því máli sem til meðferðar var hjá úrskurðarnefndinni var tekin til úrskurðar krafa yðar um niðurfellingu endurgreiðslukröfu Tryggingastofnunar sem stofnunin hafði synjað 24. ágúst 2022. Við úrlausn málsins tók úrskurðarnefndin því afstöðu til framangreindra skilyrða 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um undanþágu frá endurkröfu. Vek ég í því sambandi, svo og í ljósi umkvörtunarefnisins, athygli yðar á því að í úrskurði úrskurðarnefndarinnar er við það mat vísað til þess að í greinargerð Tryggingastofnunar komi fram að stofnunin hafi fallist á að þér hefðuð verið í góðri trú um greiðslurétt yðar í skilningi 11. gr. reglugerðarinnar, líkt og einnig kemur fram í rökstuðningi stofnunarinnar 29. september 2022. Fæ ég því ekki annað ráðið en að Tryggingastofnun og úrskurðarnefndin hafi tekið afstöðu til atvika í aðdraganda þess að þér lögðuð fram tekjuáætlun yðar.

Að mati úrskurðarnefndarinnar leiddi þetta, eitt og sér, hins vegar ekki sjálfkrafa til þess að krafan yrði felld niður heldur þurfi að meta aðstæður yðar heildstætt með hliðsjón af öllum þeim atriðum sem tilgreind væru í 11. gr. reglugerðarinnar. Að frágengnu mati á öllum skilyrðum ákvæðisins, þ. á m. fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum yðar, og með hliðsjón af því að Tryggingastofnun dreifði eftirstöðvum kröfunnar umfram lagaskyldu, var það niðurstaða nefndarinnar að ekki væru fyrir hendi alveg sérstakar aðstæður í skilningi 11. gr. reglugerðarinnar.

Í samræmi við 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, beinist eftirlit umboðsmanns við þessar aðstæður fyrst og fremst að því hvort málsmeðferð og ákvörðun úrskurðarnefndarinnar hafi verið í samræmi við lög. Athugun umboðsmanns tekur þannig meðal annars til þess hvort fylgt hafi verið réttum málsmeðferðarreglum, hvort mat nefndarinnar hafi byggst á fullnægjandi upplýsingum og hvort þær ályktanir sem dregnar eru af þeim gögnum og upplýsingum sem lágu fyrir í málinu séu ekki bersýnilega óforsvaranlegar. Eftir sem áður verður að ætla nefndinni nokkurt svigrúm við hið efnislega mat á skilyrðum 11. gr. reglugerðarinnar og fellur það ekki undir starfssvið umboðsmanns að endurskoða mat hennar að þessu leyti nema sýnt þyki af gögnum máls að við matið hafi verið byggt á ómálefnalegum sjónarmiðum, fullnægjandi upplýsingar hafi ekki verið fyrir hendi eða að mat nefndarinnar og ályktanir hennar séu óforsvaranlegar.

Að þessu gættu og eftir að hafa kynnt mér úrskurð úrskurðarnefndarinnar og gögn málsins að öðru leyti, þ. á m. framangreind tölvupóstssamskipti yðar við starfsmann Tryggingastofnunar, tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þessa niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.

  

IV

Líkt og áður greinir synjaði úrskurðarnefndin beiðni yðar um endurupptöku málsins með úrskurði 18. október 2023. Laut beiðnin að sömu atriðum og upphafleg kæra yðar til nefndarinnar, þ.e. upplýsingagjöf og leiðbeiningum sem starfsmaður Tryggingastofnunar veitti yður.

Um endurupptöku er fjallað í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, sbr. 1. tölulið ákvæðisins, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Ákvæðið veitir því aðila máls rétt til endurupptöku að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum innan vissra tímamarka þó í samræmi við 2. mgr. 24. gr. sömu laga. Endurupptaka stjórnsýslumáls felur því í sér að stjórnvald tekur fyrri ákvörðun sína til nýrrar skoðunar, s.s. á grundvelli nýrra gagna eða upplýsinga sem þýðingu hafa fyrir niðurstöðu málsins.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að nefndin hafi reist úrskurð sinn 24. ágúst 2023 á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik eða að aðstæður í málinu hafi breyst þannig að 1. eða 2. töluliður 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993 hafi átt við. Þá fæ ég ekki séð að lögð hafi verið fram gögn sem bendi til þess að veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku málsins á grundvelli óskráðra heimilda stjórnvalda. Með hliðsjón af framangreindu tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að synja beiðni yðar um að taka málið til nýrrar meðferðar.

  

V

Í samræmi við framangreint lýk ég hér með umfjöllun minni um málið, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.