Sjávarútvegur.

(Mál nr. 12579/2023)

Kvartað var yfir matvælaráðherra og ríkisstjórninni. Annars vegar vegna skráningar sjávarútvegsfyrirtækja í Kauphöllina og hins vegar vegna takmarkana á strandveiðum með handfærum.  

Þar sem kvörtunin laut ekki að ákvörðunum, athöfnum eða athafnaleysi stjórnvalda gagnvart viðkomandi voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hana. Jafnframt var bent á að það væri hvorki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum um tiltekin málefni eða réttarsvið, né taka afstöðu til þess hvernig tekist hefði til með löggjöf Alþingis.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. janúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 28. janúar sem þér beinið að matvælaráðherra og ríkisstjórninni. Af kvörtuninni verður ráðið að hún lúti annars vegar að skráningu sjávarútvegsfyrirtækja í Kauphöllina og hins vegar að takmörkunum á strandveiðum með handfærum. Þá vísast til símtals yðar við starfsmann umboðsmanns 30. þess mánaðar þar sem þér komuð á framfæri efasemdum um að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og takmarkanir á veiðitímabili strandvæða samrýmist áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna 24. október 2007 í máli nr. 1306/2004. 

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu aðila sem heyrir undir eftirlit umboðsmanns kvartað af því tilefni til embættisins. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

Þá er athygli yðar vakin á því að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett.

Af kvörtun yðar, eins og hún er fram sett, verður ekki ráðið að hún lúti að tiltekinni athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds í framangreindum skilningi. Þá verður ekki annað sé en að hún lúti að hluta til að fyrirkomulagi sem Alþingi hefur tekið afstöðu til með setningu laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar.

Með vísan til framangreinds er umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.