Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Börn. Meðlag. Leiðbeiningarskylda stjórnvalda. Svör við erindum.

(Mál nr. 12486/2023)

Kvartað var yfir starfsháttum Innheimtustofnunar sveitarfélaga og gerðar athugasemdir við að hún afhenti ekki úrskurð vegna faðernis barna sem viðkomandi taldi ósannað að væru hans.  

Fyrir lá að starfsmaður Innheimtustofnunar hafði bent á að fyrirspurnum um grundvöll meðlagsskyldu bæri að beina til þeirra sem greiddu út meðlög, þ.e. í þessu tilfelli til Tryggingastofnunar á Íslandi og viðeigandi stofnunar í tilteknu landi. Ekki varð annað ráðið en Innheimtustofnun hefði að meginstefnu brugðist við erindum og fyrirspurnum og leiðbeint þannig að ekki var tilefni til að taka kvörtunina til frekari meðferðar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 5. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 5. desember 2023 yfir starfsháttum Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Verður helst ráðið að þér gerið athugasemdir við  að stofnunin afhendi yður ekki tiltekinn úrskurð er lýtur að faðerni barna sem þér teljið ósannað að séu yðar.

Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að telji umboðsmaður þegar í upphafi að kvörtun gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar eða uppfylli ekki skilyrði laganna til frekari meðferðar skuli hann tilkynna þeim sem kvartað hefur þá niðurstöðu. Kvörtuninni fylgdu afrit af tölvupóstsamskiptum yðar við Innheimtustofnun sveitarfélaga, sem ýmist lúta að beiðnum yðar um að samið yrði um greiðslutilhögun á meðlagsskuld yðar og beiðnum yðar um upplýsingar og gögn í tengslum við meðlagsskyldu yðar.

Fyrir liggur að í tölvubréfi 31. október 2022 tjáði starfsmaður Innheimtustofnunar yður að fyrirspurnum varðandi grundvöll meðlagsskyldu beri að beina til þeirra aðila sem greiði út meðlög, nánar tiltekið Tryggingastofnunar á Íslandi og þeirrar stofnunar sem sinni þessu hlutverki í X. Þær stofnanir taki ákvörðun um lögmæti þeirra skjala sem búi að baki meðlagsskyldunni og taki ákvörðun um fyrirframgreiðslu meðlaga samkvæmt þeim. Innheimtustofnun innheimti svo skuld samkvæmt því. Athygli yðar var þó vakin á að meðlagsskylda yðar grundvallist á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. 587/2005 og tveimur úrskurðum sýslumanns í Færeyjum frá árinu 2004. Þá fylgdi einnig afrit af tölvubréfi Tryggingastofnunar til yðar þar sem fram kemur að stofnunin greiði ekki meðlag til barnsmóður yðar sem ekki er búsett hér á landi en ekki verður ráðið hvenær eða af hvaða tilefni stofnunin upplýsti yður um þetta.

Að þessu gættu, og þar sem ekki verður annað ráðið en að Innheimtustofnun sveitarfélaga hafi að meginstefnu brugðist við erindum og fyrirspurnum yðar og veitt yður leiðbeiningar tel ég að ekki sé tilefni til að taka kvörtunina til frekari meðferðar. Læt ég því umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.