Alþingi og stofnanir þess.

(Mál nr. 12594/2024)

Óskað var eftir upplýsingum um kostnað við byggingu nýrrar skrifstofubyggingar Alþingis.  

Var viðkomandi leiðbeint með að leita til Alþingis vegna þessa.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. febrúar 2024.

  

   

Vísað er til erindis yðar 3. febrúar sl. þar sem þér óskið eftir upplýsingum um kostnað við byggingu nýrrar skrifstofubyggingar Alþingis.

Í tilefni af erindi yðar skal tekið fram að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið. Þá er athygli yðar vakin á því að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og stofnana þess.

Í ljósi þess að erindi yðar felur ekki í sér kvörtun vegna tiltekinnar athafnar, athafnaleysis eða ákvörðunar stjórnvalds í framangreindum skilningi heldur fyrirspurn um upplýsingar er varða framkvæmdir á vegum Alþingis brestur lagaskilyrði til þess að hún verði tekin til frekari athugunar. Ég vek þó athygli yðar á því að yður kann að vera fært að beina fyrirspurn þess efnis til Alþingis.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á erindi yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.