Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 12591/2024)

Kvartað var yfir meðferð máls hjá Sjúkratryggingum.

Ekki varð annað ráðið en málið væri enn til meðferðar hjá stofnuninni og að leitað hefði verið til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna þess. Ekki voru því skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður tæki kvörtunina til athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til erindis yðar 2. febrúar sl., fyrir hönd A, sem var jafnframt komið á framfæri við úrskurðarnefnd velferðarmála, heilbrigðisráðherra og forstjóra Sjúkratrygginga Íslands. Af því verður ráðið að þar séu einkum gerðar athugasemdir við þá meðferð sem mál hans hefur fengið hjá Sjúkratryggingum.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og geta þeir, sem telja sig hafa verið beitta rangsleitni af stjórnvöldum, kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Í 6. gr. laganna er mælt fyrir um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Þar segir m.a. í 3. mgr. að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skulu fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra. Af framangreindum ákvæðum leiðir m.a. að umboðsmaður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka af­stöðu til þeirra eða á meðan það er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Ástæða þess að þetta er tekið fram er sú að ekki verður annað ráðið af erindi yðar en að mál A sé enn til meðferðar hjá Sjúkratryggingum Íslands, og að þér hafið fyrir hans hönd leitað til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna meðferðar málsins. Af þessum sökum eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu, sbr. þau sjónarmið sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Telji A sig beittan rangsleitni að lokinni meðferð stjórnvalda á máli hans er honum fært, eða yður fyrir hans hönd, að leita til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Lýk ég því umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.