Landbúnaður. Eignarréttur.

(Mál nr. 12582/2023)

Komið var á framfæri ábendingu í tengslum við nýlegt ákvæði jarðalaga um forkaupsrétt sameigenda og að meinbugir kynnu að vera á tilteknum ákvæðum laganna.

Þar sem ekki var um formlega kvörtun að ræða var málinu lokið með því að skrá það sem ábendingu sem kynni að verða tekin til athugunar ef tilefni þætti til.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. janúar 2024.

   

   

Vísað er til erindis yðar 29. janúar sl. þar sem þér komið á framfæri ábendingu í tengslum við nýlegt ákvæði jarðalaga nr. 81/2004 um forkaupsrétt sameigenda, sbr. lög nr. 74/2022, um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna (óskipt sameign, landamerki o.fl.). Segir í erindinu að í því felist ábending um að meinbugir kunni að vera á tilgreindum ákvæðum jarðalaga að þessu leyti í kjölfar gildistöku laga nr. 74/2022. Erindinu fylgdi álit [...] sem mun hafa verið samið að beiðni stjórnar X.

Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði.

Þær ábendingar, sem felast í erindi yðar, verða skráðar. Í því sambandi tek ég fram að við mat á almennum ábendingum sem þessum er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hags­muna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verklagið er þannig að verði málefnið tekið til athugunar er viðkomandi ekki upplýstur um það sérstaklega heldur er til­kynnt um athugunina á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til framangreinds læt ég máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.