Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Fullnusta refsinga. Reynslulausn.

(Mál nr. 12538/2024)

Kvartað var yfir afgreiðslu Fangelsismálastofnunar á umsókn um reynslulausn, þ.e. að umsóknin hefði ekki enn verið afgreidd og upplýsingagjöf í tenglsum við hana.  

Í kjölfar skýringa stofnunarinnar, m.a. um það hvenær reynslulausn kæmi til greina, taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar og lauk málinu með bréfi 5. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 2. janúar sl. vegna afgreiðslu Fangelsismálastofnunar á umsókn yðar um reynslulausn. Af kvörtuninni má ráða að þér séuð ósáttir við afgreiðslutíma og upplýsingagjöf í tengslum við meðferð umsóknarinnar. Í samtali starfsmanns umboðsmanns við yður 12. janúar sl. kom fram að þér hefðuð sótt um reynslulausn að liðnum 2/3 hlutum refsitímans fyrir nokkrum mánuðum en að umsókn yðar hefði ekki enn verið afgreidd. Þér hefðuð fyrir nokkru haft samband við Fangelsismálastofnun til þess að athuga hvað liði afgreiðslu umsóknarinnar og fengið þau svör að hún yrði afgreidd þegar nær drægi tímamarkinu sem um ræðir.

Í tilefni af kvörtuninni var Fangelsismálastofnun ritað bréf 16. janúar sl. þar sem óskað var eftir upplýsingum sem gætu varpað ljósi á stöðu umsóknar yðar. Svör bárust með bréfi 22. janúar sl. en þar segir að stofnuninni hafi borist beiðni yðar um reynslulausn þann 8. nóvember sl. Um sé að ræða umsókn um reynslulausn að liðnum 2/3 hlutum refsitímans en tímamarkið sem um ræðir er 15. júní næstkomandi. Í bréfi stofnunarinnar segir að reynt sé að svara erindum eins fljótt og unnt er eftir að þau berast. Að mati hennar sé þó nauðsynlegt að fá frekari upplýsingar um ólokin mál yðar sem til meðferðar eru hjá lögreglu áður en mögulegt sé að afgreiða beiðnina en reynt verði að koma því við eins fljótt og auðið er.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum og upplýsingagjöf af hálfu Fangelsismálastofnunar og í ljósi þess sem fram kom um framvindu málsins í skýringum stofnunarinnar sem að ofan greinir tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni.

Í kvörtuninni vekið þér einnig athygli á skertu aðgengi fanga að eyðublöðum til þess að kvarta til umboðsmanns Alþingis. Ábendingar yðar að þessu leyti verða skráðar. Ég vek þó að þessu leyti athygli á umfjöllun í nýlegri eftirlitsskýrslu umboðsmanns vegna heimsóknar í fangelsið Litla-Hrauni þar sem m.a. eru gerðar athugasemdir í tengslum við kvörtunarleiðir og kynningu á þeim. Skýrsluna má nálgast á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til framangreinds, lýk ég meðferð minni á kvörtuninni, sbr. a-liður 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.