Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Almannatryggingar. Ellilífeyrir. Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

(Mál nr. 12451/2023)

Kvartað var yfir Tryggingastofnun a.v. vegna meintra brota á persónuverndarlöggjöf og h.v. vegna afgreiðslu erinda, samskipta og póstsendinga.  

Að hluta til beindist kvörtunin að ákvörðunum og samskiptum frá árinu 2021 og féll því utan þess ársfrests sem gefst til að kvarta til umboðsmanns. Hvað persónuverndarþáttinn snerti hafði verið leitað til Persónuverndar sem var með málið til meðferðar og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu. Að lokum varð ekki ráðið að afhending gagna af hálfu Tryggingastofnunar hefði verið borin undir úrskurðarnefnd velferðarmála og voru því ekki skilyrði að lögum til að fjalla um kvörtunina að því leyti.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. janúar 2024.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 6. nóvember sl. sem þér beinið að Tryggingastofnun ríkisins. Takið þér fram að um stjórnvaldskæru sé að ræða og tiltakið þér í fjórum töluliðum hvaða háttsemi Tryggingastofnunar hún lýtur að. Af kvörtuninni má ráða að þér hafið sent samrit til Persónuverndar vegna fyrsta og fjórða töluliðarins en þar lýsið þér háttsemi sem þér teljið fela í sér brot á persónuverndarlöggjöf. Að öðru leyti kvartið þér yfir háttsemi Tryggingastofnunar í samskiptum og póstsendingum til yðar og við afgreiðslu erinda yðar, sem þér teljið fara í bága við lög að ýmsu leyti.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. skal kvörtun berast innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Ástæða þess að þetta er nefnt er að ekki verður betur séð en að kvörtun yðar beinist að hluta að ákvörðunum og samskiptum yðar við stofnunina, þ.e. undir öðrum tölulið sem snýr að bréfi Tryggingastofnunar til tilgreindra lífeyrissjóða í mars 2021 og laut að töku lífeyris af hálfu yðar, sem eru utan þess frests.

Hins vegar beinist kvörtun yðar, líkt og áður greinir, að háttsemi sem þér hafið borið undir Persónuvernd. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 er ekki gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni.

Í samræmi við þetta, og þar sem þér hafið borið undir Persónuvernd þau atriði sem vísað er til undir fyrsta og fjórða tölulið kvörtunar yðar og snúa að lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, eru ekki skilyrði til þess að þau verði tekin til frekari meðferðar af hálfu umboðsmanns. Er þá haft í huga að samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laganna er Persónuvernd eftirlitsstjórnvald samkvæmt VI. kafla reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og annast Persónuvernd eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar, laga nr. 90/2018, sérákvæða í lögum sem fjalla um vinnslu persónuupplýsinga og annarra reglna um efnið.

Viðvíkjandi þau atriði í kvörtun yðar, sem lúta að afhendingu gagna af hálfu Tryggingastofnunar og vísað er til undir öðrum tölulið hennar, hafið þér upplýst umboðsmann, sbr. tölvubréf yðar 12. nóvember 2023 og meðfylgjandi gögn, um að hinn 6. þess mánaðar hafi lögmanni yðar í Þýskalandi borist gögn frá Tryggingastofnun sem verður ráðið að tengist m.a. umsókn yðar um töku ellilífeyris frá öðru EES-ríki sem og umsókn um snemmtöku ellilífeyris. Verður og ráðið að Tryggingastofnun hafi afgreitt umsókn yðar, sbr. bréf stofnunarinnar þess efnis 31. október 2022. Um aðgang að gögnum stjórnsýslumáls fer samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laganna má kæra synjun eða takmörkun til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Kæra skal borin fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Líkt og fram kemur í síðastnefndu bréfi er unnt að kæra ákvörðun Tryggingastofnunar í tengslum við töku ellilífeyris til úrskurðarnefndar velverðarmála. Þar sem ekki verður ráðið að þér hafið borið téða afhendingu gagna af hálfu Tryggingastofnunar undir úrskurðarnefnd velferðarmála er ljóst, með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og þeirra sjónarmiða sem búa reglunni að baki, og áður voru rakin, að ekki eru skilyrði að lögum til að ég geti fjallað nánar um kvörtun yðar að þessu leyti.

Með vísan til framangreinds læt ég umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10 gr. laga nr. 85/1997.