Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 12580/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu kærunefndar húsamála.  

Ljóst var, skv. upplýsingum nefndarinnar til viðkomandi, að málið yrði tekið fyrir á næsta fundi hennar. Ekki var því ástæða til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. janúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 28. janúar sl. sem þér beinið að kærunefnd húsamála og lýtur að töfum á afgreiðslu nefndarinnar á máli nr. [...].

Líkt og kom fram í bréfi umboðsmanns til yðar 24. nóvember 2023 vegna kvörtunar yðar 6. sama mánaðar er laut að sama umkvörtunarefni (mál nr. 12444/2023), er samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til með­ferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni.

Í tölvubréfi starfsmanns kærunefndarinnar 9. janúar sl., en afrit hans fylgdi kvörtuninni, var yður tjáð að mál yðar sé á dagskrá næsta fundar nefndarinnar 5. febrúar nk. Þar sem að kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu nefndarinnar á máli yðar og í ljósi þess að fyrir liggur að mál yðar er á dagskrá næsta fundar hennar tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar.

Með hliðsjón af framangreindu læt ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.