Skattar og gjöld.

(Mál nr. 12585/2023)

Kvartað var yfir ríkisskattstjóra og „skattsvikum í skjóli embættisins“.  

Þar sem kvörtunin laut ekki að ákvörðunum, athöfnum eða athafnaleysi stjórnvalda gagnvart viðkomandi voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hana.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. janúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 29. janúar sl. sem beinist að ríkisskattstjóra. Samkvæmt kvörtuninni lýtur hún að „skattsvikum í skjóli embættisins“. Kvörtuninni fylgdu engin gögn né frekari upplýsingar að öðru leyti en að í henni er vísað til gagna sem hafi þegar verið send umboðsmanni en óljóst er við hvaða gögn er átt. [...]

Í tilefni af framangreindu er rétt að taka fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í lögunum er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þá er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í samræmi við þetta er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðsmanns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

Þar sem ekki verður ráðið að kvörtun yðar lúti að ákvörðunum, athöfnum eða athafnaleysi stjórnvalda í framangreindum skilningi er ljóst að lagaskilyrði brestur til þess að hún verði tekin til frekari athugunar. Læt ég athugun minni vegna hennar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.