Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 12583/2024)

Kvartað var yfir notkun ríkislögreglustjóra og lögreglustjóraembætta á lögreglumerki sem og notkun ríkislögreglustjóra á smeygum. Hvorugt væri í samræmi við reglugerð um einkenni og merki lögreglunnar.  

Þar sem kvörtunin laut ekki að ákvörðunum, athöfnum eða athafnaleysi stjórnvalda gagnvart viðkomandi voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hana. Aftur á móti var erindið skráð sem ábending sem kynni að verða tekin til skoðunar síðar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 5. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 29. janúar sl. þar sem þér komið á framfæri athugasemdum við notkun ríkislögreglustjóra og lögreglustjóraembætta um landið allt á lögreglumerki, sem þér teljið að samræmist ekki reglugerð nr. 1151/2011, um einkenni og merki lögreglunnar, svo og notkun ríkislögreglustjóra á smeygum sem sé ekki í samræmi við viðauka við sömu reglugerð.

Um störf umboðsmanns Alþingis gilda samnefnd lög nr. 85/1997. Samkvæmt 2. gr. laganna er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt, sem nánar greinir í lögunum, og að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu stjórnvalds kvartað af því tilefni til umboðsmanns Alþingis. Í þessu ákvæði felst að almennt verður ekki kvartað til umboðsmanns nema kvörtunin snerti tiltekna athöfn eða ákvörðun stjórnvalds, sem felur í sér beitingu stjórnsýsluvalds. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum um tiltekin málefni eða réttarsvið án þess að um tiltekna athöfn sé að ræða.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að hún beinist að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds er snertir hagsmuni yðar umfram aðra eru ekki uppfyllt skilyrði til að hún verði tekin til frekari meðferðar af hálfu umboðsmanns.

Að því sögðu verður litið svo á að í kvörtun yðar felist ábending til umboðsmanns um atriði, sem vert kann að vera fyrir umboðsmann að taka til skoðunar á grundvelli frumkvæðisheimildar í 5. gr. laga nr. 85/1997, og verður hún skráð sem slík. Í því sambandi tek ég fram að við mat á almennum ábendingum er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna er tengjast málefninu, sem um ræðir, og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verklagið er þannig að verði málefni tekið til athugunar er viðkomandi ekki upplýstur um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til framangreinds læt ég máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.